30.04.1982
Neðri deild: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (4186)

253. mál, ríkisreikningurinn 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði áðan að hann væri reiðubúinn að ræða Kröflumálið frá upphafi til enda. Ég held það væri örðugt að gera það. Sjálfsagt er hægt að byrja á upphafinu, en ég held að hæstv. ráðh. geti alls ekki rætt um endinn. Mér er ekki kunnugt um að neinn endir sé kominn á það mál enn. Það kom fram í svari, sem hæstv. iðnrh. gaf við fsp. frá mér fyrr á þinginu í vetur, að menn eru enn þá ekki komnir lengra aftur með þetta mál en til ársins 1999 í sambandi við áætlanir um orkuöflunarframkvæmdir, og jafnvel þá gera menn ekki ráð fyrir að neinn endapunktur sé kominn á Kröflumálið. Ég held því að það verði harla erfitt fyrir hæstv. menntmrh. að rekja málíð frá upphafi til enda. Ég veit ekki til þess, að hæstv. menntmrh. sjái öðrum mönnum fremur fram á næstu öld.

Þá kom einnig fram í svari hæstv. iðnrh. í vetur hver kostnaðurinn við framkvæmdirnar er orðinn. Ég held að ég muni það rétt, það má sjálfsagt fletta því upp í umr. frá Alþingi, en ég held að ég muni það rétt, að orkuverðið frá Kröflu þyrfti að vera um 300% hærra en það er til að virkjunin stæði undir sér, þessi virkjun sem átti að vera farin að veita birtu og yl inn í hús landsmanna fyrir mörgum árum.

Þá vil ég einnig minna menn á að það er rétt, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði áðan, að það voru ekki aðeins stjórnmálamenn sem höfðu ýmislegt við virkjunarframkvæmdirnar að athuga frá upphafi. Það gerðu einnig sérmenntaðir menn, bæði á sviði jarðvísinda og á sviði fjármála og efnahagsmála. Mér er það enn í fersku minni að í útvarpsumr. lýsti málflytjandi Alþfl. í þeim umr., dr. Gylfi Þ. Gíslason, yfir að hann teldi fyrirsjáanlegt að ef haldið yrði áfram með óbreytt fyrirkomulag á þeim Kröflumálum væri hætta á að Kröfluvirkjun yrði eitt mesta fjármálahneyksli sem yfir okkur Íslendinga hefði dunið.

Ég man einnig eftir því, að við Alþfl.-menn fluttum till. um það á Alþingi þegar jarðhræringarnar hófust á virkjunarsvæðinu, og þá var ekki búið að gera bindandi samninga um vélakaup né annað og aðeins risið lítið af þeim mannvirkjum sem risin eru norður við Kröflu, að frekari framkvæmdum yrði frestað við virkjunina á meðan menn sæju hvað ætlaði að verða úr þessum jarðhræringum. Og við lögðum hér fram — ég gerði það sjálfur mat lögfræðinga. Ég man eftir því, að ég leitaði álits Sigurðar Líndals á því, hvort Íslendingar gætu óskað eftir því við það tækifæri varðandi samninga, sem menn höfðu gengið frá að nokkru leyti, m.a. um vélakaup frá Japan, að greiðsluskilum samkv. þeim yrði frestað vegna þeirra aðstæðna sem orðið hefðu á virkjunarsvæðinu eftir að jarðhræringarnar hófust þar. Það var sammála álit þeirra lögfræðinga sem leitað var til, að Íslendingar hefðu vissulega full rök fyrir beiðni um slíka frestun. Það var ekki ákvörðun vísindamannanna í Orkustofnun að hafa þessar tillögur okkar Alþfl.-manna að engu. Það var ákvörðun hv. Kröflunefndar.

Ég vil benda í þessu sambandi á það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í vetur á Alþingi við annað tækifæri þegar rætt var um flugmál og afskipti ráðh. af þeim málum, að ráðherrar þeir, sem fara með almannavald í landinu, verða auðvitað að gera sér grein fyrir því, að einhverjir menn verða að standa ábyrgir gagnvart almenningi. Ef t.d. virkjunarframkvæmd tekst vel er sjaldnast bið á að það gefi sig fram valdsmaður sem sé reiðubúinn að taka ábyrgðina á vel heppnaðri framkvæmd og láta taka af sér ljósmyndir þar sem hann styður á takkann og hleypir öllu í gang. En ég vil minna menn á að þeir hafa keppst um það, almannavaldið í þessum Kröflumálum, að velta ábyrgðinni hver af öðrum. Ráðherra þeirra mála, núv. hæstv. forsrh., þóttist enga ábyrgð hafa borið á hvernig til tókst. Kröflunefnd, sem átti að sjá um framkvæmdirnar, sagðist enga ábyrgð hafa á þeim borið. Rafmagnsveitur ríkisins, sem áttu að sjá um hluta framkvæmdanna, sögðust enga ábyrgð bera á málinu. Orkustofnun, sem átti að sjá um annan hluta, sagðist enga ábyrgð bera á hvernig málið væri komið.

Í grónum þingræðislöndum, eins og í Bretlandi, telst sjálfsagt að almenningur í landinu geti gengið að einhverjum aðila sem telst vera ábyrgur fyrir ákvörðunum stjórnvalda, eins og gerðist t.d. í Falklandseyjamálinu í vetur þegar utanrrh. Breta sagði af sér og lýsti yfir að auðvitað yrði að gera kröfur til þess, að einhver valdsmaður í ríkisstj. gengist við ábyrgð á ákvörðunum sem hefðu reynst vera rangar. En í okkar stjórnkerfi er enginn ábyrgur nema þegar vel gengur. Ef mistök eru gerð, eins og t.d. gerðist við Kröflu, eða eitthvað fer öðruvísi en ætlað er, eins og t.d. var þar, er enginn sem vill við ábyrgðinni gangast. Í því sambandi er ég ekki að gera kröfur um að einn eða annar segi af sér eða láti af opinberu embætti eða neitt í þeim dúr. En að almenningur í landinu skuli ekki geta gengið að neinum sem talist getur ábyrgur fyrir því að búið sé að skuldbinda Íslendinga til að taka á sig stórkostleg fjárútlát á hverju einast ári vegna mistaka í framkvæmdum, sem ekki er séð fyrir endann á þótt komið sé allt aftur til ársins 1999, þar tel ég ekki ná nokkurri einustu átt.

E.t.v. er það dæmigert um það stjórnarfar sem við búum við, að æðsti yfirmaður allra Kröfluframkvæmdanna, sá sem menn hljóta fyrst að leita til ef menn spyrja og vilja fá svar við því, hvernig stendur á, að svona fór, og hver er ábyrgur fyrir því, situr nú í embætti forsrh. Íslands. Varaformaður Kröflunefndarinnar, sem talaði hér áðan um að Íslendingar hefðu ekki þá búið yfir nægilegri vísindalegri þekkingu til að hefja þessar framkvæmdir, hvað er hann nú? Hann er vísindamálaráðherra í landi voru, hæstv. menntmrh., yfirmaður allra vísindamála, — varaformaður Kröflunefndar. Og þriðji Kröflunefndarmaðurinn, sem situr hér á þingi, er æðsti yfirmaður fjármála þjóðarinnar. Það má með nokkrum rétti halda því fram, að Kröflunefnd hin sáluga stjórni nú Íslandi. Hún fer nú með æðsta vald sem nokkrum einstaklingum er fengið í landi voru á opinberum málum, og sjálfsagt eru þeir félagar reiðubúnir að taka á sig ábyrgð, sérstaklega þegar vel gengur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar, enda tel ég það varla eiga heima hér. Þetta sagði ég aðeins að gefnu tilefni. Við höfum áður fengið ríkisreikninginn til skoðunar. Hann fengum við að mig minnir á árinu 1979, að vísu án aths. yfirskoðunarmanna. Nú fáum við ríkisreikning ársins 1978 á nýjan leik með aths. yfirskoðunarmanna. Ég er ekki einn um að telja að Alþingi gefi sér of lítinn tíma til að fjatla um ríkisreikninginn. Þá á ég ekki bara við þær aths. sem yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins gera. Þá á ég enn fremur við það og ekki síður, að það gerist ítrekað í sambandi við ríkisfjármálin að ríkisreikningurinn sýnir allt aðra mynd af fjármálum ríkisins en fólgin er í þeirri áætlun um ríkisbúskap sem gerð er í fjárlögum. Það kemur t.d. mjög ítrekað fyrir í sambandi við ríkisreikning að hann sýni að raunverulegur kostnaður ríkisins við tiltekin störf og embætti er miklu meiri en gert er ráð fyrir í áætlun fjárlaga. Samt sem áður er því gjarnan svo háttað, að þegar fjárlög eru gerð milli ára er alltaf byggt á síðasta árs fjárlagaáætlun og tölur samkv. síðasta árs fjárlagaáætlun eru hækkaðar í einhverju ákveðnu hlutfalli; þó svo að ríkisreikningur til langs tíma sýni að málum sé allt örðuvísi háttað. T.d. hefur það um langan aldur gerst, að útgjöld við löggæslu, raunverulegur löggæslukostnaður, eru miklu meiri en áætlun fjárlaga gerir ráð fyrir. Ég vil sérstaklega taka fram til að firra misskilningi, að hér er ekkert óeðlilegt á ferðinni. Hér er ekki um það að ræða að yfirvöld löggæslumála séu að stýra sínum málum með óeðlilegum hætti. Gagnrýnin er ekki um það, heldur hitt, að raunverulegur kostnaður, t.d. við löggæsluna, er miklu meiri en áætlunin gerir ráð fyrir sem gengið er út frá við fjárlagagerð. Þegar menn eru að reisa áætlunargerð sína, sem menn gera í fjárlögum, eiga menn auðvitað að taka mið af hinni raunverulegu mynd sem ríkisreikningur sýnir. Það hafa menn hins vegar ekki gert og því segi ég að Alþingi gefi sér alls ekki nægan tíma til að fjalla um ríkisreikninginn sem sýnir raunverulega afkomu ríkissjóðs og raunverulegan kostnað við ríkisútgerðina, miðað við þann mikla tíma sem Alþingi tekur sér til að fjalla um áætlunargerðina um þessi efni sem fótgin er í fjárlögum. Væri ráð að athuga að gera þá breytingu á þingskapalögunum, að í stað þess, að ríkisreikningur færi hér inn í deildir og til meðferðar í fjh.- og viðskiptanefndum beggja deilda þingsins, færi hann að sjálfsögðu sömu leið og fjárlögin sjálf, þ.e. væri tekinn til umr. í Sþ. og færi þaðan til skoðunar í fjvn., sem gengur frá fjárlagaáætluninni í fjárlögum, þannig að fjvn. hafi í sínum höndum áætlunargerðina annars vegar í fjárl. og raunveruleikann hins vegar í ríkisreikningi og geti miðað fjárlagagerð sína við raunverulegar tölur ríkisreiknings.

