30.04.1982
Neðri deild: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (4216)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Þá er það hin spurningin sem hlýtur að vakna:

Hvers vegna er það einmitt núna sem við þurfum að spyrna við fótum? Jú, það er gamalt lögmál, að auðvelt er að fjölga í stofnunum, en er erfitt að fækka. Það er ákaflega erfitt að fækka.

Herra forseti. Ég greip með mér nokkrar greinar þar sem minnst er á skipun dómsmála, og ein er eftir ungan dómara sem kom á okkar fund og tjáði okkur að íslenska dómskerfið væri 50 árum á eftir tímanum. Óneitanlega hrökk ég við að fá slíkar fréttir. Ég ætla að vitna hér, með leyfi forseta, í grein sem kom í Þjóðviljanum á því herrans ári 1981 og fjallar um lögréttu, heitir „Lögrétta eða gestaréttur.“ Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér upp ákveðinn kafla, „Leifar einveldis“:

„Hins vegar tíðkast það nú víst hvergi í ríkjum sem byggja á þrígreiningu ríkisvalds, að sömu embættismenn fari með framkvæmdavaldsstörf og dómsstörf í þeim mæli sem hér gerist á héraðsdómsstigi. Þegar erlendir lagamenn eru hér á ferð er það haft til skemmtunar að segja þeim að sami embættismaðurinn byrji á því að handtaka skálkinn, annist síðan lögreglurannsókn og fari loks með málið og dæmi.“

Óneitanlega rifjaði þetta í mínum huga upp gömul mál vestur á fjörðum sem urðu fræg á sínum tíma og voru kölluð Skúlamál. — Þetta er innskot, herra forseti. Þá held ég áfram lestrinum:

„Grikkir stynja enn þá undan því stjórnsýslukerfi sem þeir erfðu eftir Tyrki frá þeim tíma þegar Grikkland laut Tyrkjasoldáni. Talið er að þetta sé einn versti dragbítur á framfarir í landinu. Íslendingum er líkt farið gagnvart leifum hins danska einveldis þótt Danir séu sjálfir búnir að losa sig við það fyrir löngu, bæði á sviði réttarfars og stjórnsýslu.

Þegar konungsvald komst á hér á landi í lok 13. aldar fól konungur sérstökum umboðsmönnum sínum, sem fljótt voru nefndir sýslumenn, innheimtu tekna sinna og saksókn í þeim málum, sem hann átti sök í, auk fleiri umboðsstarfa. Fljótt komst á að sýslumenn nefndu menn í dóma, sem þá voru jafnan fjölskipaðir og nefndir til meðferðar einstakra mála hverju sinni. Sýslumenn staðfestu síðan dómana. Á síðustu áratugum 17. aldar komst hér á konungseinveldi, eins og kunnugt er, og var megineinkenni þeirrar skipunar að allir valdaþættir voru á einni hendi, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Þetta kom svo fram í því, að sýslumenn konungs fóru sjálfir að dæma í málum er fram liðu stundir. Það voru stjórnarhættir af þessu tagi sem menn fórnuðu lífi sínu til að fá afnumda á meginlandi álfunnar frá því á síðari hluta 18. aldar og fram á þessa öld. En hér hafa þeir haldist fram til þessa dags í öllum héruðum landsins utan Reykjavíkur, og það eru þessar leifar úreltra stjórnarhátta og réttarfars sem lögréttufrv. stefnir gegn, stjórnsýslunni, réttarfarinu og þar með öllum almenningi í landinu til gagns.“

Herra forseti. Einhver mundi nú spyrja: Verða þá sýslumennirnir ekki verkefnislausir? Er þá ekkert fyrir þá að gera lengur? Ég vil lesa hér áfram og vitna í annan kafla, sem víkur að því, hvaða störf þeir gætu haft með höndum, stjórnsýslu umboðsmanna:

