16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3879 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

262. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Austurl. í framsögu hans fyrir nál. um það mál sem hér er á dagskrá er það rétt, að ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins í nefndinni. Það var einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir og þær tillögur, sem komu fram á þessu þingi umfram það sem fram hefur komið í öðrum umr. á fyrri þingum sem ég hef setið, gera slíkar kröfur til fjárframlaga frá íslenska ríkinu að augljóst er að við eigum ekki peninga til að taka þátt í þessu alþjóðasamstarfi að því marki sem hér er lagt til. Af þeim ástæðum einum lagði ég til í nefndinni og legg til hér að Ísland auki ekki hlutafé sitt í þessum alþjóðasamtökum sem Alþjóðabankinn er.

Hvað stöðu Íslands snertir breytir það engu hvort Ísland á 1% eða brot af prósenti eða eiginlega hvaða prósenta það er sem Ísland á í Alþjóðabankanum. Ísland hefur ekkert meiri aðgang að Alþjóðabankanum en nú með hlutafjáreign sinni í bankanum. Ég get ekki séð að við séum aflögufærir. Ef hér kæmi aftur á móti fram till. um að þjóðin tæki á sig auknar kröfur, jafnvel aukin erlend lán til að hlaupa beint undir bagga með þjóðum eða fólki sem er í neyð, þá mundi ég að sjálfsögðu samþykkja það. En hér erum við að þykjast vera stærri en við erum, þykjast hafa efni á að gera meira en við raunverulega höfum efni á, því ég býst við að miðað við lánsfjáráætlun, sem nú liggur fyrir, — þurfum við að að taka lán til að vera með í þessu kapphlaupi um hlutafjáreign í Alþjóðabankanum. Ég legg því til að þetta frv. verði ekki samþykkt.