11.03.1982
Sameinað þing: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

229. mál, uppbygging flugvalla á Austurlandi

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hefur verið rætt mikið um flugmál í dag og verður þingheimur að þola það að ég bæti nokkrum orðum við, þó að ræða mín verði reyndar í dálítið aðra veru en þær sem hér hafa verið fluttar.

Ég hef flutt á hv. Alþingi þáltill. um uppbyggingu flugvalla á Austurlandi. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði áætlun um uppbyggingu flugvallarmannvirkja á Austurlandi sem taki til 5 ára. Áætlunin skal taka til eftirfarandi atriða:

a) Tekin verði ákvörðun um staðsetningu og uppbyggingu flugvallar við Egilsstaði sem búinn sé til að þjóna því hlutverki að vera miðstöð flugsamgangna til Austurlands frá öðrum landshlutum og erlendis frá, jafnframt því að fullnægjandi aðstaða sé þar sköpuð fyrir flugrekstur innan landshlutans.

b) Aðrir flugvellir á Austurlandi verði gerðir þannig úr garði að þeir fullnægi nútímakröfum um öryggi og hagkvæmni í áætlunarflugi, sjúkra- og leiguflugi.“

Tildrögin til þess, að þessi þáltill., sem hér um ræðir, er flutt, eru þau, að ástand flugvallarmála á Austurlandi er mjög bágborið þrátt fyrir þá staðreynd að flugið er sívaxandi þáttur í samgöngum eystra og landshlutinn í heild er þeim mjög háður. Í þessum málum er mikilvægt að meta stöðuna eins og hún er og gera sér grein fyrir því, að hverju stefna skal á Austurlandi í uppbyggingu flugvalla og búnaður þeirra og setja markmið um myndarlegt átak í þessum efnum.

Landfræðilegar aðstæður á Austurlandi gera það að verkum, að þýðing flugs fyrir þennan landshluta er mjög mikil. Vegalengdir eru miklar og yfir fjallvegi að fara milli þéttbýlisstaða. Áætlunarflug innan landshlutans fer því vaxandi og þýðing þess er mjög mikil. Segja má að flugið sé lífæð afskekktra byggðarlaga, einkum á vetrum. Því verður að huga að þeim mannvirkjum á jörðu niðri sem eiga að þjóna þessari umferð, einkum þó að öryggisþátturinn sé í lagi.

Ástand og búnaður flugvalla á Austurlandi blasir við augum heimamanna, sem sjá ástandið eins og það er, en skýrslur um þessi mál er að fá hjá flugmálastjórn sem fer með stjórn þessara mála af opinberri hálfu. Margir flugvellir á Austurlandi geta vart borið annað nafn en lendingarstaðir, eru malarbrautir án annarra öryggistækja en vindpoka. Þó er þetta ástand afar mismunandi, eins og nánar verður vikið að síðar.

Till. gerir ráð fyrir að hugað verði sérstaklega að málefnum Egilsstaðaflugvallar og eru ástæður þess þær, að þar er um dálítið sérstakar aðstæður að ræða. Egilsstaðaflugvöllur er nú fimmti mesti umferðarvöllur landsins. Fóru um 40 þús. manns um hann árið 1981 og lendingar þar voru um 1800. Ástand flugbrautarinnar er slíkt, að ekki verður við unað fyrir svo mikla umferð, og hefur komið fyrir oftar en einu sinni í vetur að völlurinn hefur verið ófær vegna aurbleytu. Þetta er fáheyrð staða og sýnir ljóslega hver þörf er hér á úrbótum. Hins vegar hefur ekki fengist botn í það mál, hvar Egilsstaðaflugvöllur skuli vera í framtíðinni, og koma þar einkum þrír kostir til greina sem minnst er á í grg.: að byggja flugvöll við Snjóholt í Eiðaþinghá, sem er um 8 km frá Egilsstöðum, að byggja flugvöll vestan núverandi flugbrautar, og í þriðja lagi að byggja hann á þeim stað þar sem hann er nú. Ákvörðun liggur ekki fyrir í þessu máli og er það mjög slæmt því að sú biðstaða tefur fyrir framtíðaruppbyggingu flugvallarins. Þetta kemur enn fremur að sök vegna legu Egilsstaðaflugvallar og umferðar um hann. Þennan flugvöll þarf að byggja þannig upp að hann geti þjónað beinu flugi til útlanda og verið hagkvæmur innanlandsvöllur fyrir þær gerðir flugvéla sem notaðar eru í innanlandsfluginu og kunna að verða notaðar í næstu framtíð.

Egilsstaðaflugvöllur hefur komið til greina sem varavöllur fyrir millilandaflug, en ég læt þær umræður liggja milli hluta. Það, sem við Austfirðingar þörfnumst fyrst og fremst, er öruggur völlur fyrir raunverulega umferð frá öðrum landshlutum, erlendis frá og innan landshlutans. Það er trú mín að Austurland eigi verulega framtíð fyrir sér sem ferðamannastaður og flugumferðin hljóti að verða þar einn mikilvægasti þátturinn. Benda má á þá staðreynd, að nú þegar er beint samband við Færeyjar frá Egilsstaðaflugvelli, sem þegar hefur opnað möguleika fyrir þá sem eru á leið til Kaupmannahafnar að fljúga þangað beint frá Austurlandi í gegnum Færeyjar. Þetta flug mun áreiðanlega aukast á næstu árum báðar leiðir, einkum ef það er hægt að stunda á þægilegum og hagkvæmum flugvélum.

