31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér þykir heldur verra og raunar miklu verra að hæstv. landbrh. er ekki í salnum því ég þurfti að gera athugasemdir við málflutning hans, en hann mun vera horfinn af vettvangi. Er forseta ekki sama þó þessi athugasemd mín bíði þangað til á framhaldsfundi í kvöld? (Forseti: Ætlunin er að ljúka umr. núna.) Þá verð ég að láta hjá líða að minnast á atriði sem ég ætlaði að nefna að öðrum kosti.

Hæstv. landbrh. fær mig ekki til að trúa því, að hann hafi ekki vitað um fréttatilkynningar Kristjáns Jónssonar rafmagnsveitustjóra. Ég efast um að nokkur hér í húsinu trúi því, að hann hafi ekki vitað um þær. Hvað blekkingar og áróður varðar er það ekkert annað en blekkingar og áróður að halda því fram, að gras vaxi og viðhaldist eftir þeirri forskrift sem gefin er í þessum samningi. Það mun koma á daginn, og reynslan er ólygnust.

Landbrh. vildi gera Landgræðsluna ábyrga fyrir þessum útreikningum RALA eða þessum yfirlýsingum RALA. Ég er með bréf í höndum ritað nú í mars og undirritað af Stefáni Sigfússyni hjá Landgræðslunni sem fer með þessi mál varðandi þessa virkjun. Ég er með umsögn um frv. um Blönduvirkjun frá 1978 undirritaða af Sveini Runólfssyni. Ég man fullyrðingar Sveins Runólfssonar á fundi í Húnaveri í fyrravetur sem hnigu að því, að það yrði að bera á á hverju einasta ári. Hæstv. landbrh. vildi láta sem þessir útreikningar væru á ábyrgð Landsvirkjunar. Ég vildi gjarnan að þeir Landsvirkjunarmenn treystu sér til að taka ábyrgð á þessum útreikningi. Ég hef margtekið fram að það, sem á milli ber er tilhögun I og II. það er talan sem gildir, ekki ferkílómetratal af grjóti, heldur það sem eyðileggst af grónu landi. Mismunurinn á því er 46% og um það eru óyggjandi tölur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Mismunurinn er að 5505 hektarar af algrónu landi við tilhögun I, glatast en 2984 við tilhögun II.

Breytingar á veituleið, sem landbrh. var að reyna að gera að einhverju máli, skipta sáralitlu máli vegna búfénaðarferða á Auðkúluheiði. Fé, sem kemur út á milli Friðmundarvatna, á ekkert erindi austur yfir Fiskilæk. Engu máli skiptir upp á fénaðarferð þó að þessari veituleið sé breytt.

Þetta með nýju virkjunina, sem hann ætlaði að skjóta inn í skurðinn í Botnum, er heldur spaugileg hugmynd. Ég held að búið verði að virkja flestar sprænur á Íslandi áður en að því kemur. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég ætla að stytta mál mitt.

Þessir virkjunarkostir eru sambærilegir. Ég ber það til baka sem hæstv. landbrh. sagði. Ég fullyrði að í þessu máli hefur verið um óeðlilegan þrýsting að ræða. Landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands hefur t.d. greint frá viðskiptum sínum við landbrh. nú í lok síðasta árs á opinberum vettvangi, og fleiri embættismenn ríkisins hafa orðið varir við landbrh. í þessu máli.

Það eru ekki gífurlega miklir hagsmunir í veði fyrir þjóðfélagið að taka fremur virkjunarkost I. Menn, sem ausa peningum, 8 millj., í skurð þar, spennistöð þar, rafmagnslínu þar, eru ekki að hugsa um peninga. Þeir eru að hugsa um eitthvað allt annað.

Landbrh. endaði á viturlegum orðum og þótti mér undurvænt að heyra þau úr munni hans. Hann sagði að hann vonaði að skynsemin réði, en ekki kapp sem byggðist á ókennilegum orsökum. Þarna er ég honum algerlega sammála. Og ég er mjög glaður ef hæstv. landbrh. ætlar nú allt í einu að fara að láta skynsemina ráða, en ekki kapp sem byggist á ókennilegum orsökum.