10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um er hér gert ráð fyrir í brbl. að 6% gengismunar renni í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þetta munu vera hin svokölluðu leynilög. Þetta mál er lítið í sniðum. Um það er að ræða að 9 millj. af skreiðarandvirði fari í Verðjöfnunarsjóð, um 4 millj. af saltfiski og 13 millj. af lýsi og mjöli, eða samtals um 26 millj.

Við hv. þm. Lárus Jónsson skilum séráliti og bendum sérstaklega á að ekki sé gert ráð fyrir að eigendur nýrra fiskiskipa fái að neinu leyti bætt upp það tjón sem þeir verða fyrir með því að kröfur á þá eða skuldir hækka vegna sífelldra gengislækkana. En eins og í okkar nál. segir er hér kannske ekki um að ræða neitt stórmál og munum við því sitja hjá við afgreiðslu þess.