05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Gagnstætt því, sem haldið var fram áðan af hæstv. samgrh., eru þau mál, sem hér hefur verið fjallað um af þeim ræðumönnum sem tekið hafa til máls, af sömu rót. Rótin er sú, að á sínum tíma samþykkti hv. Alþingi í þáltill., sem samþykkt var 1974, að jafna skyldi símkostnað landsmanna. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í þeim efnum. Ein leiðin er sú sem hv. fyrirspyrjandi spurðist fyrir um, „frínúmerin“. Sú leið er nefnd í lögum — ég legg áherslu á það — hún er nefnd í lögum um þessi mál. Og það er nú fyrst sem hæstv. ríkisstj. vinnur að því máli, sem auðvitað er stórkostlegt hagsmunamál, sérstaklega fólksins sem er utan þess símsvæðis sem Alþingi starfar á.

Hitt málið, sem minnst var á, er jafnframt mál sem snertir það, hvernig jafna skuli símkostnað, og er af nákvæmlega sömu rót. Það er furðulegt að hæstv. ráðh. skuli, eftir það sem á undan hefur gengið og án samráðs við þm. Reykv. — ég held því fram að ekki hafi verið um nein samráð þar að ræða þrátt fyrir að um það væri beðið — hafa látið skrefatalninguna ná fram að ganga um s. l. mánaðamót, enda þótt hægt væri að fara aðrar leiðir. Hæstv. ráðh. hefur haldið því fram aftur og aftur, að þetta sé eina leiðin sem hægt sé að fara, en það er rangt. Póst- og símamálastjóri hefur viðurkennt að hægt sé að fara aðra leið, t. d. að hækka umframgjöldin og nota þá peninga, sem þannig fást, til að lækka langlínusamtölin, en út á það gengur þetta mál.

Ég tel þess vegna að það sé út í bláinn þegar hæstv. ráðh. kemur hér í ræðustól og segist vilja tala um skrefatalningarmálin við annað tækifæri. Hann hefur komið skrefatalningunni á. Hæstv. ráðh. vill ekki bera það undir neytendur Pósts og síma, hvora leiðina á að fara, af einhverjum einkennilegum ástæðum. Mér finnst fyllilega vera ástæða til þess hér í upphafi nóvembermánaðar, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum, jafnvel þótt ekki sé verið að ræða um nákvæmlega sama mál.