30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá minni hl. allshn., en þann minni hl. skipar ásamt mér hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson.

Um þetta mál hafa orðið allmiklar umræður í vetur innan þings og utan og urðu raunar allmiklar umræður í Ed. og voru fluttar þar fjölmargar brtt. við frv. Fæstar þeirra náðu þó fram að ganga, en þó ein að ég hygg.

Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa gefið mikinn gaum að þessu frv. og hvort menn átta sig til hlítar á því, að hér er verið að leggja til í raun og veru eðlisbreytingu á Hæstarétti Íslands. Þessi eðlisbreyting er í því fólgin, að þangað til fyrir þremur árum eða 1979 störfuðu í Hæstarétti 6 dómarar. Þá var með lögum frá Alþingi, sem var hér húrrað í gegn á síðustu dögum þings, fjölgað úr 6 í 7. Rökstuðningurinn fyrir því var sá, að með því ætti að höggva á málahala í réttinum. Það skal vissulega undirstrikað, að það eru mikil vandræði af því þegar mál hlaðast upp í réttarkerfinu, hvort sem um er að ræða í undirrétti eða í Hæstarétti. Engu að síður varð þessi fjölgun ekki til að höggva á málahalann, eins og kallað er. Nú er komið nokkru síðar og beðið enn um fjölgun um einn og auk þess, eins og getið er í ákvæðum til bráðabirgða með þessu lagafrv., beðið um 2–3 aðstoðardómara eða aukadómara, dómara sem starfi jafnhliða hinum reglulegu dómurum. Eðlisbreytingin er í því fólgin, hin almenna hugmynd, sem að baki þessu liggur, er sú, að í vaxandi mæli sé Hæstiréttur brotinn upp í marga smærri dóma. Ef við gefum okkur að þessar heimildir séu nýttar til hlítar eru hæstaréttardómarar orðnir 11 í raun. Og gefi menn sér það, eins og mun gerast ef þessi breyting er gerð, en ekki lögréttubreytingin, þá þýðir það í raun að svokölluð smærri mál hlaðast upp hjá réttinum þannig að dómurinn starfi meira í þriggja manna dómum en í fimm manna dómum, og þá eru í raun og veru orðnir til þrír dómar. Það bíður þeirri hættu heim að sá sem á mál sín að sækja undir réttinn, geti haldið því fram í fullri alvöru og með allmiklum rökum að niðurstaðan í máli hans hafi orðið þessi, kannske niðurstaða sem hann telur óæskilega, ekki æskilega, en fjallaði, hafi verið skipaður þessum mönnum og ekki hinum mönnunum. Að vísu var samþykkt í Ed. brtt. frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni sem átti að mæta þessu að nokkru en ég hygg þó að það muni ekki gerast.

Löglærðir menn, sem hafa gagnrýnt þetta, orða það svo, að með þessari breytingu sé réttareiningu í landinu stefnt í voða. Ég held að það þurfi ekki löglærðan mann til að sjá það í hendi sér að þessi hætta er mjög fyrir hendi. Menn hafa bent á erlend fordæmi. Mér er sagt að á Norðurlöndum, og þá er ég að tala um ákvæðið til bráðabirgða, ekki þann eina dómara sem gerð er till. um í 1. gr. frv., heldur um álvæði til bráðabirgða þar sem settir eru upp aukadómarar um sinn, þar séu tvær fyrirmyndir fyrir þessu. Önnur mun vera frá Finnlandi og hin frá Noregi. Og hvenær skyldi það hafa verið gert? Jú, það er eftir stríð þegar Hæstiréttur var að elta uppi „Kvíslinga.“ Manni sýnist að í réttarsögulegu tilliti séu það ekki fordæmi til að fara eftir.

Ég held að það hljóti að vera markmið löggjafans, að um Hæstarétt sé eining, að svo miklu leyti sem til hans er litið sem stofnunar. — Það verður auðvitað aldrei eining um Hæstarétt og á ekki að vera það raunar hvað varðar niðurstöður sem hann kannað komast að. Það er svo út af fyrir sig annað mál, sem er mitt sérsjónarmið, að ég er þeirrar skoðunar að Hæstiréttur hér sé of lokuð stofnun í þeim skilningi að hann tekur ekki sem stofnun þátt í almennri umræðu sem verður í þjóðfélaginu um niðurstöðu sem hann kann ð hafa komist að. Fyrir þessu er hefð í okkur skyldum réttarríkjum. Það er allt öðruvísi hefð í engilsaxnesku löndunum og hefð að þessu leyti sem ég tel vera til fyrirmyndar í Bandaríkjunum t.d. er hæstiréttur pólitísk stofnun, eins og hann er eðli málsins samkv. En þetta er út af fyrir sig allt annað mál. Hér er verið að leggja til að brjóta Hæstarétt upp í margar smætti dóma. Niðurstöður kunna að vera þannig, ég tala nú ekki um ef þróunin verður að hæstaréttardómarar fari að sérhæfa sig í einstökum málum þannig að eitt settir af dómurum dæmi í málum af einni tegund o.s.frv. Þá stendur sá sem á undir réttinn að leita, andspænis þeim möguleika að það sé samsetning réttarins sem hafi komist að tiltekinni niðurstöðu varðandi hans mál, en í réttinum kunni að vera önnur samsetning af mönnum sem vegna annars upplags annars bakgrunns hefði getað komist að allt annarri niðurstöðu.

Orð mín má ekki skilja svo, að mér sé ekki mætavel ljós sá vandi sem stafar af því, að mál hafa safnast saman fyrir réttinum. Þetta er allt saman ljóst. Fyrir nokkrum árum var þessi vandi einnig mjög ljós í dómskerfinu. Kunnáttumenn þar segja mér raunar að vandinn hafi flust til. Þetta var áður vandamál á lægra dómstiginu, en hefur nú færst á hið efra dómstig. Um þetta urðu m.a. miklar umræður í samfélaginu vegna þess að auðvitað hefur slíkt og getur haft hina hroðalegustu eftirleiki, sem sé þá, að menn taki ekki út refsingu sína, hvað sem mönnum annars finnst um réttmæti slíks, fyrr en mörgum árum eftir að brot var framið. Um þetta urðu miklar opinberar umræður í samfélaginu. En dómsmálayfirstjórnin tók fullt tillit til þessarar umræðu og svaraði þetta var í dómsmrh. — tíð núv. hæstv. utanrrh., Ólafs Jóhannessonar — með því að ráða starfsfólk í rn. sem fór að sinna þessu. Eitt af því. sem út úr því starfi kom var frv. til l. um lögréttu. Það var fyrst flutt hygg ég haustið 1976. Ég er þeirrar skoðunar, að lögréttuhugmyndirnar séu einmitt rétta svarið við þeim vanda sem vissulega var til staðar.

Hverjar hugmyndirnar um lögréttu? Þær eru að smærri mál samkv. nánari skilgreiningu fari í gegnum tvo dómstig, þ.e. frá undirrétti til lögréttu og hljóti þar fullnaðarniðurstöðu, en stærri mál, og þá t.d. mál þar sem dómar eru stefnumarkandi, og þá vísa ég til þess sem ég hef fyrr sagt m eðli Hæstaréttar, hefjast í lögréttu, en fara síðan til Hæstaréttar og aðeins í undantekningartilfelli. Þetta er almennum orðum talað rétt leið til að vinna bug á þeim vanda sem myndast sem flöskuháls í dómskerfinu. En í þeirri lausn, við sem hér er verið að leggja til, er ekkert sem kemur í veg fyrir að þessi svokölluðu smærri mál einasta hlaðist upp í réttarkerfinu og verði þar vandi til frambúðar.

