30.04.1982
Efri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (4149)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa hér stuðningi mínum við þær brtt. sem fram koma á þskj. 783 frá 1. minni hl. landbn. Ég hlustaði með nokkurri furðu á ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar. Hann sagðist vera andvígur stefnu þessa frv. eins og það nú liggur fyrir frá hv. nefnd. Hann sagði að íslenskir bændur hefðu í 1100 ár verið einfærir um það að afla fóðurs fyrir búpening sinn.

Hver er þá sú stefna sem þetta frv. boðar eins og það nú liggur fyrir? Það felur í sér að ríkisstj. verði heimilað að taka þátt í stofnun hlutafélaga fyrir hönd ríkisins til stofnunar verksmiðja til þess að framleiða grasköggla og fóðurköggla, og það gerir ráð fyrir að heimilt verði að fella niður aðflutnings- og sölugjöld af vélum, tækjum og varahlutum til slíkra verksmiðja. Þetta er meginefni þeirra brtt. sem liggja fyrir frá I. minni hl. hv. nefndar.

Á árinu 1972 var ákveðið að reisa tvær ríkisverksmiðjur, í Hólminum í Skagafirði og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Það eru þær tvær verksmiðjur sem samkv. þessu frv. er fyrirhugað að reisa á grundvelli hlutafélaga með aðild ríkisins og aðild heimaaðila, bænda og félagssamtaka í þessum héruðum. Stefnubreytingin er sú, að í stað þess að ríkið leggi alfarið fram fjármuni til að reisa þessi fyrirtæki og beri ábyrgð á rekstri þeirra myndi bændur og félagssamtök í heimahéruðum hlutafélag ásamt ríkinu til að annast þetta viðfangsefni. Stefnubreytingin er fólgin í því að leysa ríkið undan kröfum um fjármagn og undan ábyrgð á rekstri sem hv. þm. telur e.t.v. vafasaman. Það er þess vegna öfugmæli, sem mátti lesa út úr máli hv. þm., að með þessu sé verið að auka hlutdeild ríkisins í fóðurframleiðslu hér á landi.

Það er öllum kunnugt að nú starfa í landinu fimm ríkisreknar fóðurverksmiðjur. Sumar þeirra voru settar á stofn fyrir um það bil tveimur áratugum og þá voru ekki höfð uppi þau mótmæli gegn þessum rekstri sem hv. þm. kemur nú með. Íslenskir bændur hafa tiltölulega lítið staðið að rekstri verksmiðja af þessu tagi. Aðeins ein undantekning er frá því. Það er verksmiðjan sem er rekin í Brautarholti á Kjalarnesi.

Síðan kemur hv. þm. og flytur hér ræðukafla um votheysverkun sem allt gott er um að segja og ég get tekið undir í flestum greinum. En þau orð fólu það í sér, að þrátt fyrir að hann hefði flutt hér till. og fengið samþykkta fyrir fimm árum og sama væri hvað sagt væri hér á Alþingi, þá væri staðan sú í dag, að enn verkuðu íslenskir bændur ekki nema 5% af heyfeng sínum sem vothey. Ég tel að þetta sé óheppileg staða og hyggilegra væri að meira væri verkað af votheyi en raun er á. En ef hv. þm. vill að íslenskir bændur séu einfærir og ráði því sjálfir, hvernig þeir hagi sinni fóðuröflun, þá er auðvitað ekki í næstu setningu hægt að segja að þeir eigi að fara eftir því sem sagt er á hv. Alþingi um þau mál. Það var því í hæsta máta tvískinnungur í máli hv. þm., enda hafði ég ekki búist við öðru. En hvað sem hann sagði um þetta efni var auðfundið að hann vildi íslenskum bændum vel hvað þetta snertir.

Ég tel að það sé mjög mikils virði að þetta frv. eins og það er nú úr garði gert hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Það þarf afgreiðslu til þess að unnt sé að stofna þau hlutafélög sem ætlunin er að stofna um byggingu og rekstur þeirra verksmiðja sem ákveðið var fyrir 10 árum að byggðar yrðu á Norðurlandi. Til þess að ekki verði horfið að því að framfylgja þeirri 10 ára gömlu ákvörðun að reisa þessar verksmiðjur alfarið fyrir ríkisfé þurfum við lagaheimild til þess að ríkið taki þátt í stofnun slíkra hlutafélaga.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson lýsti furðu sinni á tillögum 1. minni hl. hv. landbn. Þessar tillögur eru að stofni til til orðnar í landbrn. vegna tilmæla hv. formanns landbn. og- að því er skilið varð — í því formi sem hv. formaður nefndarinnar teldi að rétt væri eða líklegt að koma þessu máli áfram, enda nokkuð í samræmi við þau meðmæli sem mál þetta fékk á Búnaðarþingi. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson þarf því ekki að lýsa furðu sinni yfir því, að hv. 1. minni hl. n. skuli mæla með þessum tillögum. Þær eiga rót sína að rekja til þessara tilmæla og þær eru samdar í landbrn., a.m.k. að stofni til, enda þótt þeim kunni að hafa verið breytt eitthvað lítils háttar í meðförum hv. nefndar.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég furða mig á að hv. fulltrúar Sjálfstfl. í landbn. skuli ýmist leggja til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj. — og þar með að það nái ekki afgreiðslu á þessu ári — eða þá, eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að frv. verði fellt. Ég hygg að það felist ekki í þeim tillögum nein stefna í þá átt að mæta þessu máli með hagsmuni landbúnaðarins fyrir augum eða þá að mæta því á þann hátt að verið sé að spara útgjöld ríkisins, því að þá mætti ætla, ef Alþingi vísar þessu máli frá, að Alþingi vildi standa við fyrri stefnu í þessum efnum, þá stefnu að ríkið sé eitt um að byggja þessi fyrirtæki og taka ábyrgð á rekstri þeirra.