03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4498 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., komið úr Ed. þar sem ekki náðist samkomulag um málið og stjórnarandstaðan lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstj. aftur vegna skorts á upplýsingum. Ég efast ekki um að til eru í þessu frv. einhver atriði sem eru til bóta frá því sem nú er, en veigamikil atriði eru óupplýst, eins og kom fram í gögnum sem hv. landbn. Ed. hefur haft undir höndum. Vil ég þá fyrst og fremst vísa til bréfs hagsýslustjóra, Magnúsar Péturssonar, til landbn., sem dags. er 24. apríl á þessu ári, en það er svar við bréfi sem sent var fjárlaga- og hagsýslustofnun og er beiðni um ýmsar upplýsingar, eins og t.d. árlega framleiðslu grasköggla, um birgðasöfnun milli ára, um verðlagningu, um stofnkostnað nokkurra graskögglaverksmiðja, um samanburðarverð á framleiðslu nýrri og eldri verksmiðja, um hvort hagkvæmara sé að auka graskögglaframleiðslu með meiri nýtingu eldri verksmiðja eða byggingu nýrra og hver sé fjármagnskostnaður slíkra verksmiðja sem áformað er að byggja.

Í svari hagsýslustjóra kemur m.a. fram, að meðalársframleiðsla áranna 1976–1981 nam 9100 tonnum. Þá er það jafnframt upplýst, þegar spurt er um birgðasöfnun milli ára, að af framleiðslu ársins 1978 hafi verið óseld 1000 tonn í maílok 1979, en þau voru síðan seld á tímabilinu júní-des. 1979, og af framleiðslu 1980 voru um 2000 tonn óseld í maílok 1981, en voru seld á tímabilinu júní-okt. 1981. Um verðlagningu grasköggla kemur fram í svari hagsýslustjóra, að miðað við gefnar forsendur sé innlenda framleiðslan um það bil 9% óhagkvæmari í verði miðað við innflutning. Um stofnkostnað nýrra verksmiðja segir að á árinu 1980 hafi verið unnin á vegum þáv. landbrh. athugun á kostnaði við stofnun nýrra graskögglaverksmiðja þar sem m.a. hafi verið borin saman notkun mismunandi orkugjafa til þurrkunar og miðað við framleiðslugetu verksmiðju. Í umræddri skýrslu hafi komið fram, hver sé breytilegur kostnaður, fjármagnskostnaður og heildarkostnaður, miðað við mismunandi byggingarkosti og gefnar forsendur um afskriftartíma og ávöxtun fjármagns. Fram kemur, að ekki sé hægt að svara spurningunni um stofnkostnað eða aðra kostnaðarþætti víð verksmiðju í Saltvík eða í Hólminum án þess að fyrir liggi forsendur um stærð verksmiðju, orkugjafa o.fl. Um það, hvort hagkvæmt sé að auka framleiðslu eldri verksmiðja í stað þess að byggja nýjar, kemur fram í svari hagsýslustjóra að ekki sé hægt að svara þessari spurningu fyrr en liggi fyrir áætlun um nauðsynlegar fjárfestingar sem þarf að ráðast í vegna þess. Þetta atriði virðist þess vegna vera ókannað.

Um fjármagnskostnaðinn segir hagsýslustjóri svo, með leyfi forseta:

„Til þess að fá rétta mynd af fjármagnskostnaði eldri verksmiðja og hvernig hann kemur fram í verði framleiðslunnar þyrfti að kanna reikninga verksmiðjunnar frá upphafi og draga inn í þá athugun framlög ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Án þessa verður samkeppnishæfni nýrra verksmiðja samanborið við framleiðslu eldri verksmiðja ekki metin raunsætt.“

Af því, sem ég hef hér rakið, sést að ýmsir lausir endar eru í þessu máli. Ég tel þess vegna æskilegt að hv. landbn. Nd. afli sér frekari upplýsinga ef þær er hægt að fá, en að öðrum kosti verði þessu máli vísað til ríkisstj. sem vinni málið frekar, lagi það til og komi með nýtt frv. næsta haust í þessu efni þannig að þm. gefist kostur á að meta þetta mál á grundvelli nauðsynlegra upplýsinga. Það er ljóst að uppbygging og rekstur fóðurverksmiðja er umdeilt atriði, ekki aðeins í landinu öllu, heldur líka á meðal bænda, og til eru þeir bændur sem á sínum tíma settu á stofn eigin framleiðslu og hafa gagnrýnt afskipti ríkisvaldsins af þessum málum.

Með orðum mínum er ekki verið að segja að útiloka eigi afskipti ríkisvaldsins, heldur held ég því fram, að nauðsynlegt sé að ákveðnar upplýsingar liggi fyrir til þess að þm. geti í þessum málum sem öðrum gert sé nægilega ljósa grein fyrir því, hvort og hvenær ríkið eigi að leggja til fjármagn, annaðhvort í formi framlaga eða með niðurfellingu opinberra gjalda, þegar atvinnurekstur á í hlut. Varðandi landbúnað er augljóst að slíkt hefur áhrif á verð landbúnaðarafurða og þarf að meta sem slíkt. Þá kemur jafnframt upp á yfirborðið sú spurning, að hve miklu leyti á að greiða að fullu fyrir landbúnaðarvörur, þegar þær eru keyptar af þeim sem neyta þeirra, eða hvort leggja eigi fram af fjármagni skattborgaranna fjárframlag í því skyni að lækka verð á landbúnaðarvörum. Út í þá sálma er ekki ástæða til að fara við svo búið, en ég held að miðað við þann skort á upplýsingum sem upplýstur var í Ed. sé ástæða til að hvetja hv. nefnd til að kanna rækilega hvort hægt sé að ná fram þeim upplýsingum sem á vantar, en að öðrum kosti að vísa málinu til ríkisstj. í þeim tilgangi að málið verði unnið betur, upplýsingum safnað og málið lagt fyrir næsta þing. Þá geta þm. gert sér betur grein fyrir málinu.

Herra forseti. Með þessum orðum, eins og ég hef sagt áður, er ekki verið að leggja til að afskipti ríkisins verði engin af þessum málum, heldur aðeins verið að leggja áherslu á að það er varla hægt að ætlast til þess, að þm. geti á einum eða tveimur dögum í þinglok tekið ákvörðun í máli eins og þessu, þegar upplýst er að ekki liggja fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar.