02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3600 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

257. mál, málefni aldraðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur upplýst það, að í 27. gr., þar sem talað er um heimaþjónustu, sé átt við heimilisþjónustu. Það er mjög gott að fá þetta upplýst í þessari umr. Eins og þetta er fram sett í frv. er mitt álit að það sé mjög villandi vegna þess að í 15. gr. er skilgreint hvað sé heimaþjónusta og þar er bæði talað um heimahjúkrun og heimilisþjónustu. Ég tel að til þess að fyrirbyggja allan misskilning í framkvæmd þessa ákvæðis sé mjög nauðsynlegt að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, breyti þessu orði, sem stendur þarna, „heimaþjónusta,“ og í stað komi þá einfaldlega „heimilisþjónusta“ og skilgreint hvað það er samkv. 15. gr. Þetta mun ég leggja mikla áherslu á að nái fram að ganga til þess að fyrirbyggja, eins og ég segi, allan misskilning í framkvæmd á þessu ákvæði.