01.04.1982
Neðri deild: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi mínum við það starf ráðh. að setja lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jafnframt lýsi ég undrun minni yfir því, að það hafi gerst og yfirleitt geti gerst, í þessu tilfelli hefur það gerst í 32 ár, að ríkið raunverulega reki stofnun sem Alþingi hefur ekki samþykkt sem slíka, mjög fjölmenna stofnun.

Ríkisútvarpið hefur sett stofnunina á stað og borið höfuðábyrgð á allri starfrækslu hennar án þess að Alþingi hafi nokkurn tíma samþykkt að það gerði slíkt. E.t.v. finnst mönnum að í þessu felist einhver ádeila á tónlist eða slíkt. Svo er ekki. Þetta er aðeins spurning um það, hvert sé valdsvið stofnana sem við erum að gera sjálfstæðar úti í þjóðfélaginu. Eiga þær stofnanir að halda sínum starfsvettvangi innan þess ramma, sem lög þeirra gera ráð fyrir, eða eiga þær að finna sér verkefni eftir áhugamálum forráðamanna?

Fyrir stuttu kom til umræðu hér á Alþingi að Seðlabanki Íslands hefur á að skipa bókhneigðum mönnum sem hafa komið sér upp þar miklu og myndarlegu safni. Ríkisútvarpið hefur á að skipa og hafði á að skipa mönnum sem höfðu mikinn áhuga á tónlist. Þeir komu sér upp sinfóníuhjómsveit. Má gera ráð fyrir því, að sjónvarpið komi sér upp kvikmyndaveri með 60–100 manna starfsliði allt árið um kring til að framleiða myndir í álíka gæðaflokki og Snorri Sturluson og leigi sér svo kvikmyndahús hér úti í bæ til að halda sýningar á þessum myndum? Með slíku tiltæki væri sjónvarpið alls ekki að feta neinar nýjar brautir. Það væri aðeins að feta þá slóð íslenskra embættismanna að gera það sem þeim sýnist án þess að þeir telji að þeir þurfi nein lög á bak við sig. Þeir þurfa fyrst og fremst, að því er virðist, að hafa það í lögum að þeim sé ekki nákvæmlega bannað að gera þetta.

Þetta hlýtur í sjálfu sér að leiða hugann að virðingu Alþingis og þeirri staðreynd, hvort lýðræðið, sem við tölum um á hátíðis- og tyllidögum, hafi verið að þróast yfir í embættismannavald og þetta embættismannavald sé að fjarlægja íslenskt þjóðfélag frá lýðræðinu. Ættum við e.t.v. að taka það upp að láta kjósa vissa stjórnendur stórra stofnana og láta þá standa ábyrga frammi fyrir þjóðinni með vissu millibili og gera grein fyrir gerðum sínum í stað þess að ráða þá til starfa ævilangt með klásúlum um að það megi nánast ekki víkja þeim úr starfi nema þeim hafi stórlega brotið lög?

Ég held a.m.k. að Alþingi Íslendinga þurfi að taka upp ný vinnubrögð. Ég held að það verði að gera sér grein fyrir því, að án eftirlits og virkara aðhalds út á við í þjóðfélaginu veldur það ekki því hlutverki sem því er ætlað.

Ég vil í beinu framhaldi af þessu geta þess, að ég lít svo á að Ríkisútvarpið, sem kom Sinfóníuhljómsveitinni á laggirnar, hafi einnig átt mestan þáttinn í því að ræna Sinfóníuhljómsveitina ærunni úti á landi, ræna hana gjörsamlega ærunni. Hvernig hefur verið farið að því? Jú, hún hefur verið látin flytja sína tónlist eftir tækniútbúnaði sem hefur verið alls ófær um að koma þessari tónlist til skila. Það leiðir svo aftur á móti hugann að því, hvort Ríkisútvarpið, sem fékk ákveðin verkefni og fékk einkaleyfi á ákveðinni þjónustu, hvort sú stofnun hefur sinnt því hlutverki eins og henni bar eða hvort stjórnendur stofnunarinnar hafa beint eða óbeint orðið til þess að færa fjármagn frá þeim verkefnum, sem þeim var ætlað að vinna, til verkefna sem þeir höfðu meiri áhuga á að sinna.

Ég ætla ekki að gera mörg atriði frv. að umræðuefni. Þó er það svo, að vegna fullyrðinga um að ríkið eitt eigi að eiga og reka Sinfóníuhljómsveitina get ég ekki varist því að leiða hugann að stefnu í menningarmálum. Er það rétt stefna í menningarmálum íslenska ríkisins að reka margar menningarstofnanir hér í höfuðborginni og segja svo við þá þegna sem greiða þennan kostnað og búa úti á landi: Þið eigið að koma í hópferðum hingað eða viðkomandi starfsfólk þessara stofnana á yfir sumartímann að fara í hálfgerðar lystireisur út á land til að koma menningunni á framfæri við sauðsvartan almúgann? (Gripið fram í.) Ég get vissulega tekið undir það í þessari stefnu, að ég tel að kannske sé einna mest þörf fyrir menninguna hér á þessu svæði, en vil þó ekki fara út í sérstakan meting á því sviði.

Hitt er aftur á móti spurning, hvort ekki væri rétt að standa þannig að þessum menningarmálum, að sveitarfélögunum væri gert kleift að gerast aðalrekstraraðili og ríkisvaldið kæmi til móts við hin ýmsu sveitarfélög á svipaðan hátt og það kemur til móts við skólana, greiðir vissan hluta af rekstrarkostnaðinum. Mér er ljóst að með því fyrirkomulagi mundum við trúlega hér í Reykjavík ekki eiga nema eitt borgarleikhús í sameign Reykjavíkurborgar og ríkisins, en þá gæti verið að við ættum líka norður á Akureyri, vestur á Ísafirði og á Austfjörðum leikhús sem væri starfrækt í sameiningu af ríkinu og sveitarfélögunum á þeim svæðum. Hið nákvæmlega sama mætti segja að væri eðlileg stefna í tónlistarlífinu.

Hér hefur verið nokkuð vikið að því, hvert hlutfall eigin tekna í gegnum sölu á aðgöngumiðum væri hið eðlilega eða hið æskilega fyrir hljómsveitina. Menn hafa verið að tala um að þetta sé, þurfi kannske að vera 10 eða 15%. Það hlýtur að vekja þá spurningu, hvort það sé yfirleitt réttlætanlegt að greiða með aðgöngumiðum um 90%. Ég vil halda því fram að hugsanlegt væri að standa þannig að þessu máli, að í staðinn fyrir að ríkið greiddi svona mikið með aðgöngumiðum tæki það upp þá stefnu að kaupa vissan fjölda aðgöngumiða á ári og gefa þeim þegnum þjóðfélagsins, sem e.t.v. hafa ekki minni áhuga á músík eða minni hæfileika á því sviði, en minna mega sín, kost á að sækja þessa hljómleika með því að afhenda miðana til hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu til skiptis. Það væri út af fyrir sig menningarstefna sem væri fyrir þjóðina alla, ekki fyrir einhverja útvalda.

Það er að lokum tvennt sem ég vil gera hér að umræðuefni.

Ég er í sjálfu sér alveg sammála því sjónarmiði hv. 6. þm. Norðurl. e., að á þeim tímum, þegar við erum að bollaleggja að svipta Ríkisútvarpið einkaleyfi á sviði sjónvarps og útvarps, sé útvarpinu full nauðsyn á að geta keppt á þessu sviði án þess að á það séu settar neinar sérstakar kvaðir, og þess vegna hef ég talið æskilegt að útvarpið væri ekki rekstraraðili. Ég mun aftur á móti ekki bera fram brtt. um slíkt, því að mér er ljóst að það er ekki grundvöllur fyrir því að koma málinu svo breyttu áfram.

Hitt atriðið er það, hvort eðlilegt sé að hafa tvöfalt stjórnunarkerfi á hljómsveitinni. Er það skynsamlegt að annars vegar skuli vera menn, sem beri ábyrgðina á fjármálum hljómsveitarinnar, og hins vegar menn, sem beri ábyrgð á hvaða verk séu tekin til flutnings.

Ég verð að segja eins og er, að ég hef dálítinn ótta af þessu. Ég hefði talið miklu æskilegra að leita eftir því að fá tónlistarmenn með fjármálavit og ábyrgð til þess að sitja í stjórn hljómsveitarinnar. Ég tel að þetta þýði að mörgu leyti að stjórnunarkerfið verði ákaflega veiki og hætt við því, að þeir, sem sjá um verkefnavalið, telji sig alfarið óbundna af því, að það hafi einhverja fjármunalega hagsæld í för með sér fyrir hljómsveitina. Það má vel vera að menn telji að það sé vonlaust að finna tónlistarmenn með fjármálalega þekkingu. Mér finnst það vantraust engu að síður á þann hóp manna ef menn telja að svo sé.

Ég held að okkur sé mikil nauðsyn að standa þannig að ráðstöfun jafnmikilla fjármuna og þarna fara í gegn, að stjórnkerfið beinlínis stuðli ekki að því að um hæpna nýtingu þess fjármagns sé að ræða. Ég vil hér lýsa efasemdum mínum hvað þetta snertir, þrátt fyrir það að vafalaust hafi þeir sem lögðu þetta til haft viss rök fyrir sínu máli.