Og hugi menn að einu. Setjum svo, að þetta frv. yrði samþykkt og Hæstiréttur nýtti sér heimildir sem hann væntanlega og vissulega mun gera. Þá eru dómarar í Hæstarétti orðnir 11. Setjum svo, að að tveimur árum liðnum sé alveg sami flöskuhálsinn í réttarkerfinu t.d. vegna þess að menn hafa vanist því að fara þessa leið. Hvenær gerist þetta? Það gerist þegar lögfræðistéttin í landinu er í áfrýjunarskapi, sem gerist öðru hverju. Hver halda menn að þróunin samkv. alkunnum lögmálum t.d. kennd við Parkinson, verði? Vitaskuld munu aðstandendur réttarins koma til þeirrar dómsmálayfirstjórnar, sem þá verður, og segja: Ástandið er þannig að við verðum að hafa þetta svona til frambúðar.

Þá er komið að öðrum þætti þessa máls. Í aths, sem kynntar voru í hv. Ed., voru það nokkrir löglærðir menn, m.a. úr dómarastétt, sem fluttu röksemdir um að það ákvæði til bráðabirgða, sem er í þessum lögum,um þessa 2–3 aukadómari sem eigi að ráða, kynni að vera stjórnarskrárbrot. Nú er það stórt orð, að stjórnarskrárbrot, og ég vil fara mjög varlega í að taka undir það eða álykta út frá því, að hér geti verið um stjórnarskrárbrot að ræða. En það sem átt er við, er að það er auðvitað mjög veigamikið og hornsteinn þess kerfis, sem við búum við í þessum efnum, að ef menn eru ráðnir til tveggja ára hugsa þeir auðvitað um sitt starf og síma framtíð, eins og allri menn og allar konur gera á öllum tímum, og þeir hljóta að huga að því, þegar liðið er á þetta tímabil, hver verði þeirra framtíðar þessu starfi eða öðru starfi. Þessa framtíð eiga þeir undir dómsmálayfirstjórnina undir framkvæmdavaldið að sækja. Það er því ekki hægt að segja af fullu öryggi að við þessar kringumstæður séu þessir menn engum háðir nema sjálfum sér. Það er þetta sem átt er við þegar leiddar hafa verið getur að því, leidd hafa verið rök að því, að hér kunni að vera a.m.k. farið á snið við stjórnarskrána.

Nú vil ég endurtaka það, að ég vil fara mjög varlega í að tala um stjórnarskrárbrot í þessum efnum, enda er það stórt orð. Engu að síður eru þetta röksemdir af því lagi að það er mjög erfitt að kasta þeim algerlega frá sér, enda má út af fyrir sig segja að það hafa engar haldbærar röksemdir komið gegn þessum röksemdum um stjórnarskrána, stöðu réttarins og stöðu dómarananna

Á það hefur verið bent, að ástæðan fyrir flutningi þessa frv. sé nú, að innan dómarastéttarinnar séu hugsanlega mjög skiptar skoðanir um hugmyndir um lögréttu, um þetta nýja dómstig, og að ástæða fyrir flutningi þessa frv. sé sú, að einhverjir séu til — og ég vildi gjarnan að hæstv. dómsmrh. gæfi upplýsingar um a.m.k. hug sinn í þeim efnum — sem vilji drepa á dreif hugmyndum um lögréttu. Ég tel að það væri mjög óskynsamlega að farið.

Það hefur verið nefnt, að í lögréttu störfuðu kannske 10 –15 dómarar. Eitt af því, sem hefur vafist fyrir mönnum á undanförnum árum, eru kostnaðarþættir þessa. En hér eru menn í raun að leggja til fjóra nýja hæstaréttadómara. Það er málið þó að því sé dreift her og þar um frv. þ.e. einum í 1. gr. og 1 –2 ákvæði til bráðabirgða. Í raun eru þetta fjórir hæstaréttardómarar, ef heimildin er nýtt til hlítar. Hafi það verið þessi ástæða ein, sem vafðist fyrir mönnum í sambandi við lögréttuna, er nú verið að stíga stórt skref í sömu átt.

Nei, auðvitað er rétt að það er ófremdarástand og það er viðurkennt af öllum, af aðstandendum Hæstaréttar og öllum sem vel vilja um þetta mál fjalla, að málahali hjá Hæstarétti er til vandræða, ekki síst fyrir þá sem eiga undir dóminn að sækja, og svo hitt, að það er ekki við réttinn sjálfan að sakast í þeim efnum. En ef aðrar hliðar málsins eru skoðaðar á undanförnum árum, þá blasir auðvitað við að ein af ástæðum fyrir þessu er sú að, hæstiréttur er gersamlega vanbúinn og þar er við fjárveitingavaldið að sakast. Hann er vanbúinn að starfsliði. Það er t.d. alveg fáránlegt að hæstaréttardómarar skuli ekki hafa löglærða aðstoðarmenn. Þeir þurfa að eyða miklu af starfstíma sínum í alls konar handavinnu sem þeir alls ekki ættu að þurfa að vinna. Og mér skilst að það vanti mikið á að um rétta mönnun sé að ræða í öðru starfsliði réttarins. Ég held að frekar en að vera að fjölga dómurum og raunverulega að leggja til að dóminum verði skipt upp í marga smætti dóma og stofna þar með eðli stofnunarinnar í hættu væri miklu nær að hyggja að því að bæta hinar ytri aðstæður í réttinum . Í þessu frv. til l. er gert ráð fyrir heimild til að ráða einn löglærðan aðstoðarmann. Væri ekki miklu nær að eyða peningum í að fjölga slíkum mönnum heldur en vera að breyta eðli réttarins með þeim hætti sem hér er lagt til? Ég held að þeim, sem þetta frv. hafa flutt, væri miklu meiri sómi að því og það væri réttari málsmeðferð, hvernig sem að því er staðið að öðru leyti.

Herra forseti. Nál. það, sem við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson stöndum að, þar sem þessar röksemdir eru dregnar saman, er svohljóðandi:

Frumvarp þetta til laga um Hæstarétt Íslands kveður á um að dómurum í Hæstarétti verði fjölgað um 1, úr 7 í 8, og auk þess verði heimilt að ráða 2–3 aukadómara um takmarkaðan tíma. Þessar hugmyndir eru fram settar til þess að ráða bót á ófremdarástandi sem myndast hefur vegna þess að mál hafa hlaðist upp í Hæstarétti og fyrir vikið er orðinn óeðlilegur dráttur á afgreiðslu mála þar.

Allir hljóta að vera sammála um að það að það er óæskilegt að mál safnist fyrir hjá Hæstarétti þannig að það geti tekið allt að tvö ár og jafnvel lengri tíma að fá mál þar afgreidd.

Þessi vandi hefur alllegni verið ljós og viðurkenndur í dómskerfinu. Á árinu 1976 var í fyrsta sinn, lagt fram frv. til l. um lögréttu. Hugmyndin að baki lögréttu er einmitt að leysa þennan vanda þannig að smærri mál séu dæmd í héraði og áfrýjað til lögréttu ef um slíkt er að ræða, en stærri mál dæmd í lögréttu og síðan áfrýjað til Hæstaréttar. Hér sýnist vera um frambúðarlausn að ræða á mikilsverðu vandamáli. Frv. um lögréttu hefur alloft verið lagt fyrir Alþingi og komst einu sinni til 2. umr. í seinni deild, en var ekki afgreitt. Nú hafa enn fremur komið fram hugmyndir um að reyna lögréttufyrirkomulagið á stór-Reykjavíkursvæðinu og Reykjanessvæði og útfæra það síðan þyki það gefa góða raun.

Líta má svo á að það sé ekki skynsamleg leið að fjölga dómurum í Hæstarétti umfram það sem nú er. Benda má á að á árinu 1979 var fjölgað um einn dómara, úr 6 í 7. Nú er lagt til að fjölga úr 7 í 8 og enn fremur að ráða 2—3 dómara til viðbótar um takmarkaðan tíma. Gera má ráð fyrir að sé lagt út á þessa braut verð sérhver vandi sem upp kemur í Hæstarétti vegna málafjölda, leystur með fjölgun. Verði að tveimur árum liðnum enn málafjöldi fyrir Hæstarétti þá má gera ráð fyrir að gerð verið tillaga um að 10–11 manna dómur verði varanlegur.

Þetta þýðir það, að í raun verður Hæstiréttur margir dómar, fimm manna dómar og þriggja manna dómar. Svo getur farið að þeir ,sem eiga undir dóminn að sækja muni álíta að dómurinn hafi komist að tiltekinni niðurstöðu vegna þess hvernig hann var saman settur.

Líta má svo á að að hluta stafi vandi Hæstaréttar ekki af því, að dómarar séu ekki nógu margir, heldur vegna þess að ytri aðstæður séu ófullnægjandi. Hæstiréttur hefur lítið starfslið. Miklu fremur en að fjölga dómurum og fara þá í vaxandi máli út á þá braut að Hæstiréttur starfi í mörgum dómum, sýnist skynsamlegt að fjölga öðru starfsliði Hæstaréttar og bæta aðbúnað hans að öðru leyti. Hæstaréttardómarar ættu t.d. að hafa aðstoðarmenn, en þá hafa þeir ekki nú.

Vitað er að innan dómarastéttar eru skiptar skoðanir um lögréttuhugmyndir. Hins vegar gæti svo farið að yrði þetta frv. samþykkt muni það fresta lögréttuhugmyndum um ófyrirsjáanlega framtíð. hér er því ekki verið að leggja til frambúðarlausn á þeim vanda dómskerfisins, sem vissulega er fyrir hendi, heldur mjög líklega tefja fyrir því, að slík lausn fáist á næstunni.

Þess vegna og í trausti þess, að endurskoðað frv, til l. um lögréttu verði lagt fyrir Alþingi þegar á næsta hausti, er lagt til að þessu frv. verði vísað til ríkisstj.

Og undir þetta rita auk mín hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson.

Ég vil vekja á því rækilega athygli, og það er mat miklu fleiri en mín, að þegar við hugleiðum þær forsendur, sem notaðar hafa verið þegar menn hafa andæft gegn lögréttufrv. hér á undanförnum árum, þýðir þetta frv. að lögréttuhugmyndum verði frestað um ófyrirsjáanlega framtíð. Og ég vil vekja rækilega athygli á því við hv. deild, hvað það þýðir. Það þýðir að sá vandi, sem verður vegna uppsöfnunar mála í derinu sem myndar stíflu ýmist í undirrétti eða í Hæstarétti, er alls ekki leystur. Menn eru bara að velta þessum bolta á undan sér. En lögréttufrv. felur líka annað í sér. Það felur það í sér að svokölluðum smærri málum, sem mynda þessar stíflur, sé létt af hæstarétti, en það sýnist vera mjög skynsamleg leið. Með þessu er engin lausn fundin á þeim málum heldur er þvert á móti til frambúðar beinlínis gert ráð fyrir að slík mál hlaðist enn upp í Hæstarétti, hrannist þar upp, og svo geti farið að þessi svokallaða lausn snúist í andhverfu sína, að stíflugarðurinn eigi eftir að hækka. Og hvað ætla menn þá að gera? Fjölga enn? Á Hæstiréttur að vera dómur með 20 dómurum í þessum efnum? Menn verða að athuga að milljónaþjóðir komast af með einn og minni Hæstarétt en hér er verið að leggja til. Við getum farið í það, að annar hver lögfræðingur í landinu verði hæstaréttardómari! En það er varla það sem menn eru að stefna að. A.m.k. þarf að leggja rækilega áherslu á það, að verði þetta frv. samþykkt eins og það stendur erum við að breyta um eðli Hæstaréttar, þá erum við að gera hann að annars konar stofnun en hann hefur verið. Það getur vel verið að það sé það sem menn stefni að. Það getur vel verið að það sé það sem menn telji æskilegt. En sannleikurinn er sá, að það hefur hvergi komið fram í málflutningi þeirra sem hafa mælt fyrir þessu frv. Sú staðreynd, að hér er verið að leggja til eðlisbreytingu án þess þó að leysa þann vanda sem menn eru að stefna að að leysa, hefur verið vandlega falin í sambandi við umr. t.d. í Ed. um þetta frv.

