06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3654 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

365. mál, ný langbylgjustöð

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni fyrir að hafa borið fram þessa fsp. og vakið athygli á því ófremdarástandi sem ríkt hefur um langan tíma að því er varðar langbylgjusendi Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að hann muni gera tillögur um að á næsta ári verði hafist handa um framkvæmdir við nýja langbylgjustöð, og sömuleiðis þeirri yfirlýsingu hans, að það sé ekki mál Ríkisútvarpsins eins að fjármagna byggingu slíkrar stöðvar, sem er býsna kostnaðarsamt fyrirtæki eins og kom fram í máli ráðh., því að vissulega er hér um öryggistæki að ræða.

Það gengur satt best að segja kraftaverki næst að möstrin á Vatnsendahæð skuli enn standa uppi. Þær lýsingar, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vitnaði til áðan, eru áreiðanlega ekki orðum auknar og hefur raunar verið vitnað til þeirra fyrr í umr. hér í Sþ. þegar þessi mál hefur borið á góma. Samkv. áætlunum verkfræðinga breska ríkisútvarpsins, BBC, er áætlað að meðalaldur, meðallíftími, slíkra loftnetsmastra sé um 30 ár. Möstrin á Vatnsendahæð eru 50 ára gömul. Þarna er brýnt, að hafist verði handa og ný langbylgjustöð reist, vegna þess öryggis sem slíkt hefur í för með sér.