03.05.1982
Efri deild: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (4239)

307. mál, neyðarbirgðir olíu o.fl.

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hv. 11. þm. Reykv. lét að því liggja hér, eins og hann raunar gerði í umr. fyrr í vetur um þetta sama mál, að tilgangur okkar þm. Alþfl. með flutningi áðurnefndrar tillögu væri sá, að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni, að því er virtist og að því er hann segir, án þess að þar væru nokkur skilyrði sett. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að í lok grg. með þáltill. okkar segir: „Um rökstuðning fyrir samþykkt þessarar þáltill. vísast að öðru leyti til þeirrar skýrslu“ — og þá er ég að vísa til skýrslu sem lögð var á borð þm. Þetta er auðvitað útúrsnúningur h já hv. þm. Ég kannast svo sem við það, það er ekki ný bóla. Auðvitað gerum við okkur- eins og allir þm. — fulla grein fyrir því, að Ísland gerist ekki aðili að samtökum sem þessum nema að undangengnum viðræðum, og auðvitað hljóta þar að koma fram skilyrði af okkar hálfu. Þetta liggur í hlutarins eðli. Hins vegar erum við orðnir vanir því, hv. þm., bæði í þessari hv. deild og í Sþ., að okkur sé brugðið um þekkingarleysi, okkur sé brugðið um fáfræði. Það er daglegt brauð þegar þessi hv. þm. kemur hér í ræðustól. Mér finnast þetta heldur óviðkunnanlegar yfirlýsingar, en við verðum að sitja undir því að vera fáfróðir, vera illa lesnir, hafa ekki lært heima. Það er daglegt brauð að heyra þetta úr munni hv. þm. Við heyrðum hér áðan líka að við vildum ekki gæta hagsmuna Íslands. Það eru sjálfsagt allir vondir nema við. (Gripið fram í.) Viljum ekki gæta hagsmuna Íslands, þetta höfum við heyrt. Ég bíð eftir því að heyra hann segja það úr þessum ræðustól, að við hinir séum þannig af guði gerðir að við séum ekki hæfir til þess að vera þingmenn. Það hlýtur að koma næst, því að hann heldur hér ekki ræðu öðruvísi en að segja hvað við séum fáfróðir, illa lesnir og trössum okkar heimavinnu í rauninni. Ég gerist næsta þreyttur á slíku tali, og ég hygg að svo sé um fleiri þm. Það er næstum því sama um hvaða mál er hér að ræða í þessu tilliti.

Svo kemur það fram í rökstuðningi þeirra Alþb.manna um þetta frv., að við séum að leggjast gegn hagsmunum hinna fátækari þjóða. Þetta kom líka fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í umr. í Sþ. um þáltill. okkar. Ég kannast ekki við að það sé hægt að færa til sanns vegar. Ég kannast ekki við það.

Enn koma það fram sem fáránleg rök í þessu máli, að hér sé enn eitt tækifæri fyrir þingmenn og embættismenn til að fara í ferðalög til útlanda. Ég veit ekki hver þm. ferðast mest, en það getur vel verið að það séu einhverjir hér sem hafi hugmyndir um það. Sá þm., sem e.t.v. ferðast mest, virðist hafa alveg sérstaka hæfileika til að sameina alls konar óskyld erindi sínum ferðum, eins og lesa má í blöðum. Það væri þá kannske ekki úr vegi að fara þess á leit við hann, að hann sameinaði erindrekstur í þessu sambandi einhverri af sínum ferðum til útlanda. Það ætti að sjálfsögðu að geta gengið upp.