„Það er raunar stórfurðulegt, hvernig sýslumönnum landsins hefur tekist áfallalítið að sameina dómsstörf og umboðsstörf, svo ólík sem þau eru í eðli sínu, svo ólíks hugarfars, afstöðu og starfsaðferða sem krafist er á hvoru sviði fyrir sig. Auðvitað hefur ekki farið fram hjá því, að dómar hafi borið þess merki, að dómarinn hefur hvorki haft tíma né næði til að sinna máli svo fljótt og vel sem skyldi, og oft hefur mátt sjá þess merki, að vandasöm dómsstörf voru ekki daglegt viðfangsefni þess sem dóminn kvað upp. Á hinn bóginn hefur þess gætt, að aðstaða sem óhlutdrægs úrskurðaraðila hefur bundið hendur sýslumanna þegar þurfti traust og snör handtök við að framkvæma það sem fyrir þá var lagt af stjórnsýslulegum yfirboðurum. Það þarf í raun og veru meira en meðalmann til að setja sig sama daginn í stellingar sem dómari, sem enginn getur sagt fyrir verkum, og eiga síðan að taka við fyrirmælum t.d. ráðh. fyrir hönd rn., sem e.t.v. er aðili að því dómsmáli sem um er fjallað. Í ofanálag hafa sýslumenn á undanförnum árum þurft að þola það af löggjafanum, áhrifamönnum í sveitarstjórnarmálum og öðrum, að gengið væri út frá að embætti þeirra væru úrelt þing sem yrðu að víkja. Ég vil hins vegar fullyrða að án hæfra umboðsmanna í héruðum landsins sé enginn vegur að halda uppi virkri stjórnsýslu hér á landi, en til þess að sýslumenn geti gegnt því hlutverki að færa út í lífið þær ákvarðanir, sem teknar eru af Alþingi og ríkisstjórn, þurfa þeir að geta einbeitt sér að stjórnsýslustörfum. Að þessu miðar frv. með því að leysa sýslumannsembættin að mestu leyti undan dómsstörfum og fela þau mönnum sem hafa dómsstörf að aðalstarfi.“

Herra forseti. Það er nauðsynlegt innskot hér, að þessi grein víkur að lögréttufrv. og á við það frv. Þá held ég áfram, með leyfi forseta:

„Engin von er til að þau umboðsstörf, sem sýslumenn fara með fyrir ríkisvaldið, verði falin öðrum svo vel fari, t.d. sveitarstjórnarmönnum eða samtökum þeirra. En aftur er mikil von til að dómsstarfalausir sýslumenn geti tekið við ýmsum störfum, sem nú eru unnin í ráðuneytum eða öðrum miðstjórnarstofnunum, og sparað með því mörgum manninum sporin suður.“

Þá víkur greinarhöfundur að hinu mikla álagi sem er á Hæstarétti. Það er athyglisvert, að það er sennilega ekki hægt að finna nema örfáa dómara í þessu landi undir fertugu sem treysta sér til að verja þá stefnu sem upp er tekin í hæstaréttarlögunum. Og það er hægt að finna marga í hópi hinna eldri sem eru reiðubúnir að taka við hinni nýju stefnu sem mótuð var með lögréttufrv. En þá held ég áfram, með leyfi forseta, þar sem frá var horfið og kem að kaflanum um álagið á Hæstarétt:

„Annar megintilgangur frv. er að létta af því geysilega álagi sem lagst hefur í síauknum mæli á Hæstarétt á undanförnum árum, en samkv. frv. má gera ráð fyrir að þeim málum, sem til Hæstaréttar fara og þangað eiga lítið eða ekkert erindi, muni stórfækka við lögtöku frv.“

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að vekja á því athygli, að hér er átt við frv. til lögréttu sem ekki hefur verið lagt fram á þessi þingi.

