31.03.1982
Sameinað þing: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3457 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

243. mál, steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. og raunar landslýður allur hafi heyrt flest þau rök sem fram hafa verið borin hér í ræðum í kvöld — og kannske rakaleysur einhverjar líka. Það hefur, eins og menn vita, verið dengt yfir þm. og raunar fréttastofur greinargerðum bæði af hálfu ráðuneytis og þeirra tveggja fyrirtækja sem hér eru til umr. Flest af því, sem hér hefur fram komið, hafa menn þegar lesið eða heyrt og þess vegna kannske ástæðulaust að efna til næturfundar til að endurtaka það sem allir vita eða hafa heyrt.

Það var þó eitt nýtt eða ekki nema nokkurra daga gamalt, svo að ég hafi heyrt a.m.k., sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Helgasyni, þar sem hann gat um að 29. mars 1981 hefði Jarðefnaiðnaður ákveðið að hefja söfnun hlutafjár og orðrétt bókað: „Stefnt skal að því marki að svo mikið hlutafé safnist, að ekki þurfi að koma til meðeignar hins opinbera eða útlendinga.“ En hann gat þess, að á því ári, sem síðan er liðið, hefði lítið fé safnast, þar um hefði valdið óvissa um staðarval, og þungt væri fyrir fæti með hlutafjársöfnun.

Þetta er nákvæmlega eins um Steinullarfélagið, að auðvitað vilja Skagfirðingar helst afla alls fjárins hjá fólki þar nyðra eða annars staðar og félögum og vera lausir við opinber framlög. Það er enginn munur á því. Stefna beggja félaganna er nákvæmlega sú sama. En það er auðvitað eins í Skagafirðinum, að meðan endanlega hefur ekki verið tekin ákvörðun um staðsetningu fyrirtækisins er þungt fyrir fæti þar eins og hjá Sunnlendingum. En vonandi er að það takist að afla hlutafjár svo að ríkisframlag þurfi ekki til að koma, þó að engin vissa sé fyrir því nyðra fremur en syðra.

Ég ætla ekki að fara að ræða um arðsemiútreikninga og annað slíkt. Það hefur verið gert svo oft í blöðum og í öllum þeim aragrúa greinargerða sem þm. hafa fengið og eins því sem ráðh. las hér upp. Það er staðreynd, að þeir sérfræðingar, sem meta þetta — og ég ætla þeim að þeir reyni að gera það eftir bestu samvisku — komast að þeirri niðurstöðu, að arðsemi sé mjög svipuð ef verksmiðjur eru af nokkuð svipaðri stærð.

Það skal játað, að Sauðkræklingar fóru af stað með athuganir á steinullarvinnslu í talsvert stórri verksmiðju. Ég sá þetta auðvitað og fylgdist með og mér leist aldrei á það. Ég hafði aldrei sérstakan áhuga á þessari stóru verksmiðju. Hugmyndin var góð og við vorum allir hrifnir af henni, en kannanir, sem fóru fram á markaði, sérstaklega erlendis, einkum markaðskönnun sem barst frá Bretlandi, sannfærði mig um að þessi verksmiðja væri vonlaus, það væri ekkert vit í henni. Það var svo mikil óvissa í sambandi við markað að sú verksmiðja hefði hlotið að fara á hausinn. Þess vegna varð það úr að farið var að rannsaka minni verksmiðju. Og það var einmitt svo, að bæjarstjórinn á Sauðárkróki, Þorsteinn Þorsteinsson, sem var einn af helstu forráðamönnum Hagvangs og sérstakur sérfræðingur í markaðsathugunum og arðsemiútreikningum og skipulagningu fyrirtækja, komst brátt að þeirri niðurstöðu, að slík verksmiðja væri ekki sú heppilega, heldur minni verksmiðju. Hins vegar héldu þeir hjá Jarðefnaiðnaði áfram með sina stóru verksmiðju alllengi þangað til þeir minnkuðu hana líka.

En sem sagt, við skulum ekki þræta um þetta. Ég skil öll þau sjónarmið sem Sunnlendingar setja fram. Það er vissulega nauðsynlegt fyrir þá að koma upp iðnaði. Manni dettur í hug að fyrir einum og hálfum áratug eða svo var sagt að ég hefði viljað koma upp 20 álbræðslum. Það var að vísu ekki rétt, en það hefði gjarnan mátt á þeim tíma koma upp öflugum fyrirtækjum og mun öflugri en því sem hér er um rætt. Vissulega verðum við að iðnvæða landið og munum gera það þegar við fáum stjórnarfar, sem viðunandi er, ekki afturhaldsstjórn eins og þá sem nú er við völd.

Það er athyglisvert, að menn tala um að afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu séu óeðlileg og um það er ég innilega sammála um og ógeðfellt að þurfa að taka þátt í umr. eins og þessari, að Alþingi eða ríkisstj. sé að taka ákvarðanir um fyrirkomulag í atvinnulífinu, staðsetningu o.s.frv. Við þurfum auðvitað að huga að því, að það er alla tíð verið að soga fjármagnið frá fólkinu til ríkisins, ríkisstofnana og opinberra aðila, og herða að atvinnulífinu, sem auðvitað veldur því, að engin fyrirtæki verða stofnuð á heilbrigðum grunni, þar sem arðsemisjónarmið ein, áhætta og ágóðavon ráða því, hvort í atvinnurekstur er ráðist eða ekki. Ég er sammála þeim Sunnlendingum um það, að auðvitað er óeðlilegt að þurfa að fara að með þeim hætti sem hér hefur raunin á orðið og allt of ríkt er í þessu þjóðfélagi. Auðvitað eiga að rísa öflug almenningshlutafélög þar sem arðsemisjónarmíð, dugnaður og útsjónarsemi fá að ríkja, en opinberir aðilar séu ekki að hnýsast í allan atvinnurekstur. Það er ánægjulegt að heyra að sumir aðstandendur þeirrar vandræðaríkisstjórnar, sem við nú höfum, sem færir allt í þveröfuga átt við það sem hér er rætt um að þyrfti að vera, að þeir gagnrýni þetta og sjái í hvert óefni stefnir. Þetta var útúrdúr.

Ég skal ekki segja um hvort það er eðlilegur viðskiptamáti hjá Ríkisskip að vilja nota autt rúm í skipum að norðan til Reykjavíkur. Ég hygg þó að þetta mundu félög gera þó í einkaeign væru, ég veit ekki á hvaða verðlagi, en áreiðanlega á einhverju lægra verði en þegar skipin sigla þær leiðir sem aðalflutningar eru. Ég er lítill aðdáandi Ríkisskips og teldi eðlilegra að einkaframtak annaðist þann rekstur. Engu að síður held ég að einkafyrirtæki mundu frekar taka gjald fyrir að hafa eitthvað að flytja suður en að vera með skipin tóm, svo að ég er ekki viss um að þetta sé óeðlilegt tilboð af hálfu Ríkisskips. Þeir sérfræðingar, sem um það fjalla, telja það ekki vera. Það mundi áreiðanlega vera einhver slíkur mismunur einnig hjá hvaða einkafyrirtæki sem væri. En sem sagt, arðsemiútreikningana held ég að við verðum að taka trúanlega. Að minnsta kosti hafa engin þau rök komið til mín frá þeim, sem eru að gagnrýna þá, sem bitastætt er í að einu leyti eða neinu. Það hef ég ekki getað orðið var við.

Hér var flutt ein mjög skemmtileg ræða af hv. þm. Garðari Sigurðssyni. Þó fannst mér óviðurkvæmilegt að fara að metast um það, hverjar framkvæmdir væru í hinum einstöku kaupstöðum sem eru að byggja sig upp, og taka þá Sauðárkrók sem sérstakt dæmi um að þar væri mikið um athafnir á sviði íbúðabygginga, skólabygginga, heilsugæslustöðva o.s.frv. Þetta er allt saman rétt. Það eru harðduglegir menn sem stjórna bæjarmálum Sauðárkróks, og þótt þeir eigi við mikla fjárhagserfiðleika að etja, eins og önnur sveitarfélög sem eru í uppbyggingu, hefur þeim tekist að áorka ótrúlega miklu. En að öfundast yfir því, það finnst mér vera óviðurkvæmilegt, svo að ekki sé notað sterkara orð. Fólk leggur gífurlega hart að sér við vinnu á þessum stöðum. Menn vita að það hefur verið mikil vinna úti á landi, sem betur fer, vegna aukningar á afla og mikillar vinnu í frystihúsum. Þessi fyrirtæki eru öll meira og minna á vonarvöl, meira og minna eignarlaus og hafa tapað gífurlega á s.l. ári, en engu að síður hafa þau þó veitt atvinnu og það hefur gert það að verkum, að fólk hefur þó haldið áfram að byggja og reynir auðvitað að fá skólahúsnæði fyrir börn sín og gera við götur, lappa upp á þær, vil ég nú segja, því að vissulega vantar mikið á að allar götur á Sauðárkróki séu enn orðnar malbikaðar. En það á ekki að öfundast yfir þessu.

Hitt er aðalatriðið, að undirstöðuna undir atvinnulífið vantar. Það er sagt að svo og svo stór hluti íbúa Sauðárkróks lifi á iðnaði. Hver er þessi iðnaður? Það er byggingariðnaður fyrst og fremst. Það eru tvö sæmileg iðnfyrirtæki þar önnur en þau sem eru beint í byggingariðnaði. En ef atvinnulífið brestur, hver byggir þá? Hvað verður fyrir þetta fólk að gera?

Ég held að við ættum ekki að vera að hnotabítast um það hvar mesta þörfin sé að þessu leyti. Hún er mikil alls staðar. Við getum lifað á sjávarútveginum að vissu marki, en að hámarki er þó komið það sem hægt er að veiða. Það er svo margendurtekið að ég þarf ekki að víkja að því frekar. Við eigum að snúa bökum saman um að efla iðnað og miklu stærri og öflugri fyrirtæki en það sem hér um ræðir, en ekki að vera að öfundast út af því, hver fái hvað. Og ég vísa á bug öllum röksemdum um að Sauðárkrókur sé ekki eins vel að þessari verksmiðju kominn og Þorlákshöfn. Raunar tel ég miklu eðlilegra að verksmiðjan rísi á Sauðárkróki vegna þess frumkvæðis sem Sauðárkrókur hefur haft. Þó að þessar gömlu bókanir frá Jarðefnaiðnaði séu til eru þær bara partur af mörgum. Þeir voru að vinna í allt öðru, reyna að flytja út vikur og bruna og ýmislegt slíkt, jafnvel í samkeppni við einkafyrirtæki og að gera þeim fyrirtækjum erfitt fyrir. Það voru þeirra aðalmarkmið þangað til þeir fundu það út, að Sauðárkrókur væri að vinna að þessu verkefni. Þá var hlaupið til og kapphlaupið hófst. Því er vonandi að ljúka.