03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Vésteinsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég leyfa mér að lýsa yfir stuðningi við þau nýmæli sem felast í till. til breytinga á sveitarstjórnarlögum á þskj. 347 varðandi rýmkun kosningarréttar til sveitarstjórna. Sjálfsagt er að fólk, sem flytur um nokkurn tíma til næstu nágrannalanda, fái að halda kosningarrétti sínum hér á landi. Þeir, sem notfæra sér þann kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum, viðhalda vissum tengslum við sínar heimabyggðir, og að fólk fái að viðhalda slíkum tengslum er af hinu góða.

Einnig er það fagnaðarefni, að nú skuli eiga að stíga það skref að veita Norðurlandabúum, sem hér hafa verið búsettir um þriggja ára skeið, kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar. Þetta skref hafa aðrar frændþjóðir okkar á Norðurlöndum stigið fyrir nokkru. Hefur Íslendingum, sem búsettir hafa verið í þessum löndum, gefist kostur á að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum án þess að þeir gerðust ríkisborgarar í viðkomandi löndum.

Spyrja má hvort ekki væri ástæða til að ganga lengra í þessum efnum og veita öllum erlendum ríkisborgurum, sem hér hafa dvalið, þennan rétt. E.t.v. verður það einhvern tíma gert. En þetta er þó alla vega spor í rétta átt. Við þekkjum áreiðanlega flest dæmi þess, að fólk af erlendu bergi brotið hafi verið búsett hér á landi árum og áratugum saman án þess að það leitaði eftir íslenskum ríkisborgararétti. Margt af þessu fólki er orðið rótgrónir borgarar í sínum sveitarfélögum, reiðir af hendi gjöld og skyldur skilvíslega og tekur fullan þátt í félags- og menningarlífi sem aðrir þegnar sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnarmálefni og sveitarstjórnarkosningar hafa ákveðna sérstöðu og kosningarréttur þar hefur lengi verið með svolítið öðrum hætti en til Alþingis. Með þeim breytingum, sem hér eru til umræðu, er verið að auka þennan mun verulega, og hef ég ekkert við það að athuga, eins og ég hef áður sagt. Hins vegar hlýtur, þegar fjallað er um rýmkun kosningarréttar til sveitarstjórna, að koma til alvarlegrar umhugsunar að í þessu frv. skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri rýmkun á kosningarrétti íslenskra ríkisborgara. Þar á ég fyrst og fremst við að ekki er gert ráð fyrir að kosningarréttur verði lækkaður niður í 18 ár eins og lengi hefur verið rætt um. Með venjulegri breytingu á því frv., sem hér er til umr., má stíga það sjálfsagða skref.

Ég veit ekki betur en allar Norðurlandaþjóðirnar og fjölmargar aðrar þjóðir hafi lækkað almennan kosningarrétt niður í 18 ár. Þegar við ætlum nú að veita norrænum frændum okkar kosningarrétt hér á landi til sveitarstjórna fylgir óneitanlega sá böggull skammrifi, eins og þetta frv. er úr garði gert, að yngsta kynslóðin mun ekki fá kosningarrétt eins og er í föðurlandi þeirra. Ég tel að hv. Alþingi, sem nú situr, verði að ráða hér bót á og sjá til þess, að við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, sem fram eiga að fara í vor og framvegis, verði kosningarréttur miðaður við 18 ára aldur.

Umræður um lækkun kosningaaldurs niður í 18 ár hafa staðið lengi. Hér á hv. Alþingi var þessu máli fyrst hreyft árið 1965 er þm. Alþfl. fluttu till. um það. Sú tillögugerð leiddi til þess, að kosningarrétturinn var færður niður í 20 ár árið 1968, svo að tvítugir kjósendur gengu í fyrsta sinn að kjörborði hér á landi í forsetakosningunum það ár. Síðan hefur málið setið nánast í sama farinu. Á árinu 1974 og aftur 1976 hreyfðu þó þm. Alþfl. málinu og árið 1977 flutti hv. þm. Benedikt Gröndal frv. í Nd. til breytingar á sveitarstjórnarlögum þess efnis, að kosningarréttur til sveitarstjórna yrði lækkaður í 18 ár. En hv. Alþingi sá því miður ekki ástæðu til að aðhafast þá neitt í þeim efnum. Ég tel að hugmyndin um 18 ára kosningaaldur hafi hlotið það góðan hljómgrunn og svo veigamikil rök hafi verið færð fyrir þessu máli að það sé meira en tímabært fyrir hv. Alþingi að stíga nú þegar það skref, sem önnur þjóðþing hafa stigið, og færa kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar niður í 18 ár, þannig að þeir, sem náð hafa þessum aldri á kjördegi í vor, fái að neyta atkvæðisréttar og taka þátt í vali fulltrúa í sveitarstjórnir næsta kjörtímabil. Ég hef því leyft mér ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að flytja á þskj. 402 brtt. við frv. það sem hér er til umr., um breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 58/1961, þess efnis, að kosningarréttur samkv. a-lið 18. gr. laganna miðist við 18 ára aldur þegar kosning fer fram.

