19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3948 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

168. mál, dýralæknar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í lok 2. umr. um þetta frv. var gengið til atkv. um brtt. frá tveimur hv. þm. í þessari deild, hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og hv. þm. Albert Guðmundssyni, þess efnis, að umrædd lög skyldu falla úr gildi 1. jan. 1984. Vakti fyrir þeim þm. sú eðlilega ósk, að mál þetta, eins og það er í pottinn búið, yrði tekið til nánari skoðunar í ljósi reynslunnar fljótlega eftir að það hefur verið lögfest og sú endurskoðun látin fara fram á lögunum fyrir 1. jan. 1984. Hæstv. félmrh. lýsti því þá yfir í ræðu, að hann teldi eðlilegt að nálgast sama markmið með þeim hætti, að í staðinn fyrir að lögin féllu úr gildi á tilteknum tíma yrði ákvæði sett í lögin þess efnis, að þau skyldi endurskoða fyrir tiltekinn tíma, sem auðvitað þýðir það sama þó svo að e.t.v. sé skynsamlegra að orða það eins og hæstv. félmrh. lagði til.

Vegna þess að ég er sammála bæði hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og Albert Guðmundssyni um brtt. þá sem þeir fluttu við 2. umr., en þá var felld, og einnig vegna þess að ég get fallist á till. hæstv. félmrh., leyfi ég mér að flytja skriflega brtt. við frv. þetta þess efnis, að aftan við 20. gr. frv. bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóði svo: „Lög þessi skal endurskoða fyrir 1. jan. 1985“ — og gefa þar með einu ári lengri skoðunarfrest en fólst í till. þeirra hv. þm. sem ég nefndi áðan. Þannig vil ég ganga nokkuð til móts við þá sem hafa talið að það sólsetur rynni nokkuð fljótt upp miðað við gildistíma laganna.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þessari skrifl. brtt. verði lýst og afbrigða leitað svo að hún megi komast til umr. og afgreiðslu.