Í sambandi við athugasemdir skoðunarmanna ríkisreiknings vil ég samt taka annað fram og vekja athygli manna á því, að það hefur nýverið verið afgreitt sem lög frá Alþingi frv. frá einum þm. Alþfl., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gerir ráð fyrir mjög verulegum breytingum á lögum um fjárlög og ríkisreikning. Það ætti að geta gert það stjórntæki, ríkisreikninginn, að miklu betra tæki til aðhalds og eftirlits en áður, að þau lög hafa verið afgreidd. Hér er um að ræða frv. sem nýlega hefur verið afgreitt sem lög frá Alþingi, þar sem gert er beinlínis ráð fyrir því, að auk þeirra upplýsinga, sem hingað til hafa komið fram í ríkisreikningi, upplýsi ríkisreikningur eftirfarandi: Í fyrsta lagi þann mismun sem er á fjármálum stofnana milli annars vegar áætlunargerðar í fjárl. og hins vegar raunverulegrar niðurstöðutölu í ríkisreikningi og geri þm. jafnframt grein fyrir aths. og skýringum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar á þeim mismun. Í öðru lagi eru lagabreytingarnar á þá lund, að ávallt fylgi með í ríkisreikningi upplýsingar frá hverri stofnun ríkisins og hverju ríkisfyrirtæki: í fyrsta lagi um allar yfirvinnu- og aukavinnugreiðslur sem greiddar eru, í öðru lagi um allan risnukostnað sem viðkomandi stofnanir hafa greitt, í þriðja lagi um allan bifreiðakostnað sem greiddur hefur verið af viðkomandi stofnunum og í fjórða lagi um allan ferðakostnað og dvalarpeninga, hvort heldur er af ferðum erlendis eða innanlands sem viðkomandi stofnanir ríkisins hafa greitt.

Ef þessi lög hefðu verið samþykkt fjórum árum fyrr væru menn nú á árinu 1982, ekki að ræða um þau atriði varðandi aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikning frá árinu 1978 sem menn eru nú að ræða. Þá mundu þær upplýsingar hafa legið frammi þegar í ríkisreikningi árið 1979 á meðan umrætt mál var ferskt og enn til umræðu. En auðvitað þýðir ekki að sýta að svo var ekki. Meginatriðið er það að m.a. vegna þeirrar reynslu sem menn hafa fengið af færslu ríkisreiknings í núverandi mynd hefur Alþingi talið nauðsynlegt og fallist á að samþykkja tillögur um breytingar á uppsetningu ríkisreiknings og um fyllri upplýsingar m.a. um atriði sem verið er að gera aths. við fjórum eða fimm árum eftir að viðkomandi málatilbúnaður átti sér stað. Vissulega er það ánægjulegt fyrir okkur Alþfl.menn, að ábendingar okkar skuli þó hafa náð að skila þeim árangri, að Alþingi hafi talið rétt að gera þessar breytingar. Ríkisreikningur er opinbert plagg, sem allri geta fengið að líta í og geta þá betur og fyrr aflað sér upplýsinga um kostnað í ríkisrekstrinum en hægt hefur verið hingað til.