23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Í tengslum við þessa fsp. þykir mér rétt að gefa örstutt yfirlit yfir störf þeirrar nefndar sem að þessum málum hefur unnið.

Fóðurbirgðanefnd var skipuð 20. ágúst. Áttu sæti í henni Gísli Hjörleifsson bóndi, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Stefán Á. Jónsson bóndi sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin hóf þegar störf og hefur skilað nokkrum áfangaskýrslum um störf sín til rn., en lauk störfum með bréfi dags. 5. mars s.l.

Til þess að gefa stutt yfirlit yfir störf nefndarinnar vil ég rifja það upp, að 26. ágúst skrifar hún sveitarstjórnum bréf með beiðni um könnun á fóðurbirgðum. 29. sept. sendir nefndin landbrn. frumtillögur um úrbætur á þeim vanda sem henni var falið að gera tillögur um. 14. okt. sendir nefndin þessar frumtillögur til sveitarstjórna ásamt beiðni til þeirra um að hraða forðagæsluskýrslum.

Í síðari hluta nóvembermánaðar fól landbrn. tveimur mönnum að taka út tjón sem orðið hafði á garðlöndum kartöflubænda, einkanlega við Eyjafjörð. Þessir tveir menn skiluðu úttekt sinni um mánaðamótin nóv.-des. 3. des. var fóðurbirgðanefnd ásamt fulltrúa frá Landssambandi kartöflubænda, Sveinberg Laxdal, falið að gera tillögur um fyrirgreiðslu til kartöflubænda og annarra garðyrkjubænda sem orðið höfðu fyrir tjóni vegna snjóa og árferðis. 14. des. berast tillögur frá fóðurbirgðanefnd um fyrirgreiðslu vegna garðyrkjubænda ásamt meginniðurstöðum. 17. des. skilar fóðurbirgðanefnd bráðabirgðaniðurstóðum um lán til bænda vegna fóðurskorts, en vekur athygli á því, að skýrslur vanti enn frá allmörgum sveitarfélögum. 1. febr. skilar nefndin tillögum um aðstoð, um lán samtals að fjárhæð 1501 millj. kr. til 377 bænda vegna fóðurvöntunar og til 93 bænda vegna tjóns á garðlöndum. Og 5. mars skilar nefndin lokaniðurstöðum sem höfðu þá tekið örfáum breytingum frá 1. febr. Fela þær tillögur í sér að 381 bónda í 92 hreppum verði veitt lán úr Bjargráðasjóði, samtals að fjárhæð 10 001 100 kr., og 93 bændum verði veitt lán úr Bjargráðasjóði vegna tjóns á garðávöxtum, að fjárhæð 4 829 200 kr., eða samtals 14 830 300 kr.

Mál, er þetta efni varða, hafa verið lögð fyrir ríkisstj. Í fyrsta lagi frumtillögur fóðurbirgðanefndar sem skilað var til rn. 14. okt., í öðru lagi bráðabirgðaniðurstöður nefndarinnar frá 14. og 17. des. og í þriðja lagi niðurstöður nefndarinnar eftir 1. febr.

Ríkisstj. tók þessi gögn til athugunar og afgreiðslu. Í fyrsta lagi voru í samræmi við tillögur nefndarinnar veittar fyrir fram af jarðræktarframlögum 2.5 millj. kr. fyrir áramót vegna grænfóðurakra á óþurrka- og kalsvæðunum. Var það greitt fyrir fram af fjárlögum þessa árs með velvilja fjmrn. Í öðru lagi voru samkvæmt tillögum nefndarinnar veittar 25 þús. kr. til þessa að styrk ja efnagreiningar á heyi að hluta á helstu óþurrka- og kalsvæðum landsins. Á hinn bóginn var ekki afgreitt í ríkisstj. að útvega lán til þess að mæta lánsfjárþörf Bjargráðasjóðs meðan niðurstöður lágu ekki fyrir og enn vantaði að verulegu leyti skýrslur frá allmörgum sveitarfélögum. Óhætt er að segja það hér, að þetta atriði tafði verulega störf nefndarinnar, sem að þessu efni vann, og hefur þar af leiðandi tafið verulega að úrbætur fengust í þessu mikilsverða máli. Er það ekki ný saga að bíða þurfi helst til lengi eftir skýrslum sem einstök sveitarfélög eru beðin að láta í té. Á hinn bóginn samþykkti ríkisstj. eftir skamma athugun tillögur nefndarinnar óbreyttar eftir að þær bárust 1. febr. s.l.

Síðan hefur verið unnið að útvegun fjármagns. Ég ræddi þann þátt málsins bæði við Seðlabanka Íslands og viðskiptabankana og fékk þar nokkrar undirtektir, en var vitaskuld bent á að samkv. venju eru það fjmrn. og félmrn. sem annast það að ganga frá slíkri lántöku. Var síðan í höndum þeirra ráðuneyta að ganga frá og útvega fjármagn til að mæta þessum vanda, sem nam 15 millj. kr. Öllum er kunnugt að Bjargráðasjóður heyrir undir félmrn. Það var þess vegna ráðuneytisstjórinn í félmrn., sem jafnframt er formaður Bjargráðasjóðs, sem hefur annast útvegun fjármagns að meginhluta ásamt ráðuneytisstjóra fjmrn. Nú er svo komið að það fé liggur fyrir sem þarf á að halda til þessarar aðstoðar. Hefur það verið fengið frá Seðlabanka Íslands, Viðlagatryggingu Íslands og að nokkru frá viðskiptabönkunum. Jafnframt hefur verið unnið að því á vegum Bjargráðasjóðs að undirbúa afgreiðslu lána. Ætti ekki að verða löng bið á því, að sá þáttur málsins leysist.

Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir jól var tekin inn í 6. grein fjárlaga heimild fyrir ríkisstj. til að afla Bjargráðasjóði lána til að endurlána bændum vegna afurðatjóns af völdum kals og uppskerubrests. Segja má að það hafi komið mér á óvart, að þessi texti í fjárlögum ríkisins þótti ekki fullnægjandi til að ganga frá þessari lántöku. Kom það ekki í ljós fyrr en afskipti fjmrn. hófust af málinu nú á síðari stigum. Þess vegna hefur nú verið útbýtt brtt. fjh.- og viðskn. hv. Nd. við frv. til lánsfjárlaga og í þeim brtt. er till. þess efnis, að inn komi ný málsgr. svohljóðandi: „Bjargráðasjóði er heimilt að taka lán á árinu 1982 allt að fjárhæð 15 millj. kr.“ Er það niðurstaða þessa máls, að ekki teljist unnt að afgreiða þessi lán til bænda fyrr en lánsfjárlög hafi verið afgreidd.

Ég vonast sannarlega til þess, að lánsfjárlög verði unnt að afgreiða í þessari viku eða a.m.k. strax eftir næstu helgi og þegar sú afgreiðsla Alþingis hefur farið fram verði unnt að leysa úr þessu máli.

Ég vil hins vegar taka það fram, að mér þykir mjög miður að orðið hefur meiri dráttur en æskilegt er á úrlausn í þessu efni. Eins og ég tók fram hefur það sumpart verið vegna formsatriða um ábyrgðir og heimildir ríkisstj. í lögum og í öðru lagi vegna þess að allmikill dráttur varð á að ná saman þeim skýrslum sem leggja þurfti til grundvallar.