09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þetta eru nú orðnar að ýmsu leyti athyglisverðar og skemmtilegar umr. og ekki að furða þó að vakið sé máls á því, að olíuvörur fari hér stöðugt hækkandi þegar þær lækka erlendis. Ég er þakklátur hv. þm. Skúla Alexanderssyni fyrir að gera það og segi ekki annað um það en bragð er að þá barnið finnur.

En að því er varðar ummæli hv. síðasta ræðumanns er málið einmitt þannig, að um langan aldur og um áratugaskeið hefur olíuverslun Íslendinga verið ein sú óhagkvæmasta í veröldinni af því að hún hefur verið í ríkiseinokun. Það hefur engin samkeppni verið í olíuverslun og það er ekki einu sinni samkeppni um dreifinguna vegna þess, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, að „olíufélögin hafa ekkert með verðlagningu olíu að gera“. Það er ríkisrekið líka.

Ég hugsa að við séum með 15–20% óhagstæðari olíuverslun en nokkurt ríki annað, þar sem samkeppni fær að njóta sín, og það er tími til kominn að það komi smásamkeppni í innflutning á þessari gífurlega þýðingarmiklu vörutegund sem við Íslendingar notum mjög mikið af. Það er sagt alveg öfugt við það sem hv. síðasti ræðumaður var að gera skóna, að það væri vegna einhverrar samkeppni hér sem olíuverðið er svona hátt. Það er vegna þess að hér hefur ekki fengið að vera nein samkeppni. Rússar hafa okrað á okkur um langa tíð og nú okra auðvitað aðrir á okkur því að það er ríkið sem er að semja. Auðvitað hafa þeir ekkert vit á olíuviðskiptum og það er engin samkeppni til að knýja á um að menn reyni að gera hagstæð innkaup. Svo er raunar um innflutning á mörgum fleiri vörutegundum, m.a. vegna kolvitlausra verðlagsákvæða. Það er þess vegna sem lífskjör Íslendinga fara versnandi. Það er vegna ofstjórnarinnar í þessu þjóðfélagi sem auðvitað leiðir til óstjórnar eins og allir vita. Þetta hefur auðvitað keyrt um þverbak síðustu fjögur árin þegar við höfum búið við verstu vinstri stjórnir sem verið hafa nokkurn tíma við völd á Íslandi. Það er þess vegna mjög gott, að á þessu er vakin athygli. Það er líka athyglisvert, sem ráðh. upplýsti, að ríkið fær 55% af bensínverðinu. Hvaða áhuga ætli fjmrh. t.d. hafi á því að lækka innflutningsverð? Eftir því sem innflutningsverðið er hærra, eftir því græðir ríkissjóður meira.

Það er eins og það, að heildsalarnir græða þeim mun meira sem verðið er hærra.