03.05.1982
Sameinað þing: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4556 í B-deild Alþingistíðinda. (4323)

289. mál, söluerfiðleikar búvara

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal hafa þetta eins stutt og mögulegt er. Ég ætla síst af öllu að fara að þreyta kappræður við hv. 11. landsk. þm. um landbúnaðarmálin í heild, svo mjög sem hann talaði nú um hæstv. ríkisstj. og hefur áreiðanlega ekki undanskilið okkur Alþb.-menn í því. A.m.k. skildist mér það á ávarpi hans til hæstv. fjmrh. þó að hann ásakaði okkur ekki mjög mikið, enda oft lýst yfir að það væri líklega einna skást að stjórna landbúnaðarmálum með okkur. Ég mun ekki heldur ræða um allsherjarstefnumörkun í landbúnaði. Ég hygg að það eigi varla við þegar um till. af því tagi er að ræða sem lýtur að jafneinangruðu verkefni og raun ber vitni. Till. hv. 11. landsk. þm. snertir kannske fyrst og fremst ýmis áföll og kannske sérstaklega óvænt áfalt í markaðsmálum og viðbrögð við þeim. Það er mál í hnotskurn, eins og hann kom réttilega inn á í lok sinnar ræðu. Málið í heild megum við hv. 11. landsk. þm. vonandi bera gæfu til að að eiga gagnleg orðaskipti um á næsta þingi í framhaldi af till. hæstv. landbrh. um stefnumörkun sem ég á nokkra aðild að. Ég vil aðeins stikla hér á nokkrum atriðum sem komu í hugann, er ég sá till. sjálfa, varðandi landbúnaðarmálin almennt, og fer þó fljótt yfir sögu. Ég þykist vita að að baki þessari till. liggi góður vilji hv. flm. til lausnar þessara mála einmitt í góðri samvinnu við okkur stjórnarliða og samtök bændanna sjálfra, eins og till. reyndar ber með sér.

Það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að það er ærinn vandi bændastéttarinnar nú á vordögum og ekki hefur dregið úr honum nú síðustu dagana með þeim óvæntu áföllum í veðurfari sem hafa yfir dunið. Það er hins vegar jafnrétt, að sá vandi verður ekki teystur hér og nú, þ.e. sá vandi sem í heild varðar þessa stétt. Til þess er hann of fjölþættur og margstunginn. Það má vekja athygli á því alvarlegasta í þessu efni, sem eru söluerfiðleikar búvara í dag. Ég vil vekja athygli á því, svo sem hér hefur verið gert. Þó að meginmál hv. frsm. hafi vitanlega farið í að flytja nokkra eldhúsdagsræðu um landbúnaðarmálin í heild, sem enginn láir honum í þeirri stöðu sem hann er nú. En ég hygg líka að lítil lausn fáist ef ekki leggjast attir á eitt, bændurnir sjálfir og samtök þeirra og þá samfélagið í heild eftir því sem unnt er.

Atvarlegasta áfallið, sem snertir markaðsmálin, t.d. hrun Noregsmarkaðsins nú, sem er auðvitað það allra alvarlegasta í öllu þessu, verður auðvitað engum stjórnvöldum um kennt. Markaðsmálin hafa löngum verið erfið, flöskuháls framleiðslunnar. Nú keyrir þó um þverbak, svo sem hér hefur verið rakið. Það að taka hér upp nokkra framleiðslustjórnun í samvinnu við bændur og undir forustu og að frumkvæði þeirra hefur þó, eins og hæstv. landbrh. kom inn á, skilað okkur nokkuð á veg varðandi mjólkurafurðirnar. Þó eru þar blikur einnig því fullljóst er öllum að það er ekki um stórvægileg frávik að ræða frá innanlandsmarkaði í framleiðslu mjólkurafurða. Það verða þó að vera frávik, eins og menn hafa sagt, vegna ýmissa aðstæðna, óvæntra áfalla í okkar landbúnaði.

Það er rétt að framleiðslustjórnun, hvernig sem menn vilja skilja það orð, verður að taka mið af mörgu: þjóðhagslegum sjónarmiðum, búsetu og byggð og þó framar öðru framtíðarhag íslenskra bænda, og þar eiga þau sjónarmið að fara saman við þau fyrst töldu, þ.e. þjóðfélagsmarkmiðin í víðara samhengi. Þróun og árangur hlýtur að ráðast af ýmsum ytri aðstæðum og því þó aðallega hvernig til tekst.

Stjórntækin í framleiðslustjórnuninni felast í ýmsu. Ég get nefnt hér nokkur dæmi, t.d. varðandi stefnuna í stofnlánum og þá varðandi fjárfestinguna í heild. Ég viðurkenni að það stjórntæki er seinvirkt, en ef því er beint markvisst og í réttar áttir skilar það sér þegar til tengdar lætur. Það getur komið fram í ákveðinni framleiðslustefnu með takmörkunum, hvort sem menn kalla það kvótaleið eða ekki eða fara einhverja aðra leið. Menn geta líka gripið til ákveðinnar tímabundinnar skattlagningar á fóður, svo sem gert var vorið 1980. En þó eru stjórntækin kannske fyrst og fremst fólgin í einhverju sem er afleiðing af langtímaáætlun sem grundvölluð er á raunverulegri stöðu landbúnaðarins í heild, búrekstrarstöðu jarða almennt, skiptingu í framleiðslugreinar, m.a. hugsanlegri svæðaskiptingu að nokkru, möguleikum til landnýtingar innan skynsamlegra marka og vitanlega þeirri mikilvægu þörf sem þjóðfélagið kallar á varðandi afurðir þessar sem eru hinar dýrmætustu ekki aðeins til neyslu, heldur og til fullvinnslu til útflutnings, svo sem hinn raunverulegi iðnaður, sem ég veit að við hv. flm. erum báðir sammála um að er hinn raunverulegi iðnaður okkar, ber gleggst vitni um.

Hér er vandratað meðalhóf. Framleiðslustjórnun og takmarkanir með vissum tekjumissi fyrir bændur, sem undanfarið hefur verið beitt, getur menn greint á um hverju hafi skilað. Það er hins vegar ljóst, að sú framleiðslustjórnun hefur ekki nægt til jafnvægis eða þess öryggis sem vera þyrfti bæði varðandi markaðsmál og varðandi tekjur bændastéttarinnar. Þarf vissulega að endurskoða þetta kerfi og koma því í það horf sem heilladrýgst kann að verða, og um það þarf að takast sem víðtækust samstaða, ekki síst víð bændasamtökin sjálf. En varðandi landbúnaðinn skyldu menn auðvitað hafa það vel í huga, að valt er gengi atvinnuvega okkar í heild og miklar sveiflur, jafnvel í þeim bjargræðisvegi sáluhjálparinnar sem er kölluð stóriðja, þannig að víða eru sveiflurnar og víða ber að varast þau óvæntu áföll sem yfir geta dunið.

En hvort sem við köllum þetta, sem við höfum verið að gera — eða bændurnir í landinu raunverulega undir þeirra stjórn hafa verið að framkvæma núna, framleiðslustjórn, hvort sem við köllum það það eða tilraun til hennar, þá held ég að öllum sé ljóst að án þessarar framleiðslustjórnar eða tilraunar til hennar hefði mjög horft til verri vegar. Þá hefði vandi okkar í þessum efnum verið miklu stærri, miklu alvarlegri og atveg sér í lagi varðandi okkar mjólkurafurðir, eins og kom gleggst fram í máli hæstv. landbrh. áðan. Þegar við réttilega horfumst í augu við þann vanda sem er í dag skyldi þetta ekki hverfa út úr myndinni.

Markaðsáfall nú til viðbótar við allt annað er auðvitað það alvarlegasta og var að miklu ófyrirséð, og því áfalli þarf vitanlega að mæta með einhverjum hætti. Ég veit að bæði bændasamtök og hæstv. ráðh. og aðrir þeir, sem um þessi mál fjalla, munu reyna að eftir megni að bæta þar úr sem allra best.

Ég vil taka það fram, að ég hef alltaf haft vissar efasemdir varðandi hinar nýju búgreinar, aukabúgreinar eða hliðarbúgreinar, hvort sem menn kalla þetta eitthvað sem menn ættu að hafa til hliðar við hinar hefðbundnu búgreinar eða alger skipti á hefðbundnum búgreinum og hinum nýju búgreinum. Ég hef ekki verið með efasemdir gagnvart þessari leið í sjálfu sér, heldur gagnvart því, þegar menn hafa verið að tala um þetta sem einhverja skjótvirka lausn á vandamálum landbúnaðarins. Mér hefur oft fundist menn segja: Menn verða bara að fara út í aðrar greinar og þá er þetta komið. Þá eru þeir búnir að leysa vandann. — Málið er auðvitað miklu stærra en svo. Þessi leið er seinfarin. Það þekkja þeir örugglega best sem hafa gegnt ráðuneytisstörfum, að þessi leið er ákaflega seinfarin. En það er sjálfsagt að fara hana vegna þess að hún getur skilað verulegum árangri þegar frá líður. Hún skilar okkur hins vegar ekki mikið á veg í vandamálum líðandi stundar og hvað þá þegar óvænt áföll dynja yfir.

Við þessum áföllum þarf nú að bregðast sérstaklega, og ég held að bændur og bændasamtökin sjálf verði að vera í fararbroddi, svo sem löngum áður þegar víð svona erfiðleika hefur verið að glíma, og aðstoð ríkisvaldsins verði þar til að koma. Vitanlega hlýt ég sem stjórnarsinni að fagna öllum stuðningi stjórnarandstöðunnar við að veita okkur fulltingi til að leysa þennan vanda og dreg ekkert úr því.

Ég vil ekki tefja þessa umr. nú svo síðla kvölds, en ég vil aðeins leggja áherslu á að þessum nýju aðstæðum, þessum nýju erfiðleikum, viðbótarerfiðleikum við annað, verða menn að mæta með fullri einurð á þann hátt að bændastéttin sem slík bíði ekki af efnahagslegan hnekki umfram það sem þegar er orðið, þ.e. þann efnahagslega hnekki sem hún ef til vill fengi ekki undir risið. Á þessu stigi held ég að sé aðeins rétt að heita þar sínu liðsinni. En ég vil taka það skýrt fram, að það byggist á þeirri óbílandi trú minni, að blómlegur landbúnaður, sem er byggður á hagkvæmni og fjölbreytni um leið, verður áfram ein styrkasta stoð okkar í þjóðarbúskapnum.