24.02.1982
Efri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum.

Hinn 28. jan. s.l. tilkynnti ríkisstj. í sérstakri skýrslu, sem hún gaf út og var kynnt hér á Alþingi, að fyrirhugaðar væru margar aðgerðir í efnahagsmálum. Aðgerðir þessar miðuðu sérstaklega að því marki að hamla gegn verðbólgu og var þar ákveðin niðurfærsla verðlags sem svaraði 6% á næstu mánuðum. Fer þessi niðurgreiðsla verðlags fyrst og fremst fram með lækkun tolla og hækkun niðurgreiðslna á búvörum. Auk þess voru ýmsar aðrar ráðstafanir kynntar.

Fyrsti áfangi þessara efnahagsaðgerða kom til framkvæmda um s.l. mánaðamót með lækkun tolla um helming á ýmsum rafmagnsheimilistækjum, jafnhliða því sem niðurgreiðslur á búvörum voru verulega auknar um mánaðamótin.

Annar þáttur þessa máls er sú lagasetning sem felst í þessu frv., en þar er um að ræða nokkrar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs, sem einkum verða til hagsbóta fyrir útflutningsatvinnuvegina með lækkun launaskatts og lækkun stimpilgjalds, en jafnframt er að því stefnt að leggja sérstakt tollafgreiðslugjald á innflutning til að mæta þeim tekjumissi sem ríkissjóður verður fyrir vegna fyrrnefndra gjaldalækkana.

Frv. þetta er í nokkrum köflum. Í fyrsta lagi er um að ræða tollafgreiðslugjald sem lagt er á fob-verð vöru, 1%, og er það almenna reglan. Hins vegar eru allmargir vöruflokkar undanþegnir, eins og fram kemur í 2. mgr. 1. gr.: 1. Matvörur. 2. Vörur sem tengjast samningum okkar við Efnahagsbandalagið og EFTA, svonefndar EFTA-vörur. 3. Aðföng og hráefni til innlendrar framleiðslu sem þegar hafa verið felld niður gjöld af. 4. Gasolía, brennsluolía og flugvélaeldsneyti. 5. Skip, flugvélar og varahlutir til þeirra.

Sá háttur er hafður á, að í þeim tilvikum, þar sem 1% gjaldið er niður fellt, er lagt fast krónutölugjald á hverja sendingu.

Þessi kafli frv. hefur tekið lítils háttar breytingum í Nd. og er það 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. sem felldur hefur verið niður, en þar hafði verið gert ráð fyrir að við afgreiðslu á vörum úr tollvörugeymslu skyldi gjaldið lagt á alla vörusendinguna þegar í upphafi vegna fyrstu úttektar úr tollvörugeymslu. Að nánar athuguðu máli þótti þetta óþarfi og var því fellt niður við meðferð málsins í hv. Nd.

Við umr. um þetta mál í Nd. var nokkuð um það rætt, hvernig háttað yrði álagningu tollafgreiðslugjalds á vöru, sem tollar hafa verið felldir niður af eða verulega lækkaðir vegna heimilda í 6. gr. fjárlaga og 3. gr. tollskrárlaga, en þess er ekki sérstaklega getið í þessu frv. Ég svaraði spurningu um þetta atriði á þá leið í hv. Nd., að augljóst væri að þar sem tollar hefðu verið lækkaðir af vörum, sem kannske næmu tugum og jafnvel hundruðum prósenta, samanlögð aðflutningsgjöld á ég þá við, væri það auðvitað mikil smámunasemi, ef menn ætluðu ekki að fella niður tollafgreiðslugjald upp á 1%, og að sjálfsögðu yrði það gert. þetta á við t.d. ýmsar heimildir tollalega þegar hjálpargögn eða tæki eru keypt eða gefin af mannúðarástæðum og heimildir eru í tollalögum til niðurfellingar á tollum eða öðrum aðflutningsgjöldum. Að öðru leyti er ekki hægt að slá því föstu að tollafgreiðslugjald sé fellt niður í hverju einasta slíku tilviki. En ég held að óhætt sé að slá því föstu, að þegar um er að ræða niðurfellingu af líknar- eða mannúðarástæðum eigi sú regla tvímælalaust við. Um þetta verða settar sérstakar reglur sem enn eru ekki tilbúnar, en ég nefndi það sem hugsanlegan möguleika, án þess að því væri mikið sinnt í hv. Nd., að þessar reglur mætti vissulega bera undir fjh.- og viðskn. Ed. og Nd. ef menn vildu kynna sér þessar reglur áður en þær yrðu endanlegar ákveðnar.

