09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

223. mál, brú yfir Hvalfjörð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki aðstöðu til að hlusta á framsöguræðu fyrir þessari þáltill., en ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að að sjálfsögðu ber að fagna því, að menn hafa áhuga á að leiða svona stórmál inn á þennan vettvang og fá úr því skorið hvað hagstæðast er að gera í slíkum málum hér á landi.

Ég vil aðeins vitna í það vegna síðustu orða hv. framsögumanns, að Alþingi afgreiddi þetta mál 25. maí í fyrra með því að vísa till. þm. Vesturlands til ríkisstj. til meðferðar. Þar er gert ráð fyrir að fram verði látin fara ítarleg rannsókn á hinum ýmsu möguleikum sem gera verður ráð fyrir að eðlilegt sé að athuga í sambandi við heppilegasta samgöngustórvirki yfir eða um Hvalfjörð. Þetta er mjög stórt mál og ekki sama hvernig á verður haldið. Nútímatækni gefur sem betur fer mikla og margvíslega nýja möguleika á að skoða þessi mál og komast að niðurstöðu um hvað hagstæðast er.

Ég hef upplýsingar um að seinni hluta síðasta árs var þetta mál fært í þann búning, að Vegagerðin fékk málið til meðferðar. Þó ekki sé formlega búið að skipa sérstaka nefnd í málið frá hendi Vegagerðarinnar eða sérfræðinganefnd er mér kunnugt um að þegar hefur verið leitað til norskra sérfræðinga um álit á þessu máli að hluta. Þessi athugun er, því þegar komin í gang.

Ég vildi aðeins ítreka hér að það er samhljóða skoðun okkar, sem eigum að vera í forsvari fyrir þetta kjördæmi um sinn, að við viljum láta skoða málið mjög ítarlega og rannsaka hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að standa að því framtíðarverkefni að byggja brú yfir Hvalfjörð eða fara aðra leið. Þetta er framtíðarverkefni og þetta er mál sem við megum ekki missa sjónar á. Það er alveg ástæðulaust fyrir menn að sýna einhverja vantrú á því, að hér sé ekki viðeigandi verkefni. Þetta er það sem við eigum að vera allir samtaka um að gera, hvar sem er á okkar landi. Um allt sem horfir til framfara, þó að það sé kannske í sumra augum langt frammi í framtíðinni, eigum við heils hugar að fylgjast að og fylgja fast fram.