20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Örstutt um hvað hæstv. flugmálaráðherra hefur sagt orðrétt og hvers vegna spurt var hér fyrst. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég vildi gjarnan leggja hér fram þáltill. um stefnuna í flugmálum. Ég gæti gert það á morgun. Ég er búinn að lýsa henni hvað eftir annað í ræðu.“

Þetta er í dálki 3034 í Alþingistíðindum frá því í vetur. „Ég vildi gjarnan leggja hér fram þáltill. um stefnuna í flugmálum.“ Áðan sagði hæstv. ráðh.: Ég gæti ef ég vildi, en ég sé ekki ástæðu til þess.

Það getur vel verið að ég sé ekki mjög vel að mér í íslensku máli, en ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, að hæstv. ráðh. hafi sagt að hann vildi gjarnan — það er hægt að skilja það eftir orðanna hljóðan — leggja fram stefnuna í flugmálum í þáltill. Eftir því var beðið. Hún sá ekki dagsins ljós. En nú segir hæstv. ráðh.: Ég gæti ef ég vildi, en ég sé ekki ástæðu til.

Fleira var það ekki, forseti.