19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3940 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

168. mál, dýralæknar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er aðeins af einu tilefni sem ég hef ákveðið að taka þátt í þessari umr. Það snertir ekki efnishliðar málsins, heldur það að inn í þessar umr. hafa blandast hugmyndir manna um svokallaða „sólarlagsaðferð“ sem heitir á enskri tungu „sunset legislation“ og er alþekkt fyrirbrigði í löggjöf annarra þjóða, sérstaklega þó vestan hafs, þar sem þessi aðferð hefur verið notuð með góðum árangri í baráttunni gegn útþenslu ríkisbáknsins. Oftast er þessi leið valin þar sem um er að ræða nýjungar til tilraunar, t.d. þar sem markaðurinn getur hugsanlega tekið við þeirri þjónustu síðar og þess vegna eðlilegt að lög falli niður, en einnig við mjög fjármagnsfrek verkefni sem ríkisvaldið efnir til á hverjum tíma.

Hæstv. núv. ríkisstjórn Íslands hefur markað þá stefnu og orðið fyrsta ríkisstjórn á Íslandi sem ég veit um að hefur notað þessa aðferð í löggjöf sem samþykkt var í vetur. Það var kaldhæðni örlaganna að sú löggjöf var samþykkt í kjölfar umr:, sem áttu sér stað í Sþ. utan dagskrár, þar sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem sumir kalla mister Ó. Grímsson, flutti mikla drápu og taldi að menn hefðu verið heilaþvegnir í herskipum bandaríska flotans, sem m.a. hefði birst í því, að sumir hefðu vogað sér að koma inn í þetta hús hv. Alþingis og tala um „sólarlagsaðferðina.“ Þjóðviljinn, málgagn hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, mátti vart vatni halda og á forsíðu blaðsins var þetta tekið sem dæmi um þann undirlægjuhátt sem lýsti sér hjá hv. þm., þ. á m. þeim sem hér stendur, Eiði Guðnasyni og fleiri slíkum. En viti menn, það liðu ekki nema tveir sólarhringar, þá kom inn á borð þm. frv. til l., sem er 66. mál þingsins, um iðnráðgjafa, og í þessu frv., sem nú er orðið að lögum, lögum frá 17. des. 1981, segir svo í 5. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda til 31. des. 1985.“ Hér, þvert ofan í fullyrðingar formanns þingflokks Alþb. um amerískan hugsunarhátt og undirlægjuhátt nokkurra þm., reið hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson á vaðið og kom inn í þingið með frv. sem hafði að geyma það sem kallað er „sólarlagsaðferð“ í daglegu mæltu máli.

Þetta taldi ég ástæðu til að kæmi fram í þessum umr. þar sem frá þessu hefur verið sagt. Um það, hvort það eigi við í þessari löggjöf eða ekki, skal ég ekki dæma. Ég hef ekki kynnt mér þá löggjöf, sem hér er til meðferðar, nema aðeins þær breytingar sem á henni voru gerðar. En það er auðvitað áhorfsmál, þegar ætlast er til að Alþingi endursamþykki gömul lög, hvort það eigi að gerast með þeim hætti, sem hér er lagt til, eða hvort menn vilja áskilja sér að breyta lögunum miklu meira en gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umr. Af þessari ástæðu held ég að það sé ekki út í bláinn að tveir hv. þm„ þeir Vilmundur Gylfason og Albert Guðmundsson, hafa leyft sér, sérstaklega vegna þeirrar gagnrýni sem kom fram á þetta frv., bæði frá heilbrmrn. og eins frá hv. stjórnarþm., þ. á m. hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að álykta sem svo, að kannske væri ástæða til að yfirfara þessa löggjöf á næstu árum og koma með hana með nýju sniði inn á þingið, ekki síst vegna þess að nú er boðið upp á með þessu frv. að lögin séu tekin öll til endurskoðunar.

Þetta vildi ég láta koma fram. Það snertir reyndar ekki efnishlið málsins, en mikið áhugamál mitt, sem er það sem kallað er „sólarlagsaðferð“.