04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þórbergur Þórðarson skrifar á einum stað og segir frá því, að hann hafi étið sig út á guð og gaddinn. Þar kom að húsbóndinn kom að máli við hann og mælti þessi orð: „Þetta getur ekki gengið svona lengur.“ Þá hafði Þórbergur um alllanga hríð reynt að gera sig ósýnilegan í húsakynnunum í Bergshúsi, hann hafði stiklað upp og ofan stigann svo að ekki yrði eftir honum tekið og reynt að gera sem minnst úr sér. Rétt áður hafði hann bjargast við það að Gísli Sveinsson útvegaði honum bankalán. Hann kallaði það bankavorið mikla. En húsbóndinn kom samt að máli við hann og sagði þessi örlagaríku orð, sem hann taldi einhverja harkalegustu viðvörun sem hann hefði orðið fyrir um lífsdaga sína, hvað þá á örbirgðardögum hans eins og þeir voru þá. Það er komið að því, að yfirboðari og húsbóndi hæstv. ríkisstj. taki sig til og segi við hæstv. ríkisstj.: Þetta getur ekki gengið svona lengur. — Þjóðin sjálf þarf að reyna að opna augu hæstv. ríkisstj. fyrir því ástandi sem nú blasir við og fer dagversnandi í atvinnumálum þjóðarinnar.

Við höfum hlýtt á það að undanförnu, að hæstv. forsrh. hefur lýst viðhorfunum í stefnuræðu sinni. Ég var þar við sem hann varði í líf og blóð stefnu ríkisstj. og málaði ástandið í þeim litum sem eru allt annars eðlis en þeir sem raunverulega ættu að blasa við. Við heyrum umr. um fjármál, fjárlagaumr., og allt er þetta á sömu bókina lært. Hæstv. ríkisstj. reynir að gera sig ósýnilega, reynir að halda áfram að slá ryki í augu þjóðarinnar, heldur áfram að vefa þann blekkingavef sem hún hefur ofið frá upphafi ferils síns, enda til hennar stofnað með undirferli. Það er hart að verða að segja það, en ég játa það hreinskilnislega, að ég hef fundið til þess í hvert einasta skipti sem hæstv. ríkisstj., einstakir hæstv. ráðh. hafa tekið til máls um vandamál okkar, þá hef ég ekki getað betur séð en þeir hafi farið langt til hliðar við staðreyndir og sannleika mála. Í öllum yfirlýsingum, sem út hafa gengið frá forsrn. til að mynda, hef ég ekki getað betur séð en að allt væri vafið inn í blekkingavef. Og ég verð að segja það, að það vekur mér ótta þegar ég heyri og sé hæstv. forsrh. halda því fram, að hér sé allt blúndulagt, allt sé í besta gengi, allt horfi til rétts vegar, að ríkisstj. hafi náð stórkostlegum árangri í atferli sínu, að framkvæmd stefnu ríkisstj. horfi til þess að nú eigum við betri tíma í vændum fram undan. Ég get ekki sagt annað, ég verð að játa það hreinskilnislega, að það vekur mér ótta. Ég hélt að sá blekkingavefur, sem ofinn er, væri ofinn af ráðnum hug og menn vissu betur. En sannfæringin, sem fylgir þessu tali og maður hefur orðið vitni að nú hina síðustu daga sem aldrei fyrr, hún vekur manni ótta um að þeim hafi tekist að blekkja sjálfa sig, að þeir haldi þetta sem þeir reyna að telja mönnum trú um, að þeir séu orðnir sannfærðir um að með þessum hætti sé málum okkar komið.

Eitt hólsefnið er m. a. það, að hér sé ekkert atvinnuleysi. Víst er það svo, að meginmál og höfuðkeppikefli hlýtur það að vera á hverjum tíma að full atvinna haldist. Ekkert er verra en að atvinnuleysi bresti á — ekkert er verra og hörmulegra. Og vissulega hefur full atvinna verið að kalla má, með fáum árstíðabundnum, svæðisbundnum undantekningum.

En hvað blasir við núna? Ég er ekki í aðstöðu til þess að nefna einstök dæmi, nema örfá sem hvort sem er hafa verið í fjölmiðlum og fyrirsvarsmenn fyrirtækja upplýst sjálfviljugir. En hvað er það t. a. m. sem brostið er á? Hvað er það t. d. sem hefur komið á daginn í Keflavík? Hvað skyldi það merkja þegar fyrirtæki eins og Hraðfrystihús Keflavíkur stöðvast? Þar njóta 150 manns vinnu. Hvað þýðir það? Er ofætlað að það fólk hafi á framfæri sínu 500–600 manns? Þetta er á þeim stað einum.

Bíldudalur upplýsir hvernig komið er þar og ég veit að er satt. Fiskvinnslan er þar allur burðarásinn, öll lífæðin. 350 manna þorp á allt sitt undir að þau atvinnuhjól snúist.

Hvernig er komið á Patreksfirði, þar sem annað af tveimur fiskiðjuverum hefur stöðvast og togari verið seldur burt til Suðurnesja? Hvað skyldi vera þar í boði? Hvað segja Skagfirðingar þar sem þrjú fiskiðjuver eru starfandi? Hver er þeirra vitnisburður? Ekkert af þeim hefur efni á að kaupa fisk af togurunum — eða eigum við heldur að segja að togarafélagið hafi ekki efni á að selja þeim fisk? Hvort heldur kjósa menn, nema hvort tveggja sé? Skipin sigla til útlanda með aflann. Og þær tölur, sem þarna eru á ferðinni, fjárhagsvandinn er með ólíkindum stór og miklu stærri en menn hafði órað fyrir jafnvel fyrir örskammri hríð.

Þó töldu menn sig sjá það fyrir, að miðað við þau vaxtakjör, sem útvegur, útgerð og fiskvinnsla, býr við, hlyti til þessa að draga. Og fyrir því var það líka að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins samþykkti á fundi sínum 1. apríl 1980 áskorun til hæstv. ríkisstj. um að úttekt færi fram á stöðu útgerðarinnar. Það er nýkomin skýrsla um þá stöðu, að vísu ekki nema úrtak 19 togara af nýrri gerð. Ég hef enga heimild til að vitna í þá skýrslu, en ég skora á hæstv, sjútvrh. að upplýsa allan þingheim um hvað hún inniheldur því að það er hrollvekja frá upphafi til enda. Ég minnist þess, að þegar vaxtamál voru til umr. hér á hinu háa Alþingi á sinni tíð lagði ég leið mína tvisvar í þennan ræðustól til þess að varpa fram þeirri fsp., með hvaða hætti útgerð og fiskvinnsla í landinu ættu að rísa undir þeim vaxtakjörum. Ég fullyrti að ég væri svo kunnugur þeim atvinnugreinum að það væri fyrirsjáanlegt, að þau gætu ekki með neinu móti risið undir þeim vaxtakjörum, sem menn voru þá að vinna að að sett yrðu á í þessu þjóðfélagi. Ég fékk auðvitað engin svör. Það var bara maður og maður, eins og hv. núv. 9. þm. Reykv., sem skrapp í stólinn til þess að benda á þennan útgerðarmann og segja frá því, að hann hlyti að tala svona vegna þess að hann vildi halda áfram að hafa með höndum sparifé almennings fyrir ekki neitt til þess að græða á því, braska með það. Önnur svör gáfust ekki. Og þetta var auðvitað túlkað á þann veg, að ég væri andstæður því sem menn kalla raunvexti, að sparifjáreigendur ættu að fá nægjanlega vexti af fé sínu til þess að það brynni ekki upp í óðaverðbólgunni.

Ég fer eindregið fram á það, að hæstv. sjútvrh. leggi þessa skýrslu, sem fyrir liggur um stöðu 19 togara hinna nýrri, fram á hinu háa Alþingi svo að menn fái að líta á það dæmi. Og ég fer eindregið fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún upplýsi það sem þegar er vitað um stöðu fiskiðnaðar í landinu og sjávarútvegs. Það eru fleiri þættir sem koma við sögu í þessu máli en einvörðungu þessi fyrirtæki. Það eru miklu fleiri þættir sem nú blasir við að þurfi að ræða í samhengi við það, svo sem að allir samningar á vinnumarkaðinum eru lausir. Ég veit ekki hvort það er hrósvert þegar menn setja sig nú í þær stellingar að hæla verkalýðnum fyrir að hann setji fram hógværar kaupkröfur og kjarakröfur miðað við stöðu atvinnuveganna. Ég get ekki kallað það hrósvert, því að þeir eru í engum færum um það að óbreyttu að rísa undir einu eða neinu sem má verða til kauphækkunar eða kjarabóta fyrir verkalýðinn í landinu, þó svo við vitum að staðreynd er að kaupmáttur hefur farið rýrnandi.

Það er óhjákvæmilegt að hið háa Alþingi ræði þessi mál af hreinskilni. Ég nenni ekki að standa hér lengi uppi til þess að skamma hæstv. ríkisstj. vegna þessara mála. Okkur liggur miklu meira á en svo, að við megum verja tíma okkar í það. En við verðum að fá staðreyndirnar á borðið og við verðum að hætta að tala um þetta eins og ekkert sé að, ella munum við ekki taka á þessum vandamálum. Og mér er nær að halda að háskinn sé svo mikill að nú veiti stjórnarliðinu ekki af að reyna að fá stjórnarandstöðuna til fylgis við sig, að taka höndum saman um að snúast gegn þessum háskalega vanda.

Ég beini því til hæstv. ríkisstj., að stjórnarandstöðunni verði gefinn kostur á því að leggja þessum málum lið til lausnar. Við megum engan tíma missa. Hringinn í kringum landið eru fyrirtæki við það að stöðvast, og ef almenn stöðvun brestur á verður enn þá flóknara og erfiðara að setja atvinnuhjólin af stað á nýjan leik. Ástandið er ekki að mínum dómi með öðrum hætti nú en ég reyni að lýsa því. Umfram allt verðum við að horfast í augu við staðreyndir, það er okkur alger lífsnauðsyn, en ekki að hið háa Alþingi þurfi að sitja undir því, að sjálfir stjórnarherrarnir haldi áfram að vefa blekkingarvef sinn um að hér sé allt blómberanlegt, að ég tali nú ekki um það, að ekkert sé aðhafst í því að skjóta framtíðarstoðum undir atvinnureksturinn í landinu, eins og hæstv. iðnrh., hinn lýðræðissinnaði sósíalisti, hefur látið undir höfuð leggjast, því að það er víðar pottur brotinn heldur en í fiskiðnaði, sjávarútvegi og útgerðarmálum.

Iðnaðurinn í landinu, svo að maður nefni ullariðnaðinn, berst í bökkum. Ég get upplýst það, að fyrirtækið Álafoss — það hefur víst komið hér til umr. nú á dögunum, ég var því miður ekki við þá umr. — tapaði 11.8 millj. á fyrstu sex mánuðum þessa árs — það hét fyrir síðustu aramót 1180 millj., 1 milljarður 180 millj. kr. — og fram til 1. sept. hefur þetta fyrirtæki tapað 1 millj. 524 þús. kr., sem áður hét meira en 1.5 milljarðar kr. Og m. a. hefur dregið úr tapinu vegna þess, að öllum saumastofum og prjónastofum í landinu hefur verið gert að lækka vinnu sína um 10%, þrátt fyrir að þessi iðnaður væri rekinn með tapi áður en til þeirra ráða var gripið.

Það eru fleiri þættir sem þyrfti að ræða sérstaklega, eins og t. a. m. það ástand sem nú blasir við hinum mikla loðnuflota, hinum dýru skipum sem við höfum keypt og byggt á umliðnum árum. En það er gersamlega þýðingarlaust að ætla að til neinna bjargráða verði gripið ef á að halda áfram, eins og gert hefur verið stanslaust frá stofnun þessarar ríkisstj., að halda því að mönnum og þjóðinni allri, að hér séu menn að ná tökum á viðfangsefninu. Hvað ætli þeir segi um það á Raufarhöfn norður, hjá fyrirtækinu Jökli — og það er eina lífæðin þeirra þar? Hún liggur öll úti í sjó. Menn hafa verið að fást við að koma atvinnuhjólunum í gang þar aftur. Hvernig tókst til með það? Ráðherranefnd fjögurra ráðh. í samráði við viðskiptabanka og Framkvæmdastofnunina gerði tilraun. Viðskiptabankinn fékk því vissulega ráðið, að það var aðeins stigið hálft skrefið. Á að halda áfram slíkum vinnubrögðum? Hljóta ekki allar máttarstoðir þjóðfélagsins, viðskiptabankar, sjóðir og aðrir, sem tök hafa á að sameina kraftana til að vinna bug á þessu, að reyna að hindra þennan ófarnað, að hann nái fram að ganga? En það verður auðvitað ekki gert með því að halda stanslaust stórræður um að hér sé allt á besta vegi statt, að hér sé verðbólgan minnkandi þrátt fyrir skuldasöfnunina innanlands og utan.

Það er beinn og ber háski á ferðinni og ég endurtek það, að ég legg til að vegna þessa bráða háska bjóði stjórnarandstaðan nú fram krafta sína til að aðstoða við að ráða á þessu bót, að við reynum allir saman á hinu háa Alþingi að sameina kraftana úr því svo er komið sem raun ber vitni.