Það skal viðurkennt, að æskilegast hefði verið að haldist hefði í hendur lækkun kosningaaldurs við alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar. En því er ekki að heilsa þar sem kosningarréttur til Alþingis er stjórnarskrárbundinn og breytingum á stjórnarskrá verður ekki fram komið nema með þeim hætti sem hv. þm. þekkja. Fólkið er yfirleitt í mun nánari tengslum við starf sveitarstjórnanna en starf Alþingis, eins og hv. þm. er kunnugt. Ég tel að það geti ekki talist nein goðgá, að fyrra skrefið til almenns 18 ára kosningaaldurs verði nú stigið við sveitarstjórnarkosningar. Af því sem ég þekki til starfsemi sveitarstjórna kem ég a.m.k. ekki auga á neitt í starfi þeirra sem ætti að hindra hv. Alþingi í að fara inn á þessa braut, nema síður sé.

Með kosningarrétti öðlast fólk einnig kjörgengi. Ungt fólk á þessum aldri er margt áhugasamt um félagsmál og lætur þau til sín taka og er áreiðanlega margt undir það búið að taka sæti í sveitarstjórnum. Sveitarstjórnirnar eru æðimargar víðs vegar um land, eins og kunnugt er. Því má ekki heldur gleyma, að bæjar- og sveitarstjórnir kjósa við upphaf kjörtímabils ýmsar nefndir og stjórnir til að annast meðferð einstakra málaflokka. Ég veit ekki betur en kjörgengi sé skilyrði fyrir kosningu í nefndir á vegum sveitarfélaga, en áreiðanlega er í ýmsum tilvikum mjög æskilegt að veita fólki á þessum aldri tækifæri til að taka þátt í slíku starfi og beinlínis fengur að því fyrir sveitarfélögin að fá ungt og áhugasamt fólk til starfa.

Þótt 18 ára kosningaaldur hafi ekki verið lögleiddur enn hér á landi er samt þegar fyrir hendi nokkur reynsla af honum. Þar á ég við að stjórnmálaflokkarnir hafa með prófkjöri við val frambjóðenda til Alþingis og sveitarstjórnarkosninga tekið upp þá reglu að heimila fólki niður í 18 ára og jafnvel yngra að greiða atkvæði. Við undirbúning sveitarstjórnarkosninga á vori komanda hafa þegar farið fram nokkur sameiginleg prófkjör flokkanna og hefur rétturinn til þátttöku í þeim verið bundinn við 18 ára aldur yfirleitt. Því má varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki sé kominn tími til fyrir stjórnmálaflokkana hér á hv. Alþingi að veita þeim ungmennum, sem hér eiga hlut að máli, sama rétt og þessir sömu flokkar veita í prófkjörum sínum.

Ég vil aðeins undir lok míns máls minna á að íslensk ungmenni eru yfirleitt virkari þátttakendur í atvinnulífi, félagsmálum og menningarlífi hvers konar en gerist erlendis. Þetta fólk hefur hlotið góða skólamenntun og hefur margt stofnað til hjúskapar og heimilishalds, greiðir sín gjöld til sveitarfélaga, og það hefur axlað að fullu ábyrgð og skyldur þjóðfélagsins.

Herra forseti. Ég tel mig hafa leitt að því nokkuð gild rök, að nú sé full ástæða fyrir hv. Alþingi að láta ekki lengur undir höfuð leggjast að sýna æskufólki það traust að veita því við sveitarstjórnarkosningar kosningarrétt sem miðast við 18 ára aldur.

Hv. 4. landsk. þm., varaformaður allshn., hefur óskað eftir að fá tækifæri til þess að láta hv. allshn. fjalla um till. á þskj. 402 sem ég hef hér mælt fyrir. Ég mun því draga hana til baka til 3. umr.