14.10.1981
Neðri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Á tveimur síðustu löggjafarþingum höfum við þrír þm., ég, hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, og hv. 3. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, flutt frv. til laga um listskreytingar opinberra bygginga þar sem gert er ráð fyrir að skylt sé að verja til listskreytinga opinberra bygginga fjárhæð er nemi 1–2% af byggingarkostnaði mannvirkis. Síðan var skilgreint nánar í frv. hvað væri átt við með opinberum byggingum í þessum skilningi.

Þessi frv. hafa verið til meðferðar h já menntmn. þessarar hv. deildar, og á síðasta þingi mun hafa verið allmikið unnið að þessu frv., sem við þremenningar fluttum, og m. a. leitað umsagna ýmissa aðila og þær liggja þegar fyrir. Við hljótum því að fagna því, að hæstv. menntmrh. skuli nú hafa tekið frumkvæði í þessu máli með því að bera fram frv. til laga um Listskreytingasjóð ríkisins, en það frv. stefnir að sama marki og við vildum stefna að með okkar frv. þó að með nokkuð öðrum hætti sé.

Aðalmunur þessara tveggja frv. er sá, að hér er lagt til að stofnaður sé sérstakur sjóður, Listskreytingasjóður ríkisins. Sú leið kann að vera eðlileg. Hún er þó ekki einhlít eða sjálfsögð. Sjálfum finnst mér að allt of mikið sé að því gert hér á hv. Alþingi að stofna sjóði um hvers konar verkefni sem vinna þarf að. Slíkir sjóðir skipta orðið tugum. Hver slíkur sjóður er raunverulega lítil stofnun í sjálfu sér með sérstakri stjórn og einhverri aukaskriffinnsku í kringum sig og aukakostnaði. Ég vil þó ekki hafna þeirri leið algjörlega, en tel að sú nefnd, sem um þetta kemur til með að fjalla hér í deildinni, hv. menntmn., reyni að íhuga hvort þetta sé sú rétta leið sem þarna er lögð til.

Það er annað líka sem hræðir mig svolítið í þessu sambandi, og það er sú regla sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp þegar um er að ræða lögbundin framlög til ýmissa sjóða sem stofnaðir hafa verið til þess að styrkja þörf málefni. En það er sú regla að flytja hér á hv. Alþingi frv. um; að þrátt fyrir ákvæði laga um að leggja skuli svo og svo mikið fjármagn til viðkomandi sjóðs, þá skuli skerða það framlag að þessu sinni. Þetta þekkjum við þm. og þannig hefur þetta verið núna á síðustu tveimur þingum. Ég tel því að það sé öruggara að búa þannig um hnútana, eins og gert er í því frv. sem við þremenningar fluttum, að skylt sé að verja til hverrar byggingar ákveðinni prósenttölu — við getum rætt nánar um hvað hún eigi að vera — af byggingarkostnaði mannvirkis, — það sé öruggara til þess að ná því markmiði sem við allir, sem um þessi mál fjöllum og höfum áhuga á, viljum stefna að, en það er að fegra umhverfið í kringum okkur, tryggja að í öllum opinberum byggingum sem víðast um landið verði listamönnum fengin verkefni til þess að gera umhverfið mannlegra. Öll vitum við að slík listaverk verða ómetanlegur þáttur í umhverfinu og skapa fegurra og betra mannlíf.

Ég vil líka benda á að ekki er í þessu frv., sem hæstv. menntamrh. hefur hér kynnt, ákvæði um skyldu til þess að leggja fram fjármagn til þeirra opinberu bygginga sem þetta frv. fjallar um, heldur er það nánast lagt í vald sjóðsstjórnar sem vafalaust verður skipuð hinum mætustu mönnum. En ég vek athygli á að í 9. gr. frv. stendur að verja megi til listskreytinga bygginga, sem lög þessi ná til, fjárhæð sem svarar til 1% álags á framlög ríkisins. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir því fjármagni sem verður í sjóðnum hverju sinni. Þarna gæti sú hætta verið fyrir hendi, að kröftunum yrði beint um of að ákveðnum byggingum og meira fjármagn veitt til þeirra, en aðrar byggingar látnar sitja á hakanum. En það, sem við vildum stefna að með okkar frv., var að þetta dreifðist sem mest. Opinberar byggingar eru þær stofnanir þar sem flestir landsmenn ganga um garð og geta því átt þess kost að njóta slíkra listaverka.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég fagna því, að þetta mál skuli enn komið á hreyfingu með þessum hætti. Við þremenningar höfum lagt fram okkar frv. að nýju og það kemur væntanlega á dagskrá þessarar hv. deildar mjög fljótlega og fer þá til hv. menntmn. þannig að bæði þessi frv. verði þar til athugunar og þá sé hægt að skoða þau og taka tillit til þeirra sjónarmiða og skoðana sem í þeim báðum felast.