Einn mikilvægasti þátturinn í rekstri Egilsstaðaflugvallar er sá að gera hann öruggan völl til lendingar við sem flest veðurskilyrði. Flugmenn hafa þar einkum horft til flugvallarstæðisins vestan núverandi flugvallar, sem mundi bæta mjög aðflug að vellinum og koma lágmarki í blindflugi til norðurs þar niður í 200 fet, sem mundi þýða að mjög fáa daga yrði ófært til Egilsstaða. Hins vegar er um dýra undirstöðu að ræða og erfiða í þessu flugbrautarstæði, en þau mál eru þó ekki fyllilega rannsökuð enn þá. Brýnt er að ljúka athugunum á þeim og gera áætlanir um kostnað sem hægt er að byggja á endanlega ákvörðun.

Seinni hluti tillögunnar fjallar um aðra flugvelli á Austurlandi en Egilsstaðaflugvöll. Eins og áður hefur verið getið er ástand þessara flugvalla mjög mismunandi, en enginn þeirra svarar þó fyllstu kröfum. Þeir eiga allir það sammerkt að þarfnast slitlags. Sumir þeirra þarfnast lengingar. Aðstaða fyrir farþega er víðast hvar frumstæð og aðflugstæki og lýsingu vantar víðast hvar. Rekstur og umsjón flugvallanna á Bakkafirði og í Breiðdal er óleyst vandamál, og er þess getið hér þó að till. nái annars ekki til rekstrarmála. Áætlunarflug innan Austurlands hefur farið vaxandi og er flugið nær einu vetrarsamgöngurnar við byggðarlög á norðanverðu Austurlandi, eins og Bakkafjörð. Vopnafjörð og Borgarfjörð eystra. Þarf ekki að lýsa þeirri nauðsyn að þetta flug geti gengið eins snurðulítið og kostur er.

Flugvöllurinn í Neskaupstað er mikilvægur umferðarþáttur eða mikilvægt umferðarmannvirki í stóru byggðarlagi, og nýuppbyggður flugvöllur í Breiðdal gegnir vaxandi hlutverki í framtíðaruppbyggingu flugs á Austurlandi. Nú heldur Flugfélag Austurlands uppi ferðum á leiðinni Egilsstaðir — Breiðdalur — Höfn — Reykjavík og gerir þetta flug fólki af sunnanverðum Austfjörðum kleift að nota þetta samband við Reykjavík jafnframt því sem flugið tengir einstök byggðarlög á Austurlandi með samgöngum. Á Höfn er áfangastaður í innanlandsflugi Flugleiða á Fokkervélum og þarf flugvöllurinn þar að svara þeim kröfum, en um hann hefur verið vaxandi umferð.

Auk þeirra flugvalla, sem hér hafa verið taldir upp, eru flugvellir á Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og Fagurhólsmýri, en ekki er stundað reglubundið áætlunarflug um þessa flugvelli. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að hverju á að stefna í uppbyggingu þessara valla, og fráleitt er að láta þá drabbast maður og koma þar öryggisástæður til. Þessa flugvelli vantar vegasamband og styrkingu þannig að möguleikar séu til áætlunarflugs á þá ef hagkvæmt og rétt þykir.

Till. gerir ráð fyrir athugun þessara mála og áætlunargerð, sem er fyrsta skrefið. Hins vegar er þarna um að ræða kostnaðarsamar framkvæmdir þegar til þeirra kemur. Það er flm. ljóst. Í vegagerð hafa verið gerðir arðsemiútreikningar fyrir vegi með varanlegu slitlagi þar eð slíkar framkvæmdir mundu spara bíleigendum mikið fé. Ég minnist þess ekki, að slíkir útreikningar liggi fyrir um flugvallarmannvirki og búnað þeirra, og er þó víst að slíkar framkvæmdir skila miklum hagnaði fyrir flugrekstraraðila. Nægir þar að minna á nokkur veigamikil atriði eins og grjótkast á malarvöllum, sem veldur skemmdum á flugvélum, sandfok, sem getur valdið dýru viðhaldi á hreyflum flugvéla, einkum á skrúfuþotum sem nú eru að ryðja sér til rúms í innanlandsflugi. Þá fara áætlanir úr skorðum vegna lélegra aðflugstækja og þess, að það vantar búnað, t.d. lýsingu. Þannig mætti lengi telja. Allt þetta gerir það að verkum, að framkvæmdir í flugmálum eru hliðstæðar vegaframkvæmdum þótt tölulegar upplýsingar skorti um hagkvæmni þeirra.

Það er staðreynd, að flugvellirnir hafa verið dragbítur á þá þróun að hægt sé að taka hér í notkun þægilegustu og hagkvæmustu gerðir flugvéla. Það er eðlilegt að flugrekstraraðilar veigri sér við fjárfestingu í nýjustu gerðum véla meðan ástandið er eins og það er nú. Það er því von mín að hv. Alþingi taki tillögu þessa til alvarlegrar umfjöllunar. Hún kveður á um athugun þessara mála og áætlanagerð og fer fram á að hv. Alþingi taki tillögu þessa til alvarlegrar umfjöllunar. Hún kveður á um athugun þessara mála og áætlanagerð og fer fram á að hv. Alþingi lýsi vilja sínum til að gera átak í uppbyggingu flugvalla og búnaði þeirra í þessum landshluta.

Ég óska að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.