Í hv. Ed. voru fluttar margvíslegar brtt. Þar var lagt til að 1. gr. í frv. yrði felld, þ.e. um hina varanlegu fjölgun. Þessi fjölgun er áhyggjuefni, en mér finnst satt að segja að ákvæðið til bráðabirgða sé ekki síður áhyggjuefni, sú hugmynd að ráða aðstoðardómara í takmarkaðan tíma, hreinlega vegna þess að ég hef enga trú á að annað muni gerast í þeim efnum en það, að að þessum tíma liðnum segjum að þetta séu þrír dómarar — muni talsmenn réttarins koma til framkvæmdavaldsins og segja að þetta hafi gefist vel, málafjöldi sé að vísu enn og fari vaxandi og það allt saman og þessi fjölgun verði að vera varanleg. Við vitum að það er erfiðara að stöðva slíka þróun en koma henni af stað.

Herra forseti. Af þeim ástæðum, sem ég hef nú gert grein fyrir, er lagt til að þessu frv, verði vísað til ríkisstj., og má segja að þar sé ekki í kot vísað. En fari hins vegar svo, að deildin fallist ekki á það, áskil ég mér rétt til að flytja brtt. við 3. umr. og mun auðvitað gera rækilega grein fyrir þeim þegar þar að kemur. Mér finnst það skipta mjög verulegu máli, þegar menn eru að leggja til jafnróttækar breytingar og hér á að gera á stofnun sem skiptir jafnmiklu máli og Hæstiréttur Íslands eðli málsins samkv. hlýtur að gera, og einhvern veginn þykir mér sem í umfjöllun um þetta mál hafi menn ekki alls kostar áttað sig á því, hvað þessar breytingar geti og væntanlega muni hafa í för með sér.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja áherslu á það niðurlag í nál. okkar að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að endurskoðað frv. til l. um lögréttu verði lagt fyrir Alþingi þegar á næsta hausti. Með því er verið að segja að vandinn í dómskerfinu sé vissulega viðurkenndur, en þetta frv. sé ekki rétt lausn á þeim vanda. Fari svo, að samþykkt verði að vísa þessu frv. til ríkisstj., þætti mér að þegar ætti að hefjast handa um að gera lögréttufrv. þannig úr garði og undirbúa þá vinnu svo vel og rækilega að það geti komið hér fyrir þegar næsta haust og orðið sem fyrst að lögum, vegna þess að þar er um varanlega lausn á þessum vanda að ræða.

Ég vildi svo gjarnan spyrja hæstv. dómsmrh. hvort þetta frv. til l. feli í sér að dómsmálayfirstjórnin í landinu að því er framkvæmdavaldið varðar hafi skipt um skoðun að því er varðar lögréttuna eða landsdóm eða hvað svo sem það yrði annars kallað, því að einhvern veginn finnst mér að allur málatilbúnaðurinn í kringum þetta beri það með sér. Það er býsna alvarlegt. Lögréttan var á sínum tíma svar dómsmálayfirstjórnarinnar — og það rétt svar — við gagnrýni vegna þess seinagangs sem þá var og er enn til vandræða. Ef menn vilja nú leggja til að skipta um aðferð er þetta svar, held ég, miklu síðra og sennilega ekki til þess fallið að leysa nokkurn vanda, heldur miklu frekar að búa til nýjan vanda og hann alveg ófyrirsjáanlegan.

Herra forseti. Ég vil að sinni ekki hafa þessi orð fleiri og læt máli mínu lokið.