20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

241. mál, Kortabók Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Mér er talsvert mikil ánægja að því að geta nú farið að svara þessari fsp. sem búin er að liggja hér nokkuð lengi og einhvern veginn hefur ekki komist að fyrr en núna. Ég vil strax í upphafi minnast þess með sama hætti og hv. fyrirspyrjandi, að ég var flm. með honum að þeirri till. sem hér um ræðir. En ég vil þá svara fsp. og gera grein fyrir þessu máli.

Eins og fram hefur komið í ræðu hv. fyrirspyrjanda samþykkti Alþingi vorið 1979 þál. þar sem segir að ríkisstj. sé falið að hafa forgöngu um útgáfu kortabókar Íslands. Það fer ekki milli mála, að útgáfa kortabókar af þessu tagi er býsna mikilvægt verkefni. Af kortabók er hægt að hafa fjölþætt gagn. Á það er gjarnan bent, að kortabók hafi almennt fræðslu- og menntunargildi og komi því að sérstöku gagni í skólakerfinu. Þetta er rétt ábending, en þó með þeim fyrirvara, að kortabók Íslands í því formi, sem hér um ræðir, er engin námsbók í venjulegum skilningi sem skólafólk kaupir til þess að hafa í skólatöskunni sinni.

Kortabók Íslands yrði undirstöðurit, viðamikil upplýsinganáma um náttúrufar og landshagi á Íslandi í mjög víðtækum skilningi þess orðs. Bók af þessu tagi á fyrst og fremst heima á söfnum, í opinberum stofnunum og ráðuneytum, atvinnufyrirtækjum og hjá fjölmiðlum og að s)álfsögðu í skólum, en varla þó í hverri skólastofu. Ótrúlegt er að kortabók Íslands verði almenn heimiliseign í landinu eða að hægt sé að krefjast þess af fólki, að það hafi kortabók Íslands sem kvöldlestrarbók. Kortabókin á að vera yfirgripsmikið uppsláttarrit og fróðleiksnáma í ætt við alfræðibækur.

Af þessu er ljóst að hér er um óvenjulega bók að ræða og full ástæða til að kanna hvaða leiðir skuli fara til að setja hana saman, gefa hana út og tryggja að hún nái útbreiðslu og komi að gagni. Auk þess þarf að átta sig á því, hvernig hægt er að endurný ja slíka bók reglulega, því að mjög margt úreldist furðufljótt í bók af þessu tagi, ef hún á að koma að gagni sem upplýsingarit á liðandi stund. Þá er og augljóst að útgáfa kortabókar er kostnaðarsamt fyrirtæki og býsna flókin „forretning“, svo að ég noti skiljanlegt orð um skynsamlega ráðstöfun fjármuna, hvort sem um er að ræða einkafjármagn eða almannafé. Og þá er ég kominn að kjarna þessa máls, herra forseti, eins og það horfir við mér þegar til framkvæmda kemur á þessu máli.

Eftir að þál. um kortabók Íslands var samþykkt skipaði menntmrh. nefnd til þess að gera tillögur um framkvæmd málsins, og er það þegar komið fram. Þessi nefnd lauk störfum í febr. 1980 og skilaði áliti til menntmrn. 20. febr. það ár. Nefndarálitið hafði að geyma upplýsingar um hvernig nefndarmenn teldu að ætti að standa að slíkri útgáfu, en þeir lögðu til að Háskóla Íslands og Landmælingum Íslands yrði falin gerð og útgáfa kortabókarinnar og að ríkissjóður legði fram fjármagn beint til útgáfunnar, en Háskólinn sæi um bókhald og fjárreiður.

Í nál. kom fram sú skoðun, að prentuð yrðu 10 þús. eintök með íslenskum texta af bókinni og 3000 eintök á ensku. Telur nefndin, að mikil eftirspurn verði eftir bókinni innanlands og utan, og telur þjóðráð að nota nú tækifærið til þess að koma á framfæri bæði innanlands og utan fróðleik um náttúru landsins, þjóðina og sögu hennar og atvinnulíf á Íslandi, eins og komist er að orði í nál. Þá fylgdi að sjálfsögðu kostnaðaráætlun yfir útgáfuna. Var kostnaður talinn vera 270 millj. kr., gamalla að sjálfsögðu, í febr. 1980, en það mun jafngilda því að vera um 630 millj. gkr. nú eða 6.3 millj. nýkr. Lagði nefndin til það þetta fé yrði ákveðið á fjárlögum í hæfilegum skömmtum í ein fjögur ár.

