02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. kom víða við í jómfrúrræðu sinni fyrir hálfum mánuði eða þar um bil. Mestur hluti ræðunnar var reyndar ekki um dagskrármálið, ekki um skipulag verkalýðshreyfingarinnar, heldur meintan innanflokksvanda Alþfl. M. a. las hann langan kafla úr Morgunblaðsgrein, sem ég hefði haldið að flestir hv. þm., sem áhuga hefðu á málinu, væru búnir að lesa. Mér finnst því hv. þm. hafa farið illa með jómfrúrræðu sína og eiga sök á þeim miklu umr. um alla heima og geima sem hafa farið fram undir dagskrárliðnum.

Tilefni þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er þó reyndar ekki þetta, heldur hitt, að hv. þm. margendurtók það, og það hafa margir Alþb.-menn gert í tíma og ótíma, að Alþfl. hafi í ríkisstj. árið 1979 og í stjórnarmyndunarviðræðunum seinast á því ári krafist almennra kauplækkana. Það er rétt, að Alþfl. taldi þá vegna mjög ört versnandi viðskiptakjara að nauðsynlegt væri, ef ná ætti viðunandi árangri í baráttunni við verðbólguna, að draga nokkuð úr þeim hraða sem verðbótavísitalan mældi á kauphækkanir til launþega.

Hitt vil ég undirstrika, en á það minnast hv. þm. Alþb. aldrei, að í öllum tillögum Alþfl. var gert ráð fyrir að fólki með lægri laun yrði hlíft við kjaraskerðingu og reyndar að reynt yrði að bæta nokkuð hlut þeirra frá því sem var. En þegar Alþb. beitti sér fyrir beinni 7% kauplækkun s. l. gamlársdag, svona sem nýársgjöf til launþega, gleymdist alveg að taka tillit til láglaunafólksins. Þá voru laun allra lækkuð, líka þeirra lægst launuðu.

Það er munurinn á stefnu Alþfl. annars vegar og Alþb. hins vegar í þessum efnum, að Alþfl. vill hlífa þeim tekjulægstu þegar þjóðarbúskapurinn verður fyrir þungum áföllum og þar með launþegar þegar á heildina er litið, hvað svo sem allir samningar segja til um, og vill að þeir tekjulægstu fái fyrstir og fái mestar kauphækkanir þegar betur árar. Alþb. vill aftur á móti að jafnt gangi yfir alla, vill að kjaraskerðingar, við skulum segja: óumflýjanlegar, komi jafnt niður á þeim tekjulægstu og þeim tekjuhæstu og kauphækkanir, þegar um þær er að ræða, komi jafnt 61 þeirra tekjuhæstu sem þeirra tekjulægstu. Það er þeirra jafnaðarhugsjón.

Ég vil svo bæta því við, að Alþfl.-menn hafa aldrei látið sér detta það öfugmæli í hug að kalla beina kauplækkun til allra launþega leið til að tryggja kaupmátt launa. Ef það er svona einfalt að tryggja kaupmáttinn er ekki mikill vandi að lifa: bara að lögbjóða kauplækkun, þá er kaupmátturinn tryggður.

Um dagskrármálið, herra forseti, vil ég segja það, að ég er sammála ýmsu í frv., m. a. því höfuðatriði þess, að vinnustaðurinn skuli vera grunneining í skipulagi verkalýðshreyfingarinnar, enda hefur það fyrirkomulag gefist vel, t. d. í álverinu og á Grundartanga. Aftur á móti tel ég að launþegahreyfingin eigi sjálf að koma þessu skipulagi á án fyrirmæla í lögum, og að því leyti er ég sammála hv. 7. þm. Reykv., a. m. k. eigi að reyna það til þrautar áður en slík lög verða sett.