11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það er í verkahring flugmálaráðherra að gefa út flugrekstrarleyfi og hann gerir það. Í því tilviki, sem hér er til umræðu, hefur hann gefið út leyfi til Arnarflugs hf. Í sambandi við það hafa verið hafnar umræður hér á Alþingi um að þessi viðskipti milli Arnarflugs og Iscargo hf. séu svo óeðlileg að það verði að líta svo á að hér sé um að ræða sölu á flugrekstrarleyfum. Þetta er býsna gróf ásökun. Það er nokkuð mikið sagt að segja á opinberum vettvangi hér á hv. Alþingi að ráðh. selji leyfi. Ég er hræddur um að þurfi að finna þeim orðum stað með rökum og það fullgildum rökum.

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv., að miklar umræður hefðu orðið um þessi mál í bankaráði Útvegsbankans þar sem bankastjórar voru að gefa bankaráðinu skýrslu um málið, og það kom fram í hans máli í sambandi við mat á flugvélum, að verðið sé mjög sveiflukennt. Ég skal ekki um það dæma, hvort niðursveifla sé í þessum efnum eins og sakir standa. Mér heyrðist á hv. 3. þm. Reykv. að svo væri, ef vélar væru seldar um þessar mundir fengist lítið verð fyrir þær, t.d. ef Iscargo væri gert upp og eigur þess seldar nú. Ég skal ekki dæma um það. En mér finnst það nokkuð fljótfærnislegt, svo ekki sé meira sagt, að koma hér í ræðustól á Alþingi í almennum umræðum og halda því fram, að hér sé um að ræða hneykslanleg viðskipti, draga þá ályktun af því, að flugrekstrarleyfi séu til sölu.

Hvað er að segja um flugmálaráðherra af Flugleiðum hf. þegar þau mál voru til meðferðar í ríkisstj. og sérstaklega hjá samgrn. og flugmálaráðherra? Þá beitti hann sér fyrir því, að gerðir voru samningar við annað ríki, Lúxemborg, um að það legði fram verulegar upphæðir til íslensks félags, til Flugleiða hf. Af Íslands hálfu voru teknar ábyrgðir á gríðarlega stórum fjárhæðum til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Flugleiða. Það voru teknar ákvarðanir um að fella niður stórkostleg gjöld til ríkisins, lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli. Ýmislegt fleira var gert til að styrkja Flugleiðir. Það hefði kannske verið hægt að halda því fram á þessum tíma, að þarna hefði flugrekstrarleyfi verið til sölu, en það, sem um var að ræða, var náttúrlega spurningin um hvort Flugleiðir lifðu áfram eða ekki. Mér er vel kunnugt um að Flugmálaráðherra lagði í það gífurlega mikið starf að tryggja áframhaldandi líf, vil ég segja, Flugleiða. Ég hef ekki trú á að Flugleiðir hefðu komist yfir þessa kreppu nema með stórkostlegri aðstoð og þá sérstaklega frá flugmálaráðherra. Ekki hef ég trú á að hægt sé að halda því fram, að hann hafi verið að vinna þetta verk gegn einhverri greiðslu.

Ráðherrar gefa út leyfi á hverjum einasta degi meira og minna, og það er hægur vandi að koma og halda því fram í almennum orðum að þeir séu að gera þetta í greiðaskyni við einn eða annan. Það er jafnvel hægt að halda því fram, að það sé gert gegn þóknun. En ef menn gera það verða menn að sýna fram á það svart á hvítu. Það duga ekki almennar umræður um svona mál, þegar svona ásakanir eru hafðar í frammi. Það verður að finna þeim orðum stað. Það verður að sanna slíka sök ef henni er haldið fram. Ég skal ekki gerast dómari í þessu. Ég þekki þó það vel til starfa hæstv. flugmálaráðherra að ég hef enga trú á að hann selji leyfi til flugrekstrar. Ég hef enga trú á því og finnst það mjög ómakleg ásökun, svo ekki sé meira sagt, nema sýnt verði fram á slíkt svart á hvítu.

Auðvitað deila menn um hvernig haga skuli flugmálum. Ég geri ráð fyrir að þegar menn ákváðu á sínum tíma að sameina Flugfélag Íslands og Loftleiðir, þá hafi menn gert það í þeirri trú að skynsamlegt væri að gera það. Ég dreg nokkuð í efa að reynslan hafi leitt í ljós að það hafi verið skynsamlegt. Þó að rekstur Flugleiða hafi á sínum tíma gengið vel og skilað miklum hagnaði, gífurlega miklum hagnaði, hefur komið í ljós að þessi rekstur er áhættusamur. Þá á ég alveg sérstaklega við Atlantshafsflugið. Hann er áhættusamur vegna þess að þar er við að etja samkeppni af hálfu mjög stórra og sterkra aðila. Ríki geta breytt um stefnu í þessum málum, eins og Bandaríkin gerðu skyndilega, sem leiddi til ofsalegrar samkeppni á Atlantshafsleiðinni. Það kom í ljós fyrir nokkrum árum, að stórkostleg áhætta var bundin við þennan rekstur. Þess vegna er eðlilegt að spurningar vakna um það, hvort ekki sé skynsamlegt að við höfum okkar innanlandsflug undir sérstakri stjórn eða aðskilið frá utanlandsflugi, því að það væri skellur fyrir Íslendinga ef Flugleiðir færu á hausinn og hættu sínum rekstri. Það snerti ekki eingöngu millilandaflugið, heldur einnig innanlandsflugið af því að þetta er allt samtvinnað. Því kann vel að vera að það væri skynsamlegra að hafa þetta aðgreint, hafa innanlandsflugið sér og blanda þessu ekki saman.

Ég get ekki orða bundist í sambandi við þessar umr. að lýsa furðu minni á því, að þm. skuli koma hér hver um annan þveran og bera slíkar sakir á ráðh. í nokkuð almennum orðum, án þess að rökstyðja það alveg svart á hvítu. Ég geri ráð fyrir að það, sem mest á ríður í þessu efni, sé mat á því, hvers virði þessi flugvél er. Það kann vel að vera að hún sé minna virði í dag en hún hefði verið fyrir kannske einu ári eða hálfu ári eða kann að verða eftir einhvern tíma. Það kann vel að vera, vegna þess að það eru sveiflur í þessum hlutum, miklar sveiflur. En ég er ekki farinn að sjá að hægt sé að sýna fram á það svart á hvítu að hér hafi verið um viðskipti að ræða sem séu ósæmileg, eins og gefið hefur verið í skyn, og eftir þessar umræður hlýtur að vera komið að Arnarflugi hf. að gera grein fyrir hvers vegna það hefur gert þetta. En ég mótmæli því mjög harðlega, að hér sé um að ræða sölu á flugrekstrarleyfum. Það er ósæmileg ásökun og ódrengileg og ekki rökstudd.