03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (4238)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur fengið mjög ítarlega meðferð og undirbúningur þess hefur staðið yfir lengi. Það hafa farið fram mjög ítarlegar viðræður af hálfu Íslendinga víð Alþjóðaorkustofnunina til þess að kynnast viðhorfum þeirra sem þar ráða málum, og þau gögn, sem fylgja frv., hafa að geyma mjög — ég vil segja: ítarlegar og allt að því tæmandi upplýsingar um það, hvaða skyldur og hvaða réttindi það eru sem um er að ræða og fylgja aðild að stofnuninni.

Ég vil þakka þm. fyrir ágætar undirtektir við þetta frv. Þetta er stjfrv. og talsmenn stjórnarandstöðunnar hér í hv. þd. hafa tekið frv. vel. Ég ætla að það séu langflestir þm. fylgjandi því að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég áforma því að sjálfsögðu að endurflytja frv. á hausti komanda. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að nafnið á frv. er neyðarbirgðir olíu, það heitir ekki Frumvarp um aðild að Atþjóðaorkustofnuninni. (Gripið fram í.) Það skal ég ekki um segja, um það má deila. Meginkjarni þessa máls er að tryggja Íslendinga í olíumálum. Það er meginkjarninn. 1. gr. frv. fjallar um það, að til þess að tryggja þetta, stuðla að því, heimilar frv. að Ísland gerist aðili að stofnuninni.

Ég tók svo til orða í framsöguræðu, að frv. væri lagt fram til kynningar. Ég skal fullkomlega viðurkenna að það orðalag er kannske ekki nægilega þinglegt, vegna þess að þegar frv. er komið til Alþingis fær það auðvitað þá meðferð sem Alþingi ákveður. Það hefur enn þá ekki verið ákveðið hvenær þingslit verða, en það liggur í loftinu að þau verði fljótlega. Ég get þess vegna tekið undir það með hv. þm. Lárusi Jónssyni, að það sé nánast tæknilega útilokað að afgreiða málið á þessu þingi. Eigi að síður taldi ég rétt, eftir að fjatlað hafði verið um málið, að leggja það fram. Eins og ég sagði áður stefni ég að sjálfsögðu að því að endurflytja frv. í haust ef það ekki verður afgreitt á yfirstandandi Alþingi.