05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

57. mál, staða og rekstrargrundvöllur félagsheimila

Flm. (Níels Á. Lund):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum þm. Framsfl. að leggja fram svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. skipun þriggja manna nefndar til að kanna stöðu og rekstrarmöguleika félagsheimila.

Í nefndinni sitji einn fulltrúi skipaður af menntmrh. og skal hann vera formaður nefndarinnar og auk hans einn tilnefndur af félagsheimilasjóði og einn tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Nefndin ljúki störfum og skili áliti til menntmrh. áður en löggjafarþing kemur saman haustið 1982. Nefndinni skal sérstaklega falið að kanna:

a) hvernig efla megi félagsheimilasjóð þannig að hann geti betur staðið að greiðslum til félagsheimilanna svo sem honum er ætlað að gera samkv. lögum;

b) með hvað hætti styrkja megi rekstrargrundvöll félagsheimila, m. a. með tilliti til skattlagningar hins opinbera, hitunarkostnaðar og fleiri atriða sem rekstur heimilanna varða.“

Nú eru í notkun á landinu 173 félagsheimili í 134 bæjar- og sveitarfélögum, sem svarar því að rúmlega 59% bæjar- og sveitarfélaga njóti félagsheimila. Þá eru auk ofangreindra 12 félagsheimili í undirbúningi.

Svo sem alþjóð veit eru þessi félagsheimili að mörgu leyti mjög mismunandi. Má þar nefna aldur, stærð, starfsemi, legu o. fl. Elstu húsin, sem enn eru notuð, eru gömlu góðtemplara- og ungmennafélagshúsin sem byggð voru af hugsjón og dugnaði fyrir mörgum áratugum. Svo sem nærri má geta er aðstaða öll þar bágborin í samanburði við þær kröfur sem við gerum til félagsheimila nú. Stærð félagsheimilanna er mismunandi, sem ræðst að verulegu leyti af íbúafjölda héraðsins og þeirri starfsemi sem félagsheimilinu er ætluð. Sum þessara félagsheimila eru í þéttbýli og í stöðugri notkun hvern dag. Í tengslum við þau er oft og tíðum hótelrekstur, kvikmyndasýningar o. fl. Önnur eru á fámennari stöðum og oft að verulegu leyti notuð í tengslum við skóla, bæði sem kennslustofur og íþróttahús, og sem félagsaðstaða.

Í langflestum nýrri félagsheimilanna er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir þau félagasamtök sem að þeim standa, svo sem kvenfélög, verkalýðsfélög, búnaðarfélög, sjómannafélög, íþrótta- og ungmennafélög, skáta og fleiri sem of langt yrði upp að telja.

Sammerkt er öllum félagsheimilum að þau hafa verið og eru fjölbreytilegar menningarmiðstöðvar og leysa úr brýnni þörf fyrir félagslega aðstöðu. Að þeim langflestum standa áhugamannafélög sem leggja fram til þeirra allt sitt fjármagn. Með tilkomu félagsheimila í héruðin hefur skapast aðstaða til hvers konar menningarlífs sem telja verður eina af forsendum nútíma lífshátta.

Hvað nefndarskipuninni, sem um getur í ályktuninni, viðvíkur er rétt að benda á að þar sem hér er um að ræða fleiri en einn þátt hvað varðar rekstur og stöðu félagsheimilanna þykir rétt að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um málið í heild og gera tillögur til úrbóta.

Nefndinni er ætlað að ljúka störfum og hafa skilað áliti áður en löggjafarþing kemur saman að hausti 1982, þannig að till. nefndarinnar ættu að geta komið til kasta Alþingis þegar á næsta ári. Óþarft þykir að hafa nefndina stóra, en ætlast er til að í hana veljist menn sem þekk ja til málsins og geta hafið störf strax.

Eðlilegt er að menntmrh. skipi formann nefndarinnar þar sem félagsheimili og félagsheimilasjóður heyra undir hann. Einnig þykir rétt að í nefndinni eigi sæti einn fulltrúi félagsheimilasjóðs þar sem verulegur hluti af starfi nefndarinnar hlýtur að tengjast sjóðnum og fulltrúi sjóðsins er vel kunnugur stöðu og málefnum félagsheimilanna um allt land.

Þar sem félagsheimili landsins hafa ekki með sér nein samtök er lagt til að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn fulltrúa í nefndina fyrir hönd félagsheimilanna.

Nefndinni er einkum falið að kanna eftirtalda meginþætti sem verulega snerta félagsheimilin og rekstur þeirra:

a) Félagsheimilasjóður hefur allt frá stofnun hans verið sveitarstjórnum og félagasamtökum mikil hvatning til að byggja yfir félagsstarf og samkomuhald fólksins í landinu. Framlög úr sjóðnum hafa þó oft borist styrkþegum seinna en þeir höfðu leyft sér að vænta.

Árið 1978 var gerð áætlun hjá sjóðnum til fjögurra ára. Var þá reiknað með óbreyttum tekjumöguleikum sjóðsins. Leyft var að fara af stað með 23 félagsheimili í trausti þess að tekjur sjóðsins yrðu óskertar.

Skerðing sjóðsins með ákvæðum í lánsfjárlögum fyrir árið 1980 og síðar hefur valdið alvarlegri röskun á öllum fyrri áætlunum sjóðsstjórnar og frekari drætti á framlögum til framkvæmda við félagsheimili. Almennt er litið svo á, að bygging félagsheimila skuli styrkt sem nemur 40% af byggingarkostnaði. Skuldahalinn við félagsheimilin lengist sífellt og staða hans fer síversnandi ef ekkert verður að gert.

b) Í júní s. l. úrskurðaði ríkisskattanefnd að félagsheimilið Festi í Grindavík skyldi greiða tekjuskatt, eignarskatt og aðstöðugjald vegna starfsemi sinnar á árinu 1980. Félagsheimilið Tjarnarborg, Ólafsfirði, hefur nýlega fengið samsvarandi kröfur frá skattstjóra Norðurlandsumdæmis eystra, og svo er um fleiri félagsheimili. Rekstur félagsheimilanna hefur verið fjárhagslega erfiður og verða því nýjar álögur, eins og um getur hér að framan, mikið reiðarslag fyrir rekstrarstjórnir félagsheimilanna. Þótt hér sé aðeins um fá félagsheimili að ræða, sem vitað er um, þykir sýnt hvert stefnir. Túlkun þeirra laga, sem fjalla um þessi atriði, er mismunandi og er ljóst að lögin kveða ekki nægilega skýrt á um skattskyldu og skattfrelsi félagsheimilanna.

Með sífelldum olíuvershækkunum undanfarin ár hefur staða þeirra félagsheimila, sem hituð eru upp með olíu, farið síversnandi. Félagsheimilin njóta ekki olíustyrks og er upphitunarkostnaður þeirra félagsheimila, sem þurfa að nota olíu til þeirra hluta, verulegur baggi á þeim. Ljóst er að verulegur munur hlýtur að vera á rekstrarkostnaði þeirra félagsheimila annars vegar, sem eru hituð upp með olíu eða rafmagni, og þeirra sem búa við hitaveitu. Félagsheimili borga nú hitun samkv. taxta D-1 eða 37.60 kr. á kwst., sem er rúmlega helmingi hærri taxti en til hitunar íbúðarhúsnæðis. Rætt hefur verið um það hjá stjórn Rafmagnsveitna ríkisins að einfalda gjaldskrá RARIK, sem e. t. v. mundi lækka rafmagnsverð til félagsheimila, en enn hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Því er nefndinni sérstaklega falið að kanna þennan þátt og gera till. til úrbóta.

Eflaust eru enn fleiri atriði sem nefndin þyrfti að kanna og gera till. um og koma í ljós við vinnu hennar, þótt hér séu aðeins nefndir þættir sem verulega er áríðandi að gera úrbætur á,

Það er von flm., að með þessari nefndarskipan og þeim till., sem nefndin gerir, verði unnt að bæta svo stóðu félagsheimilanna að þau geti áfram gegnt því veigamikla hlutverki sem þau hafa gert um allt land undanfarna áratugi.

Herra forseti. Að lokinni umr. legg ég til að ályktuninni verði vísað til menntmn. Ég hef lokið máli mínu.