19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

216. mál, ábúðarlög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég var annar flm. að þeirri till. ásamt Magnúsi H. Magnússyni, að við 2. mgr. 2. gr. laganna bættist svohljóðandi ákvæði: „Jarðanefnd getur einnig undanþegið félög launþega og vinnuveitenda byggingarskyldu á jörð, ef jörðin er vel fallin til útilífsafnota og orlofsheimili félagsmanna eru þar starfrækt eða áformuð.“

Ég felldi mig mjög vel við þegar ég sá till. á þskj. 527 frá meiri hl. landbn., frá öllum landbn.-mönnum nema einum sem skilaði séráliti, og ég fæ á engan hátt skilið að það sé verið að ganga á gert samkomulag milli ríkisstj. og þeirra aðila launþega sem hér er fjallað um.

Í grg. fyrir frv. segir: „Í lögum nr. 64 frá 1976 er slakað til muna á hinum ströngu byggingarskylduákvæðum, þar sem jarðanefndum er heimilað að undanþiggja jarðareiganda byggingarskyldu á jörð sinni, ef hún er að mati nefndarinnar svo kostarýr til búskapar eða þannig í sveit sett að nefndin telur ekki fært að hafa búskap þar að aðalatvinnu.“

Í 1. gr. þessa frv. segir: „Jarðanefnd getur einnig undanþegið stéttarfélög byggingarskyldu á jörð, ef jörðin er vel fallin til útilífsafnota og orlofsheimili félagsmanna eru þar starfrækt eða áformuð.“ Ég get ekki skilið það, þó að þessi grein sé rýmkuð, að verið sé að ganga á þann samning sem áður hefur verið gerður. Ég get ekki séð annað en það sé meiri hl. landbn. sem hefur snúið við blaðinu, hafi látið hringla með sig, að það sé hægt að taka þessa þm. og hringla með þá eins og hvert annað leikfang. Ég get ekki skilið annað en þeir hafi verið búnir að leggja niður fyrir sér, hvað þeir teldu rétt að gera. En hvað kemur svo til? Það er bara kippt í spotta. Það eru þeir, sem eru að semja frumvörp, sem geta bara tekið í þm. og hrist þá til og sagt: Þetta skulu þið gera og annað ekki. — Og þetta láta þeir hafa sig til að gera, ákveðnir menn í nefndinni. Ég sé ekki að það sé eftir mikið ris á þessum hv. þm. Þeir eru eins og hvert annað leikfang sem menn geta leikið sér að. Skoðanir skipta engu máli. Þeir höfðu skoðun á þessu máli og settu hana á blað og báru hér fram till. eins og menn. En nú koma þeir fram hér hver á fætur öðrum eins og hverjir aðrir aumingjar.