05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4719 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

145. mál, málefni fatlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar til þess er litið, hve skiptar skoðanir og veigamiklar aths. komu fram hjá umsagnaraðilum um þetta frv. um málefni fatlaðra, þarf engum að koma á óvart þótt félmn. hafi þurft töluverðan tíma til að fjalla um þetta mál, samræma sjónarmið og athugasemdir, sem upp komu, og gera á frv. nauðsynlegar breytingar, eins og brtt. félmn. bera með sér. Kannske sést það best á því, hvað félmn. var mikill vandi á höndum í umfjöllun sinni um þetta mál, að félög eins og læknafélög og Geðlæknafélagið voru andvíg samþykkt frv. og höfðu veigamiklar athugasemdir fram að færa, og óskir komu fram hjá þeim, sem vinna að málefnum þroskaheftra, sem æskilegt væri að geta orðið við — það vil ég undirstrika, og rétt væri að hraða ekki afgreiðslu málsins. Óskað var eftir af þeim aðilum að fjalla um það milli þinga þar sem fyrirhugað var að fjalla um þetta mál á ráðstefnu í sumar. Ég tel mikilvægt að um þessa fyrirhuguðu löggjöf um málefni fatlaðra geti orðið eining og samstaða, ekki síst milli þeirra hagsmunaaðila sem réttinda eiga að njóta, því að annað gæti vafalaust bitnað á allri framkvæmd laganna.

Félmn. hefur leitast við að taka tillit til þeirra sjónarmiða, sem fram komu hjá umsagnaraðilum, og flutt við frv. fjölmargar brtt., m. a. um skilgreiningu á hlutverki og skyldum Greiningarstöðvar ríkisins. Einnig fylgir með nál. ný skilgreining á orðinu fötlun. Æskilegt hefði verið að nefndinni hefði gefist meiri tími til að fjalla um hana og fá um þessar nýju skilgreiningar umsagnir hjá þeim sem gleggst þekkja til, en til þess vannst ekki tími. Eins og formaður félmn. lýsti kom fram í öllum umsögnum og viðtölum, sem nefndin átti við ýmsa aðila, að mjög væri á reiki hvaða skilning bæri að leggja í orðið fatlaður í þessum lögum og þar með hverjir réttinda mundu njóta samkv. ákvæðum þessa frv., ef að lögum yrði. Sú skilgreining er bæði vandasöm og viðkvæm og er nauðsynlegt að löggjafinn átti sig vel á því atriði til að ekki komi til erfiðleika og árekstra við framkvæmd þessara laga og það sé nokkuð ljóst hverjir rétt sinn geta sótt samkv. þessu frv. ef að lögum verður. Hér er um algert undirstöðuatriði að ræða. Má t. d. benda á að til að þm. geti áttað sig á umfangi og verkefnum framkvæmdasjóðs öryrkja, viðbótarverkefnum sem á hann er bætt með ákvæðum þessa frv., verður sú skilgreining að vera nokkuð skýr. Samkv. þeirri skilgreiningu, sem margir leggja í orðið fatlaður samkv. þessu frv. og m. a. kemur fram í grg., er um geysilega stóran hóp að ræða þannig að ofviða mun vera þeim sjóði, sem á að standa undir framkvæmdum, nema raunhæf fjármögnun fáist miðað við stórfellda aukningu á verkefnum. Ekki síst er nauðsynlegt að átta sig vel á þessu vegna verkefnanna. En af reynslunni, m. a. af þessum sjóði og t. d. framkvæmdasjóði aldraðra, hefur fjárveitingavaldið haft tilhneigingu til að beina öllum framkvæmdum og kostnaði af þjónustu við aldraða og fatlaða yfir á þessa sjóði þannig að þessir sjóðir standa ekki undir nema broti af þeim verkefnum sem þeim eru ætluð.

Þegar þetta frv. var hér til l. umr. ræddi ég í nokkuð ítarlegu máli um fjármögnunarþátt frv. og sýndi fram á að um væri að ræða alls ófullnægjandi og óraunhæfa fjármögnun miðað við viðbótarverkefni sjóðsins samkv. ákvæðum frv. Ég gerði grein fyrir því, að fjárhagsskuldbindingar framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra samkv. ákvæðum laga um aðstoð við þroskahefta væru þegar orðnar svo miklar og óleyst verkefni svo mörg samkv. lögum um aðstoð við þroskahefta að óraunhæft væri að ætla að sjóðurinn gæti bætt á sig þeim mörgu viðbótarverkefnum sem þessu frv. fylgja, enda væru fjárhagsbeiðnir til sjóðsins um brýn og aðkallandi verkefni miðað við gildandi lög langt umfram getu sjóðsins, en á síðasta ári var ráðstöfunarfé sjóðsins 28 millj. Á þessu ári er ráðstöfunarféð um 28 millj., en beiðnir um brýnar framkvæmdir á þessu ári um 80 millj. Er auðvitað ljóst, og við verðum að átta okkur á því, að við megum ekki með þessari lagasetningu og ýmsum ákvæðum, sem þm. eru tilbúnir að standa að til að bæta stöðu fatlaðra í þjóðfélaginu, vekja vonir sem síðan er ekki hægt að uppfylla vegna þess að undirstöðuna vantar, fjármagnið, til að þm. standi við þau fyrirheit sem felast í samþykkt þessa frv. Það er einmitt þess vegna sem ég hef lagt á það höfuðáherslu, að fjárhagsgrundvöllur þessarar lagasetningar væri traustari, en erfitt er að standa að samþykkt þessa frv. nema það eigi sér traustari fjárhagslegri stoð. Fyrirvari minn í nál. félmn. varðar fyrst og fremst fjármögnunarþátt frv.

Í annan stað vil ég nefna að ég er ekki alls kostar ánægð með þá breytingu sem kemur frá félmn. um 28. gr. frv., sem felur í sér að fella niður heimild til að jafna greiðslum niður á sveitarfélög í samræmi við fjölda íbúa 16 ára og eldri, en um er að ræða þátttöku sveitarfélaga í stofnkostnaði framkvæmda fyrir fatlaða og þá hvernig skiptingu á kostnaði skuli háttað milli sveitarfélaga. Ég tel að með því að fella þetta ákvæði niður hangi í lausu lofti hvernig kostnaðarskiptingin verður milli sveitarfélaganna, og getur það leitt til þess, að hin ýmsu sveitarfélög veigri sér við að fara út í framkvæmdir. Framkvæmdir, sem snerta þjónustu við fatlaða og sveitarfélögin koma upp, eru oft nýttar sameiginlega af fleiri sveitarfélögum. Sum sveitarfélög gætu litið svo á að þau væru ekki skuldbundin til að taka þátt í kostnaði þar sem þau nýttu sér ekki þjónustuna. En auðvitað er sú staða alltaf fyrir hendi að þau þurfi seinna meir á henni að halda, þótt það sé ekki nákvæmlega á þeim tíma sem stofnun eða heimili er komið upp af ákveðnu sveitarfélagi. Þetta ákvæði tel ég því að þurfi nánari skoðunar við þannig að hin ýmsu sveitarfélög haldi ekki að sér höndum í framkvæmdum af þeim sökum að kostnaðarskiptingin milli sveitarfélaganna sé í óvissu.

Varðandi Greiningarstöð ríkisins hefur nefndin, eins og fram kemur í brtt., skilgreint ítarlega verksvið og skyldur Greiningarstöðvarinnar, sem er til mikilla bóