03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2831 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er nokkur vandi á höndum að koma í ræðustól eftir svo athyglisverða áminningarræðu reynds þingmanns með tveggja áratuga þingsetu að baki, sem þar að auki á sæti í fjvn. Hann hefur, finnst mér, af gildum ástæðum flutt nokkra ádrepu í garð hv. Alþingis og starfa þess.

Frsm. menntmn., hv. 11. þm. Reykv., gerði skilmerkilega grein fyrir einhuga áliti menntmn. hvað varðar mikilvægi þess hlutverks sem Sinfóníuhljómsveitin gegnir í tónlistar- og menningarlífi þjóðarinnar, og hv. 4. þm. Vestf. hefur gert ítarlega grein fyrir brtt. sem við flytjum við þetta frv., þannig að ekki er ástæða fyrir mig að fara að endurtaka það sem hann sagði varðandi brtt. okkar, en þær eru vissulega gerðar í þeim tilgangi að reyna að bæta þetta frv. Okkur er umhugað um að þegar loks er verið að setja lög um rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar verði þau sem best úr garði gerð.

Mig langar aðeins vegna ræðu hv. 4. þm. Reykn. áðan, þar sem hann talaði um fjármálin, að benda hv. þm. á að það er einmitt hugsun okkar að það komi þarna nokkurt aðhald þar sem gert er ráð fyrir að hljómsveitin skuli kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar. Við viljum ekki binda þetta í prósentum, heldur leggja í metnað hljómsveitarinnar að standa sem mest undir kostnaðinum eftir því sem möguleikar eru á. Einnig það atriði, að sveitarfélög geti samið um hlutdeild í staðbundnum kostnaði, er til að létta á fjármálunum.

Það hafa orðið talsverðar umr. um rekstrarfyrirkomulag hljómsveitarinnar, eins og það er hugsað í frv., og einnig að við skulum leggja þarna til breytingu um að fella niður aðild eins sveitarfélags, Seltjarnarnesbæjar, að rekstrinum þar sem það hefur af frjálsum vilja lagt þetta fram að undanförnu. Ég hef gert grein fyrir þessu viðhorfi í ræðu um þessi — mál áður, en ég get endurtekið einu sinni enn, að þetta er af þeirri ástæðu hugsað að alltaf er verið að reyna að gera hreinni skil á milli þess, hvað ríkið eigi að hafa á sinni könnu og hvað sveitarfélögin. Hins vegar hefur það komið fram, að sú hefð, sem hefur skapast vegna Ríkisútvarpsins og borgarsjóðs, sé af öðrum toga og því eðlilegt að þessir aðilar verði þarna með, enda má segja að höfuðborgin sé samnefnari þjóðarinnar og ekki síður Ríkisútvarpið.

Ég get tekið undir með hv. 11. þm. Reykv., sem er stoltur af því m.a. að vera búsettur á Seltjarnarnesi, í því fyrirmyndarbæjarfélagi. (ÓRG: Það voru ekki mín orð.) Jú, það hlýtur að mega skilja það svo, enda er ég ekkert hissa á því. Þetta er vel rekið bæjarfélag og til mikillar fyrirmyndar. — Hann taldi að Seltirningar væru stoltir af aðild sinni að rekstrinum, og það finnst mér mjög eðlilegt. Þeir geta sannarlega verið stoltir af því að hafa áhuga á að vera þátttakendur í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. En það er ekki þar með sagt, að þeir geti ekki haldið áfram að vera stoltir og ekkert síður þó að þeir verði aðilar að rekstrinum á frjálsum grundvelli, því að það er ekki gert ráð fyrir að þeir megi ekki leggja sitt af mörkum til hljómsveitarinnar þó að ekki sé verið að lögfesta það í þessari prósentu. Ég vil benda á þetta og ég er sannfærð um að þó að þessi breyting verði samþykkt verður það ekki til þess, að Seltjarnarnesbær missi áhugann á Sinfóníuhljómsveitinni og starfsemi hennar, heldur þvert á móti.

Þetta vildi ég láta koma fram.