20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3990 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

54. mál, ávana- og fíkniefni

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um ávana- og fíkniefni á þskj. 57. Um þessa till. þarf ekki að hafa mörg orð, svo kunn eru þau vandamál sem fylgja ávana- og fíkniefnaneyslu og erfiðleikarnir við að sporna við að fíkniefni berist hingað til lands.

Það skal ekki vanmetið að ýmislegt hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að verjast innflutningi, útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna frá því að fyrst fór að bera verulega á slík u fyrir 15–20 árum. En engu að síður er ljóst að hér er um svo stórt og viðamikið og erfitt vandamál að ræða að þær baráttuaðferðir, sem notaðar eru til að verjast neyslu og útbreiðslu ávana- og fíkniefna, þurfa að vera í sífelldri endurskoðun og Alþingi þarf sérstaklega að láta þessi mál til sín taka. Á sviði löggæslunnar hefur mikið verk verið unnið, svo sem með stofnun embættis sakadómara í ávana- og fíkniefnamálum, með eflingu löggæslunnar og t.a.m. samvinnu Norðurlanda um baráttu gegn fíkniefnavandamálinu. En ég vil nefna eitt atriði sérstaklega, sem ég tel að sé varnaraðgerð sem geti skilað árangri, en e.t.v. hefur of lítill gaumur verið gefinn, en það er að stórefla alla fræðslu um skaðsemi fíkniefna og kannske sérstaklega að sú fræðsla verði skipulögð í skólum landsins. Það er ljóst að fræðsla í skólum landsins um t.a.m. skaðsemi tóbaksreykinga hefur borið góðan árangur, og ekki síður má hér ná meiri árangri en hingað til með vel skipulagðri fræðslu í skólum landsins og í ríkisfjölmiðlum um skaðsemi fíkniefna. Með þeim hætti er unnið fyrirbyggjandi starf sem örugglega mun skila árangri.

Allshn. leggur til á þskj. 604 breytingu á tillgr., að hún orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram heildarendurskoðun á því hvaða leiðir séu helstar til úrbóta til að hamla frekar gegn innflutningi, tilbúningi, útbreiðslu og neyslu ávana- og fíkniefna. Tillögur þar að lútandi liggi fyrir í árslok 1982.“

Nefndin mælir með að till. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef hér lýst.