„Til upplýsingar má geta þess, að í sept. 1976 lágu 74 mál fyrir Hæstarétti tilbúin til flutnings, en í ágúst 1980 117 mál. Samtals höfðu að meðaltali liðið 19.3 mánuðir frá áfrýjunum til dóms í venjulegum einkamálum dæmdum á árinu 1976, en sambærileg tala var 27,4 mánuðir á árinu 1980 eða tvö ár og þrír mánuðir. Ég tel orsakanna til þessa mikla álags hér, eins og til margs annars vanda, að verulegu leyti að leita í verðbólgunni. Menn, sem stefnt er til skuldagreiðslu, sjá sér þrátt fyrir háa vexti hag í því (sem þó alltaf eru í raun neikvæðir) að draga mál sem mest á langinn, oft með léttvægum vörnum. Það getur verið mikil freisting fyrir aðila í atvinnurekstri að verða sér úti um 3–5 ára gjaldfrest á 35–46% vöxtum með þessum hætti. Því miður mun ætlunin með framlagningu lögréttufrv. ekki vera sú að koma því fram á þessu þingi, og ástæða er til að efast um að nokkur raunverulegur áhugi sé af hálfu dómsmálayfirvalda á lögtöku þess.“

Því miður hafa grunsemdir um, að þetta sé rétt, aukist mjög við framlagningu þess hæstaréttarfrv. sem hér liggur fyrir deildinni. Þá held ég áfram lestrinum, herra forseti.

„Hins vegar mun nú vera í uppsiglingu áætlun um að setja til bráðabirgða dómendur í Hæstarétti til að vinna upp þann hala, sem þar hefur safnast fyrir, að finnskri fyrirmynd. Þessi hugmynd fer þó algerlega gegn þeim grundvallarreglum sem dómstólaskipun okkar byggist þrátt fyrir allt á. Það er ein af meginreglum réttarfars, að almenningur og aðilar megi treysta því, að þeir, sem eiga að dæma mál þeirra, séu þannig settir að þeim verði ekki auðveldlega vikið úr starfi að geðþótta pólitískra valdhafa.“

Hér erum við komnir að grundvallaratriðum í þrískiptingu valdsins. Ef við virðum ekki þetta grundvallaratriði, að pólitískir valdhafar eiga ekki að. hafa tök á því að geta vikið dómurum frá, erum við ekki með þrískipt vald í landinu.

Herra forseti. Þá held ég áfram þar sem frá var horfið: „Skipuðum dómurum verður ekki vikið úr starfi til fullnaðar nema með dómi.“ Ég verð aftur að gera hlé. Það er sá stóri munur á því að vera skipaður í starf eða settur í starf, að sá, sem er skipaður í starf, verður ekki úr því starfi færður nema með dómi, nema hann sjálfur óski eftir að víkja úr starfi. Sá, sem er settur, á það að sjálfsögðu undir góðvild framkvæmdavaldsins hvort hann verður látinn vera áfram í starfi eða ekki. Með leyfi forseta vil ég þá halda áfram lestrinum:

„Það er íslensku réttarfari til vansæmdar að bjóða mönnum fyrst að látið sé viðgangastað verkefni hlaðist á æðsta dómstól þjóðarinnar fram úr öllu hófi án þess að úr sé bætt með raunhæfum og viðeigandi lausnum og að síðan, þegar neyðarástand hefur skapast, séu fengnir til menn sem komnir eru upp á náð og miskunn ráðh, um öryggi sitt, til að vinna þau verk sem samkv stjórnskipun ríkisins eiga að vera í höndum æðsta handhafa sjálfstæðs dómsvalds. Í stað þessarar neyðarlausnar má auk lögtöku lögréttufrv. benda á eftirtalin úrræði:

1. Áfrýjunarfjárhæð: verði hækkuð verulega og verðtryggð.

2. Dómvextir verði ákveðnir þannig að enginn sjái sér hag í að halda uppi málamyndavörnum til að afla sér gjaldfrests. Einnig mætti verðtryggja dómkröfur: með öðrum hætti:

3. Ráðnir verði löglærðir aðstoðarmenn að Hæstarétti til að auðvelda dómurum störf þeirra. Þannig yrði búið að dómendum að þeir verði með öllu lausir við handavinnu, sem almennt starfsfólk getur innt af hendi.

