04.05.1982
Neðri deild: 83. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4656 í B-deild Alþingistíðinda. (4454)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. hans svör. Þau voru á sinn hátt mjög skýr. Ég tel að vísu steinull í Skagafirði ekki orkufrekt fyrirtæki. En það er rétt að ef það fyrirtæki kæmi þar mundi það auðvitað hafa mjög góð áhrif á byggðaþróun þar, og síst er ég á móti því. En það, sem fram kom, var í raun og veru það, að naumast gæti orðið um það að ræða í sambandi við Eyjafjörð að festa sig við neitt ákveðið. Skýringin er sú, að menn komi sér ekki saman og það eigi ekki að troða slíkri verksmiðju upp á menn. Auðvitað skil ég þessi ummæli svo, að sú hugmynd, sem á sínum tíma kom fram um álver í Eyjafirði og ég rakti áðan, sé sjálfdauð af þeim sökum, að hún fær ekki undirtektir hjá stuðningsmönnum ríkisstj. við Eyjafjörð. Að öðrum kosti hefði hæstv. iðnrh. unnið að þeim athugunum áfram — þetta skil ég þannig — af meiri krafti en gert er. Að vísu er mér kunnugt um að staðarvalsnefnd hefur farið norður þangað í sambandi við átver. En ég hef haft það á tilfinningunni, að slíkum ferðum fylgdi ekki mikil festa, a. m. k. ekki eins og komið er, og hefur hann hér gefið skýringu á því, að sérstök nefnd hafi verið skipuð, sem ég raunar hafði haft spurnir af, til þess að ræða þessi mál.

En um hinn almenna iðnað við Eyjafjörð sem annars staðar á landinu er náttúrlega ekki um það að ræða að hann hressist nema almenn rekstrarskilyrði iðnaðarins hressist. Auðvitað getur ekki iðnaður dafnað við Eyjafjörð ef honum hnignar hér, ef þar er um almenn atriði að ræða. Það skilur hæstv. iðnrh. jafnvel og ég.

En ég þakka hæstv. iðnrh. hans svör og dreg mínar ályktanir af þeim.