26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður þó að tilefni hafi nú gefist til alllangra umræðna með aðfinnslum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann telur að við eigum að benda á einhvern niðurskurð á framkvæmdum til þess að koma í veg fyrir þær stórfelldu erlendu lántökur sem nú eru á döfinni. Ég minntist að vísu ekki á þessar erlendu lántökur, en ég vil benda hv. þm. á að á árinu í ár er áformaður stórfelldasti niðurskurður á síðustu áratugum á orkuframkvæmdum í landinu og stóriðjuframkvæmdum. Hitaveituframkvæmdir dragast saman að magni til um yfir 30% á þessu ári, og orkuframkvæmdir og stóriðjuframkvæmdir dragast saman að magni til um yfir 40%, nærri um helming. En á þessu ári setur hæstv. ríkisstj. met í lántökum erlendis. Hv. þm. veit líka að erlend lán hafa nú upp á síðkastið fyrst og fremst verið tekin til ýmiss konar eyðslu og sukks.

Við skulum taka til dæmis þau lán sem Byggðásjóður er að veita fyrirtækjum til þess að geta lifað dag eftir dag, viku eftir viku eða mánuð eftir mánuð, bara til þess að draga fram lífið. (StJ: Það er ekki sukk að lifa.) Það er sukk að reka atvinnurekstur þannig að það þurfi að taka erlend lán til þess að halda undirstöðuatvinnuvegunum fljótandi dag frá degi. Það er sukk, Stefán Jónsson. (StJ: Það kemur að járnblendinu næstu daga, vinur minn.) Já, það kemur að járnblendinu næstu daga og ég skal ræða við ykkur um járnblendið, ef þið viljið, og eignaraðild okkar Íslendinga að því, hversu feitir við höfum orðið af því ævintýri öllu.

En nú er þetta — (Gripið fram í: Höfum við orðið feitir af Alusuisse?) Já, við höfum orðið það, hv. þm. Við höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af því að borga hallann af því. (Gripið fram í: Segist ekki Alusuisse eiga inni hjá íslenska ríkinu?) Það var rætt svolítið um erlendar lántökur í Þjóðviljagrein um daginn. Þá vildi svo til að það var staðnæmst við árið 1980. Það voru birtar tölur um nettóstöðu erlendra skulda. Þá eru öll erlend lán þar tekin og gjaldeyriseign dregin frá og óinnkomnar greiðslur fyrir útflutning teknar með, þannig að þá kemur nettóstaða okkar við útlönd. Samkv. þeim tölum reyndist nettóstaða hafa verið 31.8% af þjóðarframleiðslunni 1980, en bráðabirgðatölur benda til að þessi tala verði 33.7% fyrir árið í fyrra og 34.9% eftir lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið í ár. Þessi vörn, sem þetta málgagn ríkisstj. hugðist taka upp fyrir ríkisstj. í þessum efnum, er þess vegna algjörlega út í bláinn. Þótt þarna sé talað um nettóstöðu en ekki stöðu langra erlenda lána, eins og oftast er gert þegar fjallað er um erlend lán ríkja í millum, þá er þessi mynd alveg nákvæmlega sú sama og hér hefur verið margsinnis dregin upp.

Hv. þm. spurði líka hvort við vildum efla innlendan sparnað, hvort við sjálfstæðismenn vildum efla innlendan sparnað og hvernig. Jú. Hæstv. ríkisstj. hefur gumað mest af því, þetta er það sem hefur verið stærsta skrautfjöðrin í hennar hatti, raunvaxtastefnan sem hv. þm. var einu sinni dálítið á móti. Ég man eftir því t.d., að hv. þm. Lúðvík Jósepsson var sérlega andvígur því að hafa vexti háa. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson getur kannske rifjað upp þá sögu. En ríkisstj. hefur gumað mjög af þessari stefnu, að hún hafi aukið innlendan sparnað. Og ég man eftir að einn hæstv. ráðh. fór mjög háðulegum orðum um þingmann sem hafði leyft sér að benda á eitthvað annað í blaðagrein. Einmitt í fyrra leit út fyrir að innlendur sparnaður væri mjög að aukast. Nú hefur Seðlabankinn birt nýjar tölur um það, hversu ríkur þáttur innlendur sparnaður sé í fjármögnun framkvæmda í landinu. Þessi sparnaður í prósentum af þjóðarframleiðslu, innlendur sparnaður í fjármögnun á framkvæmdum innanlands, var 27.8% af þjóðarframleiðslu á árinu 1977, en einungis 25.2% 1980 og fer niður í 23.5% í fyrra, miðað við bráðabirgðauppgjör. Einungis 23.5% af fjárfestingu í landinu var fjármagnað af innlendum sparnaði í fyrra, en þessi tala var að minnsta kosti fjórum prósentum hærri fyrir nokkrum árum. Þetta hefur því alltaf verið á niðurleið og ekki síður á niðurleið nú síðustu tvö árin en áður, þrátt fyrir þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur hælt sér mikið af í peningamálum.

Ég tek undir það með hv. þm., að það er brýn nauðsyn að efla innlendan sparnað. Því miður hefur hæstv. ríkisstj. ekki tekist það. Það eru auðvitað ákveðnar orsakir til þess. Menn bundu vonir við það þegar tekin var upp alger verðtrygging á innlánum á 6 mánaða bókum. En því miður virðist sú aðgerð ekki hafa tekist. Við höfum séð hvernig farið hefur um sölu á spariskírteinum ríkissjóðs. Hún hefur heldur ekki tekist.

Ég skal ekki lengja þessar umr. um of. En kjarni málsins er sá, að við þyrftum að ganga langt í samdrætti á framkvæmdum, orkuframkvæmdum og stórframkvæmdum í landinu, ef við ætluðum að ganga lengra en þessi ríkisstj. gerir í ár frá því sem verið hefur. Ég fæ þess vegna ekki séð að þetta komi heim og saman. Á hinn bóginn er það svo, eins og ég held að allir talsmenn allra stjórnmálaflokka á Íslandi hafi tekið fram, að erlend lán út af fyrir sig eru ekkert sérstakt vandamál ef þau eru notuð til þess að auka þjóðarframleiðsluna, ef þau eru notuð til þess að auka okkar útflutningstekjur og til þess að við getum betur staðið undir lánunum. Því miður er það einmitt öfugt sem er að gerast í dag. Það er það sem við höfum gagnrýnt, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson.