02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. svaraði því til í fjölmiðlum, að hann hefði verið plataður í þessu máli. Hann er reyndar að reyna að klóra í bakkann núna eftir ræðu hæstv. viðskrh., en ég sé þó ekki að honum hafi tekist það á einn eða neinn hátt. Það er ekki gott þegar hæstv. ráðherrar eru plataðir, og það versta er þegar menn geta komist upp með það hvað eftir annað.

Hæstv. samgrh. sagði ekki alls fyrir löngu að kratar hefðu platað sig til að fallast á raunvaxtastefnuna. Það er reyndar furðulegt að hann skuli ekki hafa skipt um kúrs eftir að hafa verið við stjórnvölinn á þjóðarskútunni í nokkur ár síðan. Það bendir ekki til að sá kúrs hafi verið mjög slæmur.

Það er slæmt, eins og ég sagði, að menn skuli geta komist upp með að plata ráðh. hvað eftir annað. Ef menn leysa út nokkur hundruð króna ávísanir er gjarnan spurt um skilríki. En ef menn kaupa skip til landsins á fölskum forsendum, koma annars vegar með nafn á skipi, sem er sokkið og greitt af tryggingarfélagi fyrir alllöngu, og hins vegar með nafn á skipi sem Úreldingarsjóður og Aldurslagasjóður eru búnir að greiða, gerir enginn neitt þó að þetta reynist meira og minna falski. Það er auðvitað rétt, sem kom fram hjá hv. 1. landsk. þm., að það nær auðvitað engri átt að hægt sé að kaupa ný skip endalaust út á skip sem Úreldingarsjóður er búinn að greiða, því að í hann koma peningar frá útgerðarmönnum og sjómönnum og hann er annars vegar til að hjálpa mönnum að leggja ónýtum skipum og hins vegar til að draga úr stærð flotans.

Einhvern tíma sagði hæstv. ráðh. líka að Flugleiðir hefðu platað hann, ef ég man rétt. Ísleifsútgerðin í Vestmannaeyjum plataði líka hæstv. ráðh. — eða kannske það hafi verið flokksbróðir hans, Björgvin Jónsson, sem plataði hann í því máli. Ísleifsútgerðin keypti ekki alls fyrir löngu í gegnum Björgvin Jónsson nýlegt 430 tonna skip frá Færeyjum, en átti í staðinn að flytja út 240 tonna bát, ágætisbát í góðu standi. Báturinn fór þó aldrei úr landi eins og tilskilið var. Það var Björgvin Jónsson, flokksbróðir hæstv. ráðh., sem sá um kaupin. Hann keypti gamla bátinn. Hvernig fór hann svo að því að uppfylla þau skilyrði að annað skip færi úr landi? Hann kaupir Sporð. Ég veit reyndar ekki hvort hann keypti hann, en telur sig að forminu til hafa eignast hann eftir að Aldurslagasjóður er búinn að greiða hann, eftir að Úreldingarsjóður er búinn að greiða hann. Það er nú verið að rífa þennan sama Sporð í Hafnarfirði, rífa hann í brotajárn, ef ég þekki rétt. Til að kóróna allt saman kemur þriðji flokksbróðirinn inn í spilið, hæstv. viðskrh., og leyfir Björgvin að taka erlent lán til að kaupa bátinn frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar.

Síðan hefur eitt skemmtilegt mál komið hér upp og það er varðandi skipið sem Sjólastöðin í Hafnarfirði keypti. Hún hafði leyfi til að kaupa bát, en kaupir togara og til að kippa því í liðinn var bara klippt framan af skipinu. Þar með var öllu réttlæti fullnægt og allir kátir og ánægðir. Ekki vildi ég vera því skipi stímandi á móti í vondu veðri og miklum sjógangi. Auk þess er skipið herfilega ljótt eins og það er núna og stingur hrottalega í augun. Áður var talað um Færeyjalag á skipi og Breiðafjarðarlag og hitt og þetta lag, og allir vissu við hvað væri átt, en nú er farið hér á hinu háa Alþingi að tala um framsóknarlag, og trúi ég að það muni festast við svona skip.

Nokkrir hv. þm. framsóknarmanna hafa lagt fram þáltill. um að lag á skipsskrokkum skuli kannað, kannað hvaða lag sé best til að spara eldsneytið sem mest. Það get ég sagt þessum hv. þm., að það lag að vera með stefnið þversum, framsóknarlagið er áreiðanlega ekki best upp á það að spara olíu.

Afkoma sjómanna og útgerðarmanna og reyndar þjóðarinnar allrar þolir ekki svona ævintýramennsku í sjávarútvegsmálum. Það er mál að linni.

Hæstv. ráðh. talaði um að hann vildi stuðla að innlendri skipasmíði. Hann stuðlar aldrei að innlendri skipasmíði með því að hleypa niðurgreiddum skipum inn í landið í stórum stíl og ryðguðum kálfum fyrir tombóluprís. Hann stuðlar aldrei að innlendri skipasmíði með því. Hann gengur af innlendu skipasmíðinni dauðri.

Hann talar mikið um svipaðan sóknarþunga, réttlætir, að tveir bátar séu teknir út á móti togara, og talar um svipaðan sóknarþunga. Hæstv. ráðh. virðist ekki gera sér grein fyrir að sóknarþungi skipa vex mjög ört, sömu skipanna, vegna breyttra og bættra veiðarfæra, t.d. kraftaverkaneta svokallaðra sem komu fyrir nokkrum árum. Sömu skip veiða miklu meira en áður var. Sama er að segja um siglingatæki og fiskleitartæki. Þau eru orðin svo fullkomin og eru að verða svo fullkomin að það er næstum því hægt að finna hvern einasta fisk í sjónum.

Ráðh. getur ekki endalaust sagt að þeir hafi verið plataðir því að það er greinilegt að þeir vil ja láta plata sig í þessum málum. Þá er spurningin: Höfum við efni á að hafa slíka ráðh. sem alltaf eru að láta plata sig?