15.03.1982
Neðri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

207. mál, söluskattur

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hvatt til þess að tekið yrði til við allsherjarendurskoðun vegáætlunar, en eins og nú standa sakir geta vonir hæstv. ráðh. um að það takist að framfylgja vegáætlun ekki ræst. Þetta verður ekki gert nema með peningum. Það er augljóst mál, að eitthvað muni út af standa. Eins og ég rifjaði hér upp skortir á 28 millj. kr. Segjum svo að fram gangi tilboð stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins um 20 millj. kr., en áformað er að um helmingur þess fjár, þótt lítið muni um það í þau tröllaverkefni, um 10 millj. kr., renni til Ó-veganna. Þá eru aðeins 10 millj. þar, og 10 frá 28 eru alls 18 millj. eftir mínum reikningi. 18 millj. eru ærið fé. Einhverjar framkvæmdir verða að sitja á hakanum.

Ég vil aðeins geta þess, að enda þótt menn hafi mjög mikinn áhuga á hinu bundna slitlagi getur sú þróun ekki haldist lengi að menn láti viðhald og uppbyggingu vega sitja á hakanum fyrir því, láti níða niður vegina þannig að þeir sökkvi undan umferðarþunganum meðan menn eru að punta upp á aðra með slitlögum. Í þessu efni hefur verið nokkur öfugþróun.

En 18 millj. skortir á og hér er frv. til l. um að ná 9 millj. inn til þess að staðið verði við afgreiðslu Alþingis á vegáætlun, lagaígildi frá því í fyrra. 18 millj. eru þetta.

Það er eðlilegt að hæstv. fjmrh. vilji ræða einhver önnur mál meðan ég er að þylja.þessa sögu yfir honum. Ég átti ekki von á að hann kæmi hér upp því að hann á auðvitað engin ráð undir sínum rifjum til að bjarga þessu við frekar en öðru. Hann er búinn að eyða öllu sínu, sjálfsagt í þær tildursráðstafanir sem þeir hafa verið að fikta við og í engan stað komið niður að undanförnu.

Hæstv. samgrh. segir að hann sé og hafi lengi verið þeirrar skoðunar, að endurskoða beri þessi skattalög, skatta á bensíninu, á umferðinni. Það er eins og vant er, þeir koma sér ekki að neinu verki þótt hér sé upplagt tækifæri til þess, því ekki var þetta reiknað með þegar fjárlög voru sett saman, þessi aukageta sem söluskatturinn gefur af síðustu bensínhækkun, 9 millj. kr. Nú er ágætt tækifæri til þess, því að hér er eingöngu átt við árið á ár. Það er ekki verið að taka ákvarðanir til lengri tíma, aðeins að reyna að bjarga málunum eins og þau standa í dag. En þá er farið í það að vefja tungu um höfuð sér eins og vant er, þá vill hann hafa þetta á einhverjum breiðara grundvelli. Mér dettur í hug hið fasta orðtæki iðnrh.: „í víðara samhengi.“ Það á allt að vera á breiðum grundvelli og í víðara samhengi, og ekkert verður úr neinu. Allt endar í sama skötulíkinu eins og til stóð í upphafi.

Þess vegna batt ég líka vonir við að menn gætu undir þetta tekið, að Framkvæmdastofnunin hefur enn fremur í huga að reyna til við 7 millj. kr. lánveitingar til vega á þessu ári, ef það hlýtur náð fyrir augum stjórnarherranna, sem helst nú velja gera allt sjálfir þótt þeir séu ómegnugir til þess. Og þá er farið að styttast í það, að við drögum þessa ráðherra að landi, en það er ekki nema með því móti að menn geti fallist á þetta hér.

Ég sakna hv. 12. þm. Reykv. því að það eru margir bifreiðaeigendur í landinu, og eins og hans skapferli og snúningslipurð í stjórnarsamstarfinu er háttað get ég vel hugsað mér að hann hafi nú kannske opna leið fyrir sig, eins og í gosdrykkjum o.fl., að leggja mér eitthvert lið. Ég skal með glöðu geði draga þetta frv. til baka og hann getur orðið 1. flm., ef hann vill, til þess að auglýsingin nái sér niðri, sem er auðvitað höfuðatriði. Það færi náttúrlega í verra ef hann gæti ekki fylgt því eftir alveg til lokaafgreiðslu í hv. deild, en á því hefur viljað verða misbrestur hjá þeim vaska manni. En ég sakna hans sérstaklega því að ég hef trú á því, að þetta félli í góðan jarðveg hjá honum, þó að hann sé að vísu „á breiðum grundvelli“ og starfi í „víðara samhengi“.

Ég vænti þess, þrátt fyrir daufar undirtektir hæstv. samgrh. við þetta frv., að í hv. deild og hinu háa Alþingi skapist meirihlutasamstaða um þetta, þar eð nauðsyn brýtur lög að kalla má. Það skortir á að staðið verði við fyrri ákvarðanir Alþingis, og það eru engin önnur ráð til að standa við þær. Þess hlýtur að verða krafist.