29.04.1982
Sameinað þing: 84. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (4112)

Almennar stjórnmálaumræður

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Allir talsmenn stjórnarandstöðunnar hér í kvöld hafa ráðist gegn Alþb. og húsnæðislánakerfinu sérstaklega. Þeir sleppa hins vegar félagslegum íbúðum og stórfelldri aukningu á lánum til eldra húsnæðis. Þeir nefna ekki orkusparnaðarlánin né lán til einstaklinga með sérþarfir. Þeir nefna ekki 30–40% lánahækkun til stærstu fjölskyldnanna né heldur áform um hærri lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn. Vandamál húsbyggjenda stafa ekki af því, að húsnæðislánakerfið hafi versnað. Það hefur batnað á flestum sviðum. En það hefur ekki batnað nóg til þess að koma til móts við þá staðreynd, að nú verða menn að greiða lán og skuldir að fullu til baka. Verðbólgan byggir ekki lengur íbúðir. En um leið og við hljótum að viðurkenna vanda húsbyggjenda hljótum við að benda á að allir, sem leitað hafa til Húsnæðisstofnunar um lán, hafa fengið lán. Við bendum á hundruð félagslegra íbúða. Íbúðalán alls, þ.e. banka, lífeyrissjóða og Húsnæðisstofnunar, eru nú hærra hlutfall byggingarkostnaðar en nokkru sinni fyrr. Við bendum á að ráðstöfunarfé byggingarsjóðanna er nú 30% meira en í tíð Alþfl. sem lengst allra flokka hefur borið ábyrgð á húsnæðislánakerfinu.

Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er nú að ljúka í New York. Samþykktir þeirrar ráðstefnu gengu okkur Íslendingum í vil. Er það mikið gleðiefni fyrir okkur að þessari ráðstefnu er nú að ljúka og á þann hátt sem þar horfir nú. Það var stefna vissra stjórnmálaafla og stjórnmálamanna 1972, að við skyldum bíða eftir ákvörðun þessarar ráðstefnu um það að færa út landhelgina í 50 sjómílur. Þótt sú bið hefði ekki verið til dagsins í dag, því landhelgisþátturinn er fyrir nokkru viðurkenndur, minnir þetta á það afturhald sem jafnan er til staðar. Rúmur áratugur er síðan þessari stefnu var fram haldið. Og það eru ekki nema tæp þrjú ár síðan Alþfl. gaf Sjálfstfl. tækifæri til að leggja fram leiftursóknartillögur sínar. Báðum þessum kostum Sjálfstfl. og Alþfl. höfnuðu kjósendur í kosningunum. Það eru þessi tvö mál kannske frekar öðrum sem hafa orðið þess valdandi, að Sjálfstfl. og Alþfl. eru nú í stjórnarandstöðu, þótt þar komi sjálfsagt margt fleira til.

Augljóst er hvað skeð hefði ef haldið hefði verið fram stefnu viðreisnarstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. í landhelgismálinu. Sú atvinnuuppbygging, sem átt hefur sér stað um landsbyggðina allan undanfarandi áratug, hefði ekki átt sér stað. Allar líkur eru á því, að algjört hrun hefði orðið á þorskstofninum. Ef slíkt hefði gerst er í jóst hver afleiðingin hefði orðið.

Það er nokkuð erfitt að segja til um hvað gerst hefði ef Sjálfstfl. hefði fengið umboð hjá kjósendum til að framfylgja leiftursókninni. Allt bendir þó til þess, að farið hefði svipað og hjá Thatcher þeirri ensku eða þeim öðrum sem framkvæma viðlíka stefnu. Hér mundi þá vera ríkjandi atvinnuleysi, það mesta sem þekkst hefði frá kreppuárunum upp úr 1930. Sem betur fer fengu þessir flokkar ekki aðstöðu til að koma fram stefnumálum sínum. Aðalástæðan fyrir því, að svo varð ekki, var sú, að kjósendur gerðu Alþb. svo öflugt að landinu varð ekki stjórnað án þátttöku þess. Styrkur Alþb. tryggði rétta stefnu í landhelgismálinu og styrkur Alþb. í Alþingiskosningunum 1979 leiddi til myndunar núverandi ríkisstjórnar og kom í veg fyrir að Sjálfstfl. tækist að framkvæma leiftursóknarstefnuna. Aðalmarkmið núverandi ríkisstjórnar hefur verið og er að halda uppi fullri atvinnu í landinu, jafnframt því að launakjör og kaupmáttur launa verði tryggð. Miðað við stöðu þessara mála í nágrannalöndunum hefur tekist mjög vel til.

Sjálfstfl. hamrar nú mjög á því, að völd Alþb. séu allt of mikil, völd Alþb. þurfi að minnka, svo sem kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar áðan. Það er rétt, að styrkur og völd Alþb. hafa verið mikil á undanförnum árum. Þau hafa verið það vegna þess að kjósendur sýndu Alþb. traust við alþingiskosningarnar 1979 og við sveitarstjórnarkosningarnar 1978. Sveitarstjórnarfulltrúar Alþb. standa nú að meiri hluta í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Kjörnir fulltrúar Alþb. í ríkisstj. og hér á hv. Alþingi svo og á vettvangi sveitarstjórna hafa nýtt það traust, sem þeim var veitt, til að koma til leiðar ýmsum félagslegum málum og staðið fyrir aðgerðum til atvinnuuppbyggingar.

Kvartanir íhaldsins um völd Alþb. eru vegna þess að íhaldinu svíður það, að stjórnarþátttaka Alþb. hefur tekist vel í borgarstjórn hér í höfuðborginni, í bæjarstjórnum og hreppsnefndum um landið allt. Skröksagan um að fulltrúum Alþb. væri ekki treystandi til forustu í sveitarstjórnum, hvað þá til að gegna sumum ráðherraembættum, t.d. í fjmrn., er svo rækilega afsönnuð að nú er brosað ef einhver reynir að segja þá sögu.

Í fárra mínútna ræðu verða ekki tíunduð sérstök verkefni, sem að hefur verið unnið, né talin upp þau verk, sem framkvæmd hafa verið. Íhaldið talar nú mjög um að breyta þurfi stjórnarstefnu jafnt í ríkisstjórn sem í sveitarstjórnum. En hverju vill það breyta? Það vill koma aftur til valda því íhaldi sem stjórnaði hér í Reykjavík og í ýmsum sveitarstjórnum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1978. Það vill koma aftur til valda því íhaldi sem boðaði leiftursóknartillögurnar 1979. Og það vilt koma aftur til valda því íhaldi sem vildi láta bíða með útfærslu landhelginnar 1971.

Góðir hlustendur. Sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir tæpan mánuð. Fyrir fjórum árum tókst félagshyggjufólki að efla Alþb. svo að íhaldinu var víðast gefið frí frá stjórnarstörfum. Það frí þarf nú að framlengja um fjögur ár. Það verður aðeins gert með því, að Alþb. haldi styrk sínum. — Góðar stundir.