03.05.1982
Neðri deild: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4506 í B-deild Alþingistíðinda. (4265)

228. mál, barnalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég neita því ekki, að það hefur komið mér nokkuð á óvart, hversu mikla vinnu þetta litla mál hefur kostað hv. nefnd. Ég vil hins vegar þakka nefndinni fyrir að leggja þá vinnu af mörkum, ekki síst þeim hv. tveim þm. sem treysta sér til að samþykkja frv.

Það er óneitanlega dæmigert, að þegar kemur að málum eins og þessum, sem snerta beint fjölskylduna, er eins og áhugi manna daprist mjög. Menn gera sér það til erindis að hafa við það að athuga, að þetta litla frv. sé upphaflega miðað við að vera breyting á barnalögum, og koma með þau rök, að það sé óeðlilegt að málefni annars rn. en dómsmrn. séu í þeim lögum. Þetta á sér engan stað vegna þess að þegar eru í barnalögunum ákvæði sem leggja t.d. stofnun eins og Tryggingastofnun, ríkisins, sem heyrir undir heilbr.- og trmrn., skyldur á herðar og Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem heyrir undir félmrn. Þetta er því auðvitað ekkert óalgengt og á engan hátt óeðlilegt. Þetta litla mál er einfaldlega, eins og hér hefur komið fram, til þess flutt að sú starfsemi, sem nú er unnin af starfsmönnum í hlutavinnu og á hlaupum við að veita fjölskyldum ráðgjöf — og þá ekki bara fólki á stór-Reykjavíkursvæðinu, heldur fólki um land allt, verði lögfest þannig að tvö stöðugildi fáist til þess. Ekki er nú beðið um meira en það. Þetta verði síðan endurskoðað að þremur árum liðnum. Hér er ekki um stórar fjárhæðir að ræða. Það er næsta furðulegt, að slíkt mál skuli geta vafist fyrir hv. þm., enda átti ég ekki í nokkrum erfiðleikum með að fá með mér meðflm. úr öllum flokkum.

Ég vil vara hv. þm. við því að sýna málefnum sem þessum endalaust afskiptaleysi og kæruleysi. Það er fólk til í þessu landi sem fylgist náið með afstöðu alþm. til málefna fjölskyldunnar. Það vantar ekkert á að hér hafi menn vissulega sýnt þeim málum áhuga. Bæði hafa þm. Framsfl. og Alþfl. flutt um það tillögur hér á Alþingi, að betur verði búið í haginn fyrir fjölskyldurnar. En um leið og kemur að ofurlitlu máli sem leysir vanda hér og nú, þá virðist vefjast fyrir mönnum að afgreiða það.

Það er töluverður munur á því, hvort þessu litla máli er vísað til ríkisstj. eða hvort það er samþykkt hér. Í fyrsta lagi þýðir samþykkt þess viljayfirlýsingu um að styðja við bakið á þessari starfsemi. Gefum okkur að hæstv. ríkisstj. sinni málinu þegar það er komið til hennar. (HBI: Það er ekki við því að búast.) Það tekur þá ákveðinn tíma. Hér tala menn um að verið sé að endurskoða félagsmálalöggjöf. Hún var fyrir nokkrum árum endurskoðuð í Danmörku. Það tók 13 ár. Mig minnir að endurskoðun félagsmálalöggjafarinnar í Svíþjóð hafi tekið ámóta langan tíma. Þetta mál þolir ekki þá bið. Ég vil því leyfa mér að fara fram á það við hv. þd., að hún samþykki þetta litla mál í atkvgr. hér á eftir.

Ég skal taka undir það með hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, ef það má létta málið, að breyting þeirra hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar verði samþykkt. Mér er hjartanlega sama um hvort þetta heitir frv. til laga um fjölskylduráðgjöf eða hvort þetta er frv. um breytingar við barnalög. Það er ekki aðalatriðið. Það er einungis skriffinnska sem kemur þessu máli sáralítið sem ekkert við. Aðalatriðið er að þessi ráðgjöf verði til. Við megum ekki gleyma því, að til et fólk annars staðar en á stór-Reykjavíkursvæðinu sem hefur engan aðgang að þessari starfsemi nema hún verði fest í sessi.

Ég skora á þm. allra flokka að standa nú utan um þetta mál og greiða því atkv. og að brtt. þeirra tveggja hv. þm. verði samþykktar.