02.03.1982
Sameinað þing: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

357. mál, tilraunageymir til veiðarfærarannsókna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eftir samþykkt þeirrar þáltill., sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, skipaði ég nefnd til að athuga þetta mál, þ.e. um aðferðir til veiðarfæratilrauna. Í skipunarbréfi nefndarinnar er það orðað svo: „Nefndin skal athuga kosti og kostnað við að koma upp tanki til veiðarfæratilrauna og gera tillögur þar að lútandi eða um aðrar aðferðir við veiðarfæratilraunir.“ Í nefnd þessa voru skipaðir Jónas Hallgrímsson veiðarfæraverkfræðingur, dr. Sigfús Björnsson dósent, Jafet S. Ólafsson deildarstjóri í iðnrn., Magnús Gústafsson framkvæmdastjóri og Guðni Þorsteinsson deildarstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, sem er jafnframt skipaður formaður nefndarinnar.

Þessi nefnd hefur að mínu mati unnið gott starf. Hún hefur skoðað ýmsar leiðir til að framkvæma það sem henni var falið og ég las í upphafi míns máls. Nefndin skilaði mér lokaskýrslu núna rétt fyrir hádegið. Ég hef því ekki lesið hana, en hef þó fylgst það vel með störfum nefndarinnar að ég tel mig geta veitt þær upplýsingar, sem um er beðið, og tel ég mig gera það best með því að lesa niðurstöður nefndarinnar og fara síðan í gegnum kostnaðaráætlanir hennar.

Í niðurstöðum segir svo, með leyfi forseta: „Nefndin leggur áherslu á að rannsóknir séu nauðsynleg undirstaða að framförum í veiðitækni. Með fræðslu og þjálfun verður viðurkenndri veiðitækni best komið á framfæri, enda er nauðsynlegt að skapa starfandi skipstjórum og netagerðarmönnum góða aðstöðu til skipulegra athugana á veiðarfærum. Ekki er síður mikilvægt að afla upplýsinga um hegðun fiska og annarra sjávardýra og gagnvart veiðarfærum til þess að hægt sé að laga gerð veiðarfærisins og veiðiaðferðina sjálfa að atferli þeirra tegunda sem veiða á. Með þessu móti yrðu veiðarfæri fiskigæfari og veiðiaðferðirnar markvissari en nú er. Nefndin hefur kynnt sér helstu aðferðir við veiðarfærarannsóknir og leitast við í skýrslunni að meta og bera saman þrjár helstu tegundir rannsóknartækja sem beitt er, þ.e. streymistanks, dráttartanks og búnaðar til beinna athugana á veiðarfærum í sjó. Þó ber að hafa í huga við lestur skýrslunnar að þessar tæknileiðir eru ekki að öllu leyti sambærilegar og þær koma ekki að öllu leyti hver í annarrar stað. Þannig má nefna sem dæmi að litill streymistankur gæti nægt til kennslu og frumkönnunar á hugmyndum. Dráttartankur, sem verður að vera af lágmarksstærð, þ.e. með tilliti til lengdar, verður fljótt ótvírætt hagkvæmari lausn ef um stærri tank til könnunar veiðarfæra er að ræða. Ótvíræðir kostir beinna athugana í sjó liggja á sviði atferlisrannsókna á fiskum og lokaprófana veiðarfæra í fullri stærð í sjó.“

Síðan kemur það sem nefndin leggur til, og tekur hún þá hvern þessara þátta út af fyrir sig. Í fyrsta lagi leggur hún þar til að byggð verði upp aðstaða til tanktilrauna með veiðarfærum hið fyrsta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Veiðarfæratankur mun reynast gagnlegur til kennslu og þjálfunar við togveiðar og þróun togveiðarfæra sem eru langmikilvægasta veiðarfærið hvað snerti landað aflaverðmæti. Þrjár leiðir koma til greina við uppbyggingu slíkrar aðstöðu: a) að fyrirtæki reisi og starfræki tankinn með stuðningi hins opinbera og þeirra sem gagn mundu hafa af starfrækslu hans, b) að tankur yrði byggður fyrir fé úr ríkissjóði og rekinn í umsjón opinberrar rannsóknastofnunar og/eða skóla, c) að sjálfseignarstofnun reisi og reki tankinn með þátttöku hins opinbera, samtaka í sjávarútvegi og fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Í öllum tilvikum verður að sjá svo um, að allir, sem vilja notfæra sér tankinn, eigi greiðan aðgang að honum. Nefndin telur að dráttartankur um 6 X 60 metrar að stærð sé heppilegur kostur. Stofnkostnaður gæti orðið 9–12.5 millj. kr. og er þar byggt á reynslu við dráttartankinn í Fuglafirði“ — sem er í Færeyjum og nefndin heimsótti.

Við samanburð á kostum og kostnaði við að koma upp tönkum til veiðarfæratilrauna er síðan vísað til annarra kafla í skýrslunni, þar sem ítarlega er rakinn kostnaður við bæði smærri og stærri tanka:

„Að fenginni reynslu annarra við byggingu tanka skal hér bent á nauðsyn vandlegs undirbúnings, m.a. með líkani af tanknum. Nefndin telur að við þessa starfsemi beri að nýta þá aðstöðu og tækniþekkingu sem þegar er fyrir hendi hjá opinberum stofnunum. Í öðru lagi leggur nefndin til að komið verði upp við Hafrannsóknastofnun búnaði til beinna athugana á veiðarfærum í sjó. Við slíkan búnað má rannsaka hegðun fiska, viðbrögð þeirra við veiðarfærum og hvernig veiðarfæri starfa í raun. Þessi tækni kemur ótvírætt að notum við lokahönnun veiðarfæra og það af flestum gerðum.“ — Búnaðinum er síðan lýst ítarlega í síðari köflum skýrslunnar.

„Vitað er að Skotar eru reiðubúnir að selja okkur tæki til beinna athugana af þeirri gerð sem þeir nota, veita okkur tæknilegar upplýsingar og hafa við okkur samvinnu við rannsóknir. Er því mælt með því að athuga þann kost gaumgæfilega, án þess að fullyrt sé að annar búnaður sé síðri, t.d. kanadíski búnaðurinn.

Stofnkostnaður útbúnaðar til beinna athugana er áætlaður um 2 millj. kr. Það er álit nefndarinnar að arðsemi slíkrar fjárfestingar sé ótvíræð. Ljóst er þó að mikill kostnaður er því samfara að stunda rannsóknir með þessum búnaði vegna skipanotkunar.

Vegna skipakosts og rannsóknaraðstöðu við Hafrannsóknastofnun virðist heppilegt að þeirri stofnun verði falin umsjón tækjanna. Sjá verður til þess að aðrir, sem hug hafa á atferlisrannsóknum og athugun á veiðarfærum í notkun, fái greiðan aðgang að búnaðinum.“

Síðan segir í lokum þessarar niðurstöðu: „Að lokum vill nefndin undirstrika mikilvægi þess, að stutt sé af megni við þróun veiðisamlíkja og veiðitölva sem er stjórn og gagnasöfnun tækja, kennslu, þjálfun og veiðarfærarannsóknum til framdráttar.“

Svo mörg eru þessi niðurstöðuorð. Eins og þar kemur fram mælir nefndin raunar með að hér sé komið á fót tank af stærðinni 6 X 60 metrar, þ.e. af stærri gerðinni. Nefndin telur að minni tankar, sem sums staðar hafa verið reistir, komi að takmörkuðum notum, og leggur því eindregið til að reistur sé hér tankur af stærri gerðinni. Áætlað er að slíkur tankur mundi kosta frá 9 til 12.5 millj. kr. Nefndin leggur einnig til að fest verði kaup á neðansjávarsjónvarpstækjum til þess að fylgjast með því, hvernig fiskar bregðast við veiðarfærum og hvernig veiðarfæri haga sér í raunverulegri notkun.

Því miður er ekki tími til þess hér að fara ítarlegar út í kostnaðaráætlanir sem fylgja allar með í þessari skýrslu. Fyrirspurnartíminn leyfir það ekki. Hins vegar er ég að láta fjölrita þessa skýrslu og mun dreifa henni til allra þingmanna um leið og hún er tilbúin, sem ég vona að verði mjög bráðlega.

Ég vil hins vegar segja það um störf nefndarinnar, að ég tel að hún hafi unnið mjög gott starf. Hún hefur tekið af festu á þessu málefni. Hún hefur kynnt sér ítarlega hinar ýmsu gerðir tanka sem í notkun eru í nágrannalöndunum. Hún hefur einnig kynnt sér aðra þá tækni sem hér hefur verið nefnd til að fylgjast með veiðarfærum í raunverulegri notkun. Eftir að hafa farið yfir þessa skýrslu, að vísu lauslega, en rætt við nefndarmenn, og ekki síst formann nefndarinnar, er ég sannfærður um að hér er um stórt mál að ræða og ber tvímælalaust að hrinda því í framkvæmd að hér verði byggður slíkur tankur og fengin þau tæki sem nefndin mælir með. Hinu er svo ekki að leyna, að hér er um mikinn kostnað að ræða. Vitanlega hlýtur að vakna sú spurning, hvenær við teljum okkur fært að leggja í þennan kostnað.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hver verði framgangur málsins. Því miður á ég erfitt með að svara því á þessari stundu, en ég hafði hugsað mér, þegar skýrsla þessi hefur verið fjölrituð og henni dreift til þm., að fá umræður um hana með þm., sérstaklega úr sjútvn. Ég mun mjög taka tillit til þess, sem fram kemur í slíkri umr., og tel reyndar varla tímabært fyrir mig að ákveða nú, þegar um svo stórar fjárhæðir er að ræða, hver framgangur verði fyrr en málið hefur verið ítarlega rætt af slíkum mönnum.

Herra forseti. Ég vona að þessari fsp. sé svarað. En eins og ég segi er skýrslan ítarleg og mikinn fróðleik þar að finna og mun ég leggja áherslu á að hún komist til fyrirspyrjanda og annarra hv. þm. sem fyrst.