Herra forseti. Ég verð áð gera hér innskot því að það kom fram hjá forseta Hæstaréttar í viðtali við nefndina, að þeir hefðu ónógt starfslið og augljóst væri að auka mætti afköst Hæstaréttar ef menn litu á þann vanda, að hægt væri að auka afköst réttarins án þess, að fjölga dómurum. Ég held ,áfram, með leyfi forseta:

„4. Leitt verði í lög að t.d. þrír hæstaréttardómarar fari yfir hvert mál í upphafi og kveði á um hvort það skuli hljóta efnismeðferð. Verði niðurstaðan neikvæð verði máli síðan sjálfkrafa vísað frá dómi. Fyrirmyndin að þessu er fengin í Noregi.“

Ég ætla að víkja örlítið að þeim texta sem ég er búinn að lesa. Ef þetta væri nú allt saman uppspuni hjá mér væri þetta út af fyrir sig ekki alvarlegt mál. Þá hefði ég sem ólöglærður maður tekið mig til og samið hér ræðu til að flytja í sölum þingsins. Svo er ekki. Ég er að flytja hér grein ritaða af einum af dómurum þessa lands, og annaðhvort er maðurinn að dæma rétt í því máli, sem menn eru að dæma hér, dæma í stöðu dómsvalda með þeirri grein sem hann hefur ritað, eða ég hlýt að spyrja: Er hann fær um að vera dómari í þeim störfum sem hann er? Ég lít svo á að þegar nefnd fær í hendur jafnafdráttarlaus mótmæli gegn lagafrv. og eru í þessum texta sem ég hef hér undir höndum, þá hljóti hún að hafa þá siðferðilegu skyldu að koma þeim gögnum á framfæri við þingið að þannig að það fari ekki milli mála á hvaða rökum afstaða manna er reist. Það væri kannske einfalt að skýla sér á bak við meirihlutaálit og skrifa bara upp á. En það er nú einu sinni svo, að okkur er ætlað löggjafarhlutverkið: Þess vegna er það ekki háðung hæstaréttar eða dómaranna í landinu hvernig þessi mál standa. Það er háðung löggjafans. Og á hvaða aðila í þessu landi eigum við að hlusta ef ekki hina ungu menn í dómarastétt Íslands sem vilja breyta, þessum málum? Hvaðan hefur frumkvæði til breytinga komið ef það hefur ekki komið frá ungum mönnum á hvaða sviði sem er? Það hefur verið gegnumgangandi regla.

Herra forseti; Með leyfi forseta vil ég víkja hér að texta sem okkur hefur borist í nefndinni og er á þessa leið. Athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frv um breytingar á lögum um Hæstarétt Íslands:“

Til skýringar vil ég geta þess, að nú er verið að fjalla um það sem hér liggur fyrir. Nú er ekki lögrétta það lagafrv sem er til umfjöllunar í greininni, eins og var í þeirri fyrri. Með leyfi forseta hef ég þá lesturinn: „1. Ákvæði 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, er byggt á því, að umboðsstarfslausir dómendur skuli skipaðir til óákveðins tíma. Fræðimenn; sem ritað hafa um 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar eða sambærileg ákvæði í dönsku stjórnarskránni eru í aðalatriðum sammála um þessar skýringar sbr: t.d. Stjórnskipan Íslands eftir Ólaf. Jóhannesson, útg. 1955 í Reykjavík bls: 2768–279, ný útgáfa 1978 í-Reykjavík bls. 276–279.“

Ég sleppti hér úr örlitlum kafla, þar sem vitnað í dönsk rit einnig þessu máli til stuðnings, og held ég þá áfram með efnislegan þátt þessa máls; með leyfi forseta:

Efnisrökin að baki reglunni eru mikilvægi þess, að dómarar séu sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum. Er leitast við að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið geti beitt dómara þrýstingi en einmitt slíkt ástand gæti skapast við það að dómarar væru settir eða skipaðir til ákveðins tíma. Þetta á sérstaklega við þegar atvik benda til þess að áframhaldandi setning að fyrra tímabili loknu sé ekki útilokuð:“ (Forseti: Á hv. ræðumaður langt eftir?) Herra forseti. Ég hef rétt hafið mál mitt. (Forseti: Ég má þá til að biðja hv. ræðumann að gera hlé á máli sínu, ef hann vildi svo vel gera.) Sjálfsagt, herra forseti: —.{Frh}