17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er sjálfsögð regla að ráðherrar sitji í þingsal og hlýði á, einkum þó þegar þeirra mál eru rædd, en endranær einnig að sjálfsögðu, og skylt er að geta þess, að hæstv. utanrrh. gegnir þessari þingskyldu sinni allra ráðh. best, eftir því sem ég fæ séð.

En það var að vísu svo, að ég átti samtal við hæstv. dómsmrh. skömmu áður en þessi umr. hófst, og hann tjáði mér að hann gæti ekki með góðu móti verið hér. Ég hef svo sem ekkert á móti því, að þessi umr. haldi áfram, enda þótt hann sé ekki viðstaddur. Ég hafði fyrst og fremst hugsað mér að beina orðum mínum til hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem flutti hér ræðu bæði í þessum umr. áðan og eins þegar málið var til umr. 8. mars s.l., þar sem hann vék ýmsum orðum að starfsháttum allshn., sem ég tel mér skylt að víkja að. En út af fyrir sig skal ég ekki hafa á móti því, að þessari umr. verði frestað þangað til hæstv. dómsmrh. verður viðstaddur. Mér finnst það eðlilegast.