Það er hins vegar hinn mesti misskilningur, sem fram kom hjá einum hv. þm. í Nd., að engar heimildir séu til slíkrar niðurfellingar. Þessar heimildir koma skýrt fram í 2. mgr. 2. gr. þar sem fjmrh., eins og segir í greininni, „getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæða þessa kafla, þ. á m. hvaða vörur skuli undanþegnar gjaldskyldu“ o. s. frv. Þar er heimild alveg tvímælalaust til að fella niður gjöld einmitt í þeim tilvikum sem hér um ræðir.

II. kafli frv. fjallar um launaskatt, en þar er breytt ýmsum ákvæðum launaskattslaganna. Má vissulega segja að eðlilegast hefði verið að flytja sérstakt frv. um launaskatt, en til þess að spara hv. þm. ómakið og spara þeim tíma var talið skynsamlegast að hafa þessar breytingar allar í einu frv.

Þessar breytingar, sem mestu máli skipta í sambandi við launaskattslögin, eru í fyrsta lagi þær, að launaskattur er lækkaður af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum í fiskverkun og í iðnaði. Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir því, að þó yrði þetta bundið við útflutnings- og samkeppnisiðnað. Var það þá með þeim rökum að það væri fyrst og fremst ástæða til að veita útflutnings- og samkeppnisframleiðslu stuðning af þessu tagi, en ef farið væri aftur á móti yfir í ráðstafana í efnahagsmálum. 2658 þjónustuiðnaðinn færu mörkin 'að verða afskaplega óglögg milli ýmiss konar þjónustuiðnaðar og svo aftur þjónustu og verslunar. Auðvitað má segja að einfaldast væri þá að fella gjöldin alfarið niður af öllum atvinnurekstri eða lækka gjöldin í 2.5% en þar sem ekki var um það að ræða að fjárhagslegt svigrum væri til þess varð að draga einhvers staðar mörkin. Mörkin voru sem sagt dregin þarna, á milli útflutnings- og samkeppnisiðnaðar að öðru leytinu og hvers konar þjónustu og þjónustuiðnaðar að hinu leytinu.

Við nánari athugun málsins í Nd. var horfið að því ráði að breyta þessum landamærum, flytja þau lítillega til þannig að þjónustuiðnaðurinn, sem fellur undir skilgreiningu Hagstofunnar á iðnaði, fylgir þarna með og er þá lækkunin látin ná til þess iðnaðar líka. Þetta var dálítil landamæratilfærsla sem á sér nokkurn sögulegan aðdraganda, eins og hv. þm. er kunnugt, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það frekar.

Í þessu frv. er gerð sú breyting á innheimtu launaskatts, að hann er innheimtur fimm sinnum á ári í staðinn fyrir fjórum sinnum áður. Því er ekki að leyna að launaskattur hefur innheimst illa miðað við aðra skatta, og í þessu frv. er gerð tilraun til að færa innheimtu launaskatts yfir í nútímalegra horf, en ákvæði um þetta efni voru orðin dálítið á eftir tímanum. Þannig var augljóst mál að menn höfðu mikinn hag af því að greiða launaskattinn ekki, heldur draga það í svo sem eins og eitt ár, og höfðu þá rekstrarfé milli handanna sem var á ólíkt lægri vöxtum en það fé sem menn fá úr bankakerfinu því að þá lagðist um 25% álag á vangreiddan launaskatt. Hugmyndir voru uppi um að haga innheimtunni með hliðstæðum hætti og gert er með söluskattinn, þar sem raunverulega leggst á 20% álag og síðan koma dráttavextir. Var horfið að því ráði, þegar frv. var flutt, að halda því álagi sem fyrir var, þ.e. 25% álaginu, og láta síðan dráttarvextina bætast við, en í Nd. var gerð sú breyting að 25% álaginu var sleppt, og eru þá dráttarvextirnir einir eftir. Hitt er ljóst, að dráttarvextir eru skynsamlegri og eðlilegri innheimtuaðferð, eins og verðbólgustigið er hér á landi, en 25% álag sem leggst á í eitt skipti og síðan ekki söguna meir. Ég tel því að fyrirkomulagið, sem gerð er tillaga um í þessu frv., sé tvímælalaust til mikilla bóta.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um launaskattsbreytinguna sem gerð er tillaga um i þessu frv., en þetta eru þær þrjár aðalbreytingar sem frv. felur í sér.

