30.04.1982
Neðri deild: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (4228)

314. mál, dýralæknar

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Frá því er að segja, eins og gefur að skilja, að engin vinnubrögð eru að frv. sigli í gegn án þess að mönnum gefist neitt færi á að kynna sér það, enda þótt menn hafi að vísu haft þennan málatilbúnað innifólginn í stærra frv. En rétt er að þetta frv. er flutt af nefnd. Ég hygg þó að ef gott samkomulag næst um þetta mál muni ég beita mér fyrir því, að það nái afgreiðslu í hv. deild á mánudag. En ég vil helst hafa þann hátt á, að málið fari til landbn. og við fáum hér, hv. þdm., á borð okkar skýrgreiningu á hvers vegna málum er svo komið sem raun ber vitni um vegna flutnings þessa frv. og á þeirri nauðsyn sem til ber að frv. verði að lögum, af því að telja verður að það sé á tæpasta vaði að upp verði tekið, þótt að hluta sé, úr frv. á sama þingi, úr frv. sem hefur verið fellt í annarri hvorri deild. En eftir sem áður hygg ég að þessi framgangsmáti ætti að vera nægjanlegur og viðhef hann.