30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4413 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar samþykkt var á Alþingi að stofna þessa verksmiðju, járnblendiverksmiðjuna, var ákveðið að Íslendingar skyldu eiga þar meiri hluta, 55%, og verksmiðjan skyldi þannig vera algerlega undir íslensku forræði, yfirstjórn og lögsögu. Ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Ég tel að það hafi einnig verið rétt stefnt að stofna þessa verksmiðju þó að óhjákvæmilega hlyti að fylgja því nokkur áhætta. Það er svo með þær vörur, sem slíkur orkufrekur iðnaður framleiðir, að aðstaða á mörkuðum gengur nokkuð í bylgjum. Stundum þrengir að og verð lækkar og tap verður á framleiðslunni, síðan koma önnur tímabil þar sem allt leikur í lyndi og góður hagnaður af.

Nú hefur það hent sig, að á byrjunarskeiði þessarar verksmiðju hefur markaður fyrir þessa framleiðslu orðið í lægð og verð mjög lækkað. Þess vegna er þetta frv. hér fram komið, að það þarf að auka hlutafé og afla viðbótarlána til þess að komast yfir þetta tímabil, sem ég vænti að verði þó ekki langvarandi, heldur rétti við á þessum markaði og innan skamms geti verksmiðjan skilað hagnaði.

Þegar þetta mál var hér til meðferðar og það á tveim þingum var afstaða Sjálfstfl. að fylgja eindregið stofnun þessa orkufreka iðnaðar, og það var eindregin afstaða Sjálfstfl. að Íslendingar skyldu eiga þar meiri hluta. Sú skoðun, sem hv. þm. Lárus Jónsson lýsti áðan, var því ekki stefna Sjálfstfl. Hann hafði þar aðra skoðun en flokkurinn. Það var honum vissulega frjálst eins og öllum og skylt að fylgja sinni sannfæringu og þá greiða atkv. á annan veg, ef það gengur gegn flokkssamþykkt, eins og gerðist um hann á þessum tíma. (Gripið fram í.) Það var samþykkt í Sjálfstfl., þingflokki sjálfstæðismanna, að styðja málið á þessum grundvelti. Hv. þm. hafði að sjálfsögðu aðra skoðun og fylgdi henni þá, eins og honum bar að gera, en gekk þá gegn samþykkt þingflokksins eða meiri hlutans. Ég tek fram að ég er ekki að deila á hv. þm., heldur tel að honum hafi verið þetta fullkomlega frjálst. En hann mætti þá muna það stundum í öðrum samþykktum. Ég segi já.