Um stimpilgjaldið er það að segja, en um það fjallar III. kafli frv., að lengst af voru afurðalán stimpluð þannig að greitt var 0.3% af andvirði bréfanna sem til stimplunar voru. En við breytingu á lögum um stimpilgjald fyrir nokkrum árum og með breyttum viðskiptaháttum bankanna, sem hættir eru að veita afurðalánavíxla og eru meira komnir með þetta í formi skuldabréfa og tryggingabréfa, varð reyndin sú, að greitt var 1% stimpilgjald af afurðalánum. Þau voru allmiklu hærri en áður var. Hér er þetta fært til fyrra horfs með ákveðinni breytingu i 15. gr. frv.

Um IV. kafla frv. er það eitt að segja, að þar er verið að framlengja lög um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex, en þessi lög falla úr gildi á mánudaginn kemur og ef þetta frv. verður ekki orðið að lögum á mánudag lækkar innflutningsverð á erlendu sælgæti snarlega um 40%, þ.e. fellur af innflutningnum gjald sem nú nemur 40%. Hér er gert ráð fyrir að þetta gjald verði fellt niður í áföngum þannig að gjaldið lækki hinn 1. mars n. k. í 32%, síðar í 16% og enn síðar í 8% og falli svo alveg niður að einu ári liðnu. Gjaldið er í tvennu lagi: annars vegar á sælgæti, en hins vegar á kex, og lækkunin er samsvarandi á kexinu.

Í frv. er gerð grein fyrir kostnaðaráhrifum þessa frv. og þar er upplýst að tollafgreiðslugjald muni gefa 54 millj. kr. í tekjur reiknað á einu ári. Taka ber fram, að vegna þess að óvíst er að gjaldið verði lagt á EFTA-vörur fyrst um sinn verða tekjur ríkissjóðs dálítið lægri. Þetta eru að sjálfsögðu ágiskunartölur sem ekki eru hárnákvæmar. Á hinn bóginn ber að viðurkenna að þar sem söluskattur leggst ofan á tollafgreiðslugjaldið þarf einhverjar tekjur á móti.

Launaskattur lækkar um 40 millj. á einu ári, en þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir að hann lækkaði um 30 millj. Viðbótin stafar af þeim breytingum á landamærum í launaskattinum varðandi iðnaðinn sem ég gat um áðan.

Tekjumissir ríkissjóðs vegna lækkunar á stimpilgjaldi nemur 20 millj. kr. Aftur á móti nemur tekjuauki vegna innflutningsgjalds á sælgæti og kex um 8 millj. kr.

Eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., er því mjög nærri lagi að tekjur og gjöld standist á ef dæmið er reiknað út á einu ári. Ef dæmið er aftur á móti reiknað út t.d. á þeim tíma sem eftir er af þessu ári kemur dæmið eitthvað öðruvísi út og allar tölur verða lægri. Eins er auðvitað óljóst hvaða áhrif breytingar á innheimtureglum varðandi launaskattinn hafa á tekjur ríkissjóðs. Má vera að þær breytingar skili eitthvað meiri tekjum en hér er gert ráð fyrir.

Það er rétt að vekja á því athygli, að við niðurfærslu verðlags verður ríkissjóður að kosta til 350–360 millj. kr. á þessu ári og þeir fjármunir eru að hluta til fengnir úr fjárlagadæminu, að hluta til fengnir með lækkun útgjalda ríkissjóðs, en að hluta til, sem svarar 10–20 millj., er mismunurinn fenginn af þeim tekjuauka sem ríkissjóður hefur af samþykkt þessa frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.