02.03.1982
Sameinað þing: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2751 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

199. mál, efling innlends iðnaðar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við flytjum hér 11 þm. till, til þál. til að efla innlendan iðnað og auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Þessi till. kveður á um að hefjast nú þegar handa um aðgerðir til að efla innlendan iðnað og styrkja stöðu hans. Þessar aðgerðir eiga að hafa það meginmarkmið að tryggja og efla atvinnu í iðnaði, stuðla að aukinni sölu og markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu, auka iðnaðinn í hinum dreifðu byggðum landsins, hvetja til nýrrar innlendrar framleiðslu og bæta afkomu og vaxtarafkomu íslensks iðnaðar.

Rekstrarskilyrði íslensks iðnaðar á síðasta ári reyndust mjög erfið. Kom þar ýmislegt til. Gengisþróun átti þó sennilega stærstan hlut í versnandi stöðu iðnaðarins. Eins og kunnugt er selja íslensk iðnfyrirtæki meginhluta útflutningsframleiðslu sinnar á Evrópumörkuðum og höfuðkeppinautur á heimamarkaði er iðnaðarframleiðsla Evrópuþjóða. Á s.l. ári hækkaði verð evrópskra gjaldmiðla mjög litið hér á landi, en innlendur kostnaður hækkaði að jafnaði um 50% á árinu.

Allar þær tölulegu upplýsingar, sem við höfum, benda til að á undanförnum árum hafi hægt og bítandi sigið á ógæfuhliða fyrir iðnaðinum, en jafnframt að síðasta ár hafi orðið honum sýnu erfiðast, eins og er sýnt fram á í grg. með þessari tillögu.

Markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu hefur minnkað verulega. Markaðshlutdeildarkönnun, sem Hagstofa Íslands gerði og mælir hlutdeild nokkurra neysluvöruflokka, bendir ótvírætt til þess, að hlutdeild innlendrar framleiðslu hafi minnkað verulega á milli áranna 1980 og 1981.

Talið er að núna starfi um 28 þús. manns í framleiðslu- og þjónustuiðnaði, þegar undanskilinn er fiskiðnaður, og mun þá láta nærri að um 28% allra starfandi manna í landinu starfi að iðnaði. Fer því ekki á milli mála að frá sjónarmiði atvinnuöryggis er iðnaður mjög mikils virði.

Ef samdráttur verður í iðnaðarframleiðslu og markaðshlutdeild innlends iðnaðar minnkar dregur verulega úr atvinnumöguleikum í iðnaði.

Í 6. lið grg., sem þessari þáltill. fylgir, er rætt um íslenskan skipaiðnað sem mjög á í vök að verjast vegna þess að almennt er álitið að fiskiskipastóllinn sé orðinn of stór. En það er staðreynd, að endurnýjunarþörf, sérstaklega á bátaflotanum, er fyrir hendi. Í stað þess að draga þessa endurnýjun úr hófi fram og bíða eftir að hún gerist með nýrri innflutningsholskeflu skipa, eins og reyndin hefur oft orðið, ætti að stefna að hægfara endurnýjun og nýta þá miklu möguleika sem eru til uppbyggingar íslensks skipaiðnaðar. Athuganir hafa sýnt að kostnaður við nýsmíðar, breytingar og viðhaldsverkefni, sem framkvæmd eru af innlendum skipasmíðastöðvum, er sambærilegur við það sem almennt gerist erlendis. Að svo miklu leyti sem um mismun á endanlegu verði hefur verið að ræða liggur hann einkum í miklum fjármagnskostnaði við smíðina hér innanlands, sem er margfaldur á við fjármagnskostnað þeirra skipasmíðastöðva sem við höfum keypt skip frá á undanförnum árum og áratugum.

Það, sem hefur verið að gerast í þessum efnum, er að samkeppnin hefur verið það mikil og svo mikið byggt af skipum — samhliða því að á seinni árum hefur orðið verulegur samdráttur hér í nágrannalöndum okkar í fiskveiðum og þar með minnkandi eftirspurn eftir skipum — að ríkisstjórnir þeirra þjóða, sem við höfum aðallega fengið skip smíðuð hjá, hafa beitt styrktarkerfi til þess að greiða niður skipasmíðar í sínum löndum á sama tíma sem það hefur ekki verið gert hjá okkur. Bæði það, hve hinn óhæfilega mikli fjármagnskostnaður hefur verið óhagkvæmur fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar, og þessar miklu styrkveitingar erlendis eru baggi sem sjáanlega er ekki hægt að leggja á sjávarútveginn einan, enda er hér meira um iðnaðarvandamál að ræða en vandamál sjávarútvegs og þá auðvitað vandamál samfélagsins í heild. Þess vegna hlýtur að verða að draga úr álögum á þessar iðngreinar og á þessa starfsemi hér innanlands til þess að lækka frá því sem nú er kostnað við skipasmíðar, jafnframt því sem finna verður aðrar og betri leiðir til þess að lækka verulega fjármagnskostnaðinn.

