16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir og staðfesta það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. um stuðningsyfirlýsingu við hæstv. utanrrh. í þessum deilum um Helguvíkurmálið svokallaða. En ég vil líka segja að það er hörmulegt, að öll íslenska þjóðin skuli hafa horft á þá deilu undanfarnar vikur. Ekki vil ég taka þátt í því að pína ráðh., hæstv. forsrh. og utanrrh.. til að segja meira en þeir vilja segja. Ég geri mér það alveg ljóst, og mér fannst það koma fram í hinu stutta máli hæstv. utanrrh., að forsrh. er í klípu, má segja, í klemmu, er klemmdur á milli Alþb.-manna annars vegar og hins vegar framsóknarmanna. Þetta eru sterku öflin í ríkisstj. og þar af leiðandi á hann kannske erfitt með að segja eins mikið og hann gjarnan vildi. En báðir eru þessir menn reynsluríkustu stjórnmálamenn Alþingis.

En það, sem kemur mér til að standa upp, er að á mér eins og hverjum og einum þm. hvíla ákveðnar skyldur. Það hvíla ákveðnar skyldur á öllum þm. Ljóst er að þm. þriggja þingflokka af fjórum á Alþingi hafa lýst vilja sínum í þessu Helguvíkurmáli. Vilji meiri hluta Alþingis er því ljós. Lítill minni hluti hv. alþm. er andstæður þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á svæði varnarliðsins, þ.e. byggingu olíugeymanna. Það er því alveg ljóst, að framkvæmdirnar verða ekki stöðvaðar því að það væri ólýðræðislegt. Ég vil því, hafandi í huga þær skyldur sem hvíla á hverjum alþm. og Alþingi í heild, fara þess á leit við formann Alþb., hæstv. félmrh., eða annan þann sem getur talað í nafni flokksins, að hann láti hv. Alþingi vita nú við þessar umr., ef hægt er, hvort Alþb. muni slíta stjórnarsamstarfi vegna þessa máls Alþingi ber að sjá landinu fyrir starfhæfri ríkisstjórn. Haldi ráðh. áfram að ræða saman í fjölmiðlum og tala um valdníðslu hvor annars á þann hátt sem verið hefur undanfarið er komið upp vandamál innan ríkisstj. sem hlýtur að gera allt samstarf innan hennar erfitt og ríkisstj. að verulegu leyti óstarfhæfa. Það held ég að hljóti að vera ljóst. Og það er ástand sem hv. Alþingi verður og ber skylda til að láta til sín taka með aðgerðum sem duga því að ríkisstjórn sjálfstæðs ríkis má aldrei starfa með skerta starfsorku. Það held ég að sé öllum ljóst.

Deilan er í sjálfu sér í mínum huga um keisarans skegg. Framkvæmdin er nauðsynlegt framfaraspor. Ég undirstrika að þetta er nauðsynlegt framfaraspor. En deilan er pólitíski deilumál og það er flokkspólitísk lífsskoðun þeirra sem eru gegn þátttöku Íslands í varnarbandalagi vestrænna þjóða. Ég styð samvinnu vestrænna þjóða í þessu varnarbandalagi, en hér stangast á lífsskoðanir þeirra, sem styðja varnarbandalag vestrænna þjóða, og hinna, sem vilja ekki styðja það varnarbandalag, eru gegn her í landi. Þeir vilja engar framkvæmdir og þeir líta ekki á það sem framfaraspor að byggja upp hvort það eru olíugeymar eða flugvélaskýli eða hótel eða flugstöð eða hvað það er kallað. Þarna stangast á lífsskoðanir.

Ég hef áhyggjur af þessu máli. Ég hef áhyggjur af þeim afleiðingum sem þetta mál getur haft. Hvert leiðir þessi deila? Hvert leiðir hún ríkisstj.? Hvert leiðir hún Alþingi? Út í hvaða fen leiðir hún þjóðina alla? Eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Reykn. áðan er öll þjóðin upptekin við þessa deilu og Alþingi ber skylda til að laga þetta mál, koma ástandinu í eðlilegt horf.