26.02.1982
Efri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

214. mál, framhaldsskólar

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er viðamikið mál sem hér er til umr., frv. til l. um framhaldsskóla, og ég tel mjög miður að þetta frv. er svona seint fram komið, þegar langt er liðið á þingtíma, og einnig að það skuli vera tekið til 1. umr. á degi sem þessum, þar sem í raun og veru er um aukafund að ræða. Ég held að menn hefðu óskað eftir að geta gefið sér betri tíma til að ræða þetta mál áður en það fer til nefndar. Þetta minnir nokkuð á þegar frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands var lagt fram á síðasta þingi. Það var gert mjög skömmu fyrir þinglok, og ég held að engum hafi blandast hugur um að það mál yrði ekki afgreitt á því þingi, enda varð sú raunin. Hins vegar var það mál tekið upp aftur í byrjun þessa þings, er nú á leiðinni í gegnum þingið og því ber að fagna.

Hv. 4. þm. Vestf. hefur komið inn á þau atriði flest sem ég hefði viljað gera aths. við og spyrja um. Það var t.d. varðandi það, til hverra hafi verið leitað við endursamningu þessa frv., við hverja hafi verið haft samráð af þeim sem höfðu fjallað um fyrri frv.

Ég vil leggja áherslu á það, að miklu máli skiptir að samvinna og tengsl séu milli þeirra aðila sem hafa með nemendur að gera, skólanna annars vegar og atvinnulífsins hins vegar, og ekki síst í málum eins og hér er verið að ræða, um samræmdan framhaldsskóla. Það hefur verið talað um samræmda námsskrá og námseftirlit, og það hlýtur að sjálfsögðu að vera meginforsendan fyrir því, að þetta megi heppnast.

En þegar verið er að tala um námsskrá kemur mér oft í hug, að það eru til margar og góðar námsskrár og þær gefa góð fyrirheit, en það fer minna fyrir því, að unnt sé að nýta þær til fulls í sambandi við skólastarfið eða reksturinn. Þá kom mér í hug atriði sem hafa verið ofarlega i huga mínum að undanförnu, t.d. varðandi kennslu í heimilisfræðum í skólum, sem er mjög þýðingarmikið atriði nú á tímum að sé lögð áhersla á í grunnskólum. En ég veit ekki betur en það sé ákaflega ófullnægjandi um landið almennt, hvað hægt er að gera í þeim efnum þó að námsskráin lofi góðu.

Það er að sjálfsögðu margt jákvætt við þetta frv., og það má segja að aðalatriðið sé að sem flestir fái tækifæri til að mennta sig, hver eftir sínum áhuga og hæfileikum, og fullorðinsfræðslan, sem nú þegar er komin víða, er einnig mikilsvert atriði.

Samband ísl sveitarfélaga hefur lagt áherslu á að sett verði lög um framhaldsskóla, og hefur verið fjallað um fyrri frumvörp á þeim vettvangi. Þetta frv. hefur greinilega tekið breytingum með tilliti til ábendinga og athugasemda, og það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að frv. stefni að auknum áhrifum sveitarfélaganna varðandi þessi mál, þ.e. framhaldsskólana, og ber að sjálfsögðu að fagna því. En það er eitt stórt gat í öllu þessu máli. Þó að talað sé hér um ramma að lögum er ramminn ekki nema hálfur, það vantar kostnaðarhliðina, og á meðan kostnaðarhliðin leggur ekki fyrir er útilokað að taka afstöðu til þessa frv. eða afgreiða það. Ég veit að það er ekki ætlun hæstv. ráðh. eða ríkisstj. að koma sveitarfélögunum á vonarvöl með þessu frv. ef að lögum yrði núna. En miðað við þau kostnaðarlög, sem fyrir eru, og ef kostnaðarhliðin verður ekki tekin til afgreiðslu samhliða þessu frv. gæti svo farið víða og ekki síst hjá stærri sveitarfélögunum.

Þetta vel ég leggja áherslu á, að þrátt fyrir að það sé margt gott í þessu frv. að finna og það komi væntanlega að því að hægt verði að afgreiða það, þá er útilokað að gera það nema hafa kostnaðarhliðina jafnhliða.