E.t.v. er ekki ástæða til að láta sér í augum vaxa þá upphæð sem nefndin áætlar að þurfi til útgáfunnar. Ég vefengi ekki þessar tölur. Hins vegar er það skoðun mín að ýmislegt sé við nál. að athuga að öðru leyti. Ég hef alveg sér í lagi miklar efasemdir gagnvart þeirri bjartsýni nm., að búast við því að selja megi af þessari bók 10 þús. eintök á íslensku og 3000 á ensku. Engin frambærileg rök hafa verið færð fram til styrktar þeirri fullyrðingu. Þá tel ég að hugmynd nefndarinnar um að fela Háskóla Íslands og Landmælingum Íslands útgáfuna, þ.e. að standa í því fyrirtæki að reka umfangsmikla útgáfustarfsemi, sé í meira lagi hæpin. Að sjálfsögðu yrðu þessar stofnanir að láta í té alla faglega vinnu og sérfræðilega yfirstjórn, en ég lýsi algerri vantrú á getu Háskólans og Landmælinganna að gera þessa bók að söluvöru og þeirri almenningseign sem kortabókarnefndin virðist hafa í huga.

Því miður er allt kortabókarnefndar þannig að það er ekki hægt að hafa nægilegt gagn af hugmyndum hennar eins og þær liggja fyrir. Mér þykir illt að þurfa að upplýsa þessa skoðun mína í alþjóðaráheyrn, ef svo má segja, því að í hlut eiga miklir afbragðsmenn sem í öllu vilja láta gott af sér leiða. En þetta hefur gert mér örðugt fyrir um meðferð málsins, þar sem ég hef ekki treyst mér til að gera skoðanir nefndarinnar að mínum, jafnframt því sem ég viðurkenni að það er ekki auðhlaupið að því að benda á hina einu og sönnu aðferð við útgáfu og sölu kortabókar Íslands. Mín skoðun er þó sú, að eðlilegast sé að gefa kortabókina út á vegum einhverrar starfandi og trúverðugrar bókaútgáfu. Bókaútgáfa er vandasamt verk sem menn verða að sinna af alúð og kunnáttu eins og hverjum öðrum atvinnurekstri sem vit á að vera í. Ríkissjóður ætti sem minnst að standa í bókaútgáfu, og meðan ekki er til eiginlegt háskólaforlag hér á landi sýnist mér ekki álitlegt að fela skrifstofu Háskólans bókaútgáfu fram yfir það sem er. Ég hika við slíkt.

Hitt er annað mál, að vel kemur til greina að ríkissjóður leggi fram fé til kortabókarútgáfu að sínu leyti, en þar mættu fleiri koma til með bein framlög En umfram allt ætti að tryggja sem unnt er að kortabókarútgáfan sé vel skipulagt fyrirtæki fjárhagslega á sama hátt og fagmannlega er unnið að efni og frágangi bókarinnar.

Ég hef kannað nokkuð möguleika á því, að starfandi útgáfufyrirtæki taki að sér að sjá um útgáfu og dreifingu kortabókar Íslands. Athuganir mínar leiða í ljós að fremur eru líkur á því en hitt, að slíkur framkvæmdaháttur mætti takast. Reyndar hef ég þegar í höndum yfirlýsingu frá bókaútgáfunni Lögbergi um að hún væri fús til að annast slíka útgáfu með tilteknum skilyrðum í samvinnu við ríkið. Ég tel slíkt tilboð allrar athygli vert, en rétt að kanna það nánar.

En í sambandi við þessa fsp., herra forseti, er kjarni málsins sá, að enn er verið að athuga hvernig best verði staðið að útgáfu kortabókar Íslands. Því miður er álit kortabókarnefndar ekki nógu góður leiðarvísir í þessu máli og ég tel nauðsynlegt að endurskoða hugmyndir hennar. Skoðun mín er sú, að það ætti að semja við duglegan bókaútgefanda um að koma þessari bók á markaðinn. Auk þess tel ég koma til greina að stofna til virkrar samvinnu ýmissa opinberra stofnana, svo sem banka og Framkvæmdastofnunar ríkisins og fleiri aðila, um beina fjárhagsábyrgð í sambandi við þessa útgáfu. En aðalatriðið hjá mér er að kortabókarnefnd hefur ekki leyst verkefni sitt þannig að telja megi viðunandi. Tillögur hennar gagnast því miður ekki í þessu stóra máli.3501