31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka frekari þátt í þessum umr., en eftir þessa sérkennilegu síðustu ræðu hv. 5. landsk. þm. sé ég ástæðu til að bæta við fáeinum orðum.

Það er sannarlega dálítið sérkennilegt fyrir okkur þm. úr öðrum landshlutum að hlýða á umr. eins og þær sem fram hafa farið síðustu stundirnar í sambandi við þetta mál, þar sem þm. viðkomandi svæðis hafa sérstaklega lagt orð í belg, og það er dálítið sérkennilegt þegar talsmaður þessa svæðis, eins og hv. 5. landsk. þm., kemur hér inn í þessa umr. og ber mig sökum um að reyna að spilla fyrir framgangi Blönduvirkjunar. Ég vil ekki vera að taka upp í mig stór orð í þessu sambandi, ummæli hv. þm. dæma sig sjálf, að ég tel, án þess að notað séu þar lýsingarorð eða einkunnir.

Það er talað um að ég hafi ekki sett punktinn aftan við þetta mál. Hvað var hv. þm. að segja? (Gripið fram í.) Hann var að segja að hann teldi að það ætti ekki að setja punktinn aftan við málið, þær samningaumleitanir, sem leiddar hafa verið til lykta við fimm hreppsnefndir á svæðinu, ættu ekki að gilda, heldur ætti að taka málið upp, punkturinn væri ekki kominn þar aftan við og það ætti að fara út í framkvæmdir. Óljóst var við hvað hv. þm. átti, nema það væri að halda út í óvissuna með framkvæmd upp á 1000 mill j. kr. Það er kannske tillaga þessa hv. þm.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að ég hef alla tíð lagt áherslu á að það yrði náð sem víðtækustu samkomulagi um þetta viðkvæma mál. Ég tel að þeir, sem að því hafa staðið fyrir hönd iðnrh., virkjunaraðili og aðilar á hans vegum, hafi lagt sig í framkróka um að ná sem víðtækustu samkomulagi. Ég hlýt að vekja athygli að því, að þegar menn eru að tala um að breyta virkjunartilhögun með því að deila með tveimur í miðlunargetu viðkomandi virkjunar, þá eru menn jafnframt að breyta grunnforsendum sem hafa valdið því, að samkomulag hefur tekist um þá virkjunarröð og virkjunarleið sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að láta hagkvæmnimælikvarðann ráða í sambandi við niðurstöðu. Ef menn halda, að það sé hægt að breyta grunnforsendum virkjunarinnar og hagkvæmniforsendum, og þegar þar við bætist að öryggissjónarmiðum er betur fullnægt með öðrum hætti, þá eru menn sannarlega að stofna því máli í hættu sem ég hélt að væri áhugaefni og hagsmunamál þm. þess landshluta sem hér hafa talað um upp á síðkastið.

Ég ætla ekki að fara að leiða fram tölur í þessu samhengi, og ég tel líka að tölur segi ekki allt. Það er fleira sem þarf að taka inn í þessa mynd og hefur verið tekið inn í þessa mynd. Öryggisþátturinn skiptir þar sannarlega máli og á hann hlýtur einnig að verða litið. En ég stend að þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, og hef reynt að vinna heils hugar að þessu máli. Mér þykir heldur hart að heyra málflutning af því tagi sem loksins kom hér fram hjá hv. 5. landsk. þm., sem hefur haldið sig til hlés þangað til við lok þessarar umr.