16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3849 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

212. mál, landgræðsla

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um breytingu á lögum nr. 17/1965, um landgræðslu, var lagt fyrir hv. Ed. og hefur hlotið afgreiðslu þar og afgreiddi deildin frv. eins og það var lagt fram. Frv. er samið af nefnd sem skipuð var á s.l. vori til að fjalla um tillögur um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun sem nú hefur hlotið afgreiðslu hv. Alþingis. Í þessari nefnd áttu sæti fulltrúar þingflokkanna og ráðuneytisstjórinn í landbrn., sem var formaður nefndarinnar. Nefndin komst að þeirri niðurstóðu, að ákjósanlegt væri að breyta lögum um landgræðslu svo sem lagt er til með þessu frv.

Þær breytingar, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að gróðurverndarnefndir starfi í öllum kaupstöðum sem og í sýslum landsins. Til þessa hafa gróðurverndarnefndir aðeins starfað í sýslum landsins. Í öðru lagi er tekið upp það nýmæli, að ef ástandi gróðurs er svo háttað að mati gróðureftirlits Landgræðslu ríkisins geti landbrn., að höfðu samráði við þá sveitarstjórn, sem hlut á að máli, ákveðið tímabundna takmörkun á beitarálagi á tilteknu landssvæði þar til fullnægjandi gróðurverndaraðgerðir hafa verið gerðar eða ítala er komin til framkvæmda. Þessi ákvæði eiga við bæði að því er varðar afréttarlönd og eins varðandi beitilönd í byggð, en svo er komið að sums staðar eru beitilönd eða bithagar í lágsveitum illa komnir af miklu beitarálagi, einkum í grennd þéttbýlis. Þessi ákvæði, sem hér er lagt til að lögfest verði, gera því mögulegt að grípa til skjótra aðgerða til að vernda gróðurlendi þar sem svo háttar til, ef aðrar aðgerðir, sem kosta meiri undirbúning og tíma, hafa ekki verið undirbúnar í tæka tíð.

Þetta eru þær meginbreytingar sem í þessu frv. felast. Frv. er einfalt og ég sé ekki ástæðu til að fjalla um það í lengra máli. Ég vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að afgreiða það áður en þingi lýkur.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.