Enginn er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja niður með öllu innlenda skipasmíði því það mundi kosta mikið bæði í auknu atvinnuleysi og aftur í uppbyggingu síðar. Þess vegna verður að gera ráðstafanir til að bæta starfsaðstöðu og samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar.

Margar greinar í iðnaði hafa átt við mikla erfiðleika að etja. Ég vil nefna sem dæmi húsgagnaiðnaðinn sem hefur átt í miklum erfiðleikum m.a. vegna gengisstefnunnar, einkum á s.l. ári. Þá er í raun og veru verið með rangri gengisskráningu að lækka verð á innfluttum húsgögnum, en um leið verður innlendi húsgagnaiðnaðurinn að standa undir um 50% kostnaðarauka. Þó að það sé gott að halda að vissu leyti í gengisskráningu, þá er verið að veikja stoðir hins innlenda atvinnulífs með því að skrá ekki gengið á því verði sem það er í á hverjum tíma.

Þá er mjög mikilvægt og á það minnst í grg. þessarar till. að færa inn í landið framleiðslustarfsemi sem nú er unnin erlendis fyrir Íslendinga. Hér er nefndur sem dæmi umbúðaiðnaðurinn, en um langt árabil hefur mikill hluti t.d. allra mjólkurumbúða verið framleiddur erlendis þótt hér innanlands sé til þekking og framleiðslugeta til að annast það verkefni. Um langt árabil hefur ríkissjóður greitt niður verð mjólkur í landinu og varið til þess verulega miklum fjárhæðum. Með hliðsjón af því er ekki óeðlilegt að ríkisvaldið beiti sér fyrir því sérstaklega að innlend iðnaðarstarfsemi verði efld á þessu stigi.

Það er líka áhyggjuefni margra, að prentiðnaðurinn er annað dæmi í þessum efnum um grein sem hefur átt í vök að verjast í samkeppni við erlenda aðila. Á síðari árum hefur töluverð prentun, sem áður var unnin innanlands, verið send til vinnslu erlendis. Innanlands er til framleiðslugeta og þekking sem í flestum tilvikum gerir vinnslu erlendis ónauðsynlega. Því þarf markvisst að vinna að því að færa alla slíka prentun til landsins á nýjan leik.

Mig langar til að geta þess í sambandi við umbúðaiðnaðinn, að í erlendu blaði, sem kom út á s.l. ári, er sagt frá því að á Íslandi búi 220 þús. manns og þrátt fyrir fámenni noti Íslendingar meira af Tetra-pak umbúðum á hvert mannsbarn en nokkur önnur þjóð. Hver maður notar 240 stk., en Svíþjóð fylgir fast á eftir með 164 stk. á hvert mannsbarn. Á árinu 1980 voru 52 millj. Tetra-pak umbúða notaðar á Íslandi, og áætlað er að sú tala verði komin í 60 millj. eftir tvö ár eða svo. En á sama tíma og þetta gerist eigum við fullkomna verksmiðju hér, Kassagerð Reykjavíkur, og því er full ástæða til að flytja þessa starfsemi inn í landið eins og marga aðra.

Þessi till. gerir ráð fyrir að kappsamlega verði unnið að því að efla á margvíslegan hátt innlenda iðnaðarstarfsemi. Þó ber mjög á því, að íslenskur iðnaður nýtur ekki þeirra forréttinda sem hann ætti að njóta hjá almenningi í landinu. Menn vilja oft mjög gjarnan kaupa fremur það sem erlent er en innlenda framleiðslu þó að það erlenda sé ekkert betra en það innlenda og jafnvel lakara. Hér þarf að hvetja almenning til að gera meira að því að kaupa það sem innlent er og þar með að treysta stoðir innlends iðnaðar. Það má gera með mörgum hætti. Það má gera með því að efna til nokkurs konar samkeppni dreifingaraðila í landinu í verslun, þar sem hvatt er til þess að auka hlutdeild íslensks iðnaðar með því að veita á margvíslegan hátt nokkurs konar verðlaun, jafnvel þeim sem vinna í verslunum, einhverja nýja samkeppni, finna út hvað er best að gera til þess að fá allt afgreiðslufólk í verslunum og við þjónustu til þess að mæla fremur með íslenskum iðnaði og vekja athygli viðskiptamannsins á honum. Þetta er ekki fyrir hendi nú, heldur jafnvel öfugt í mörgum tilfellum.

Við flm. þessarar till. teljum að stjórnvöld geti nú þegar gripið til ýmissa aðgerða sem geta létt róðurinn svo að unnt verði að snúa þróuninni við og auka innlenda framleiðslustarfsemi á nýjan leik. Í því sambandi bendum við á nokkur atriði, svo sem niðurfellingu ýmissa opinberra gjalda til lækkunar á kostnaði, endurskoðun á orkuverði innlendri framleiðslu í hag, sérstakt átak verði gert til að nýta opinber innkaup til eflingar innlendrar framleiðslu, að breyta lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti á þann hátt að þau örvi útflutning og lækki tilkostnað við hann, að fella niður aðflutningsgjöld á öllum vélum og tækjum og þá sérstaklega að því er varðar framleiðniaukandi tæki, svo sem á tölvum.

Sérstök athugun verði á því gerð, hvaða áhrif styrktar- og stuðningsaðgerðir við iðnað í helstu viðskiptalöndum okkar hafa á samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja og á hvern hátt eigi að mæta þeim vanda. Gert verði átak í því að hvetja til að hafin verði framleiðsla innanlands á vörum sem nú eru eingöngu innfluttar. Ég vil benda á í þessu sambandi að þegar talað er um að leggja af einhver útgjöld eða að lækka á vissan hátt tekjur ríkissjóðs, þá horfa embættismenn vanalega á það — og því miður flestir stjórnmálamenn — hvað ríkissjóður tapar á því að fallast á þessa lækkun. En það er ekki að sama skapi vegið og metið hvað ríkissjóður fær í aðra hönd ef þessum aðgerðum er hrint í framkvæmd. Það er yfirleitt litið á málin frá einni hlið, en ekki miðað við heildarhag þjóðfélagsins. Í mörgum tilfellum er betra og hyggilegra fyrir stjórnvöld, fyrir Alþingi að gera slíkar ráðstafanir og treysta þannig stoðir íslensks atvinnulífs. Hvað kostar að hafa háa tolla af innflutningi á vélum og tækjum til fyrirtækja ef það kostar í leiðinni samdrátt í viðkomandi fyrirtæki? Hver verða útgjöld samfélagsins þá til að treysta atvinnugrundvöll á öðrum sviðum?

Við stöndum frammi fyrir þeirra staðreynd, að önnur tveggja elstu atvinnugreina okkar Íslendinga, landbúnaður, tekur ekki við fleira fólki. Jafnvel verður þar að reikna með enn frekari fækkun fólks því að framleiðslan hefur, þrátt fyrir verulega minnkun vinnuafls, stóraukist í landbúnaði. Þar stöndum við frammi fyrir ákaflega miklum vandamálum sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni. Í sjávarútvegi hefur orðið veruleg aukning bæði á mannafla og sömuleiðis á framleiðslu. Það hefur orðið gífurleg framleiðsluaukning, en allt bendir til að sú aukning geti ekki orðið áfram með sama hraða og verið hefur á síðustu árum og áratugum, enda eru fiskimiðunum takmörk sett. Því getum við ekki vænst þess, að allur sá mannafli, sem bætist við á vinnumarkaði landsins á næstu árum, geti fengið atvinnu við þessar tvær hefðbundnu atvinnugreinar. Hinu neita ég að trúa, að sjávarútvegurinn eigi ekki eftir að bæta enn við nokkrum mannafla og sömuleiðis auka framleiðsluna með því að stefna á aukna vinnslu sjávarafurða heima í landinu. En það, sem við þurfum fyrst og fremst að byggja á í framtíðinni, er að auka og efla iðnaðinn, fyrir utan þessa tvo undirstöðuatvinnuvegi okkar, og vera opnir fyrir því, að nýjar greinar, ný framleiðsla komist inn í landið. Þá þarf samfélagið að hlynna að þeim fyrirtækjum og þeirri starfsemi með hagkvæmum lánum til langs tíma, jafnvel styrkjum á meðan verið er að leggja grunn að slíkri starfsemi.

Áður hefur verið lögð fram á þessu þingi till. um stefnumörkun í iðnaði til langs tíma. Þessi till. fer ekki inn á það svið, heldur er hér fyrst og fremst um það að ræða að fela ríkisstj. að hefjast þegar handa um aðgerðir til að efla innlendan iðnað og styrkja stöðu hans, lita á þann grundvöll, sem nú er undir þessari atvinnugrein, og gera fljótvirkar ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari samdrátt og frekara undanhald innlends iðnaðar miðað við innfluttar iðnaðarvörur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til að till. verði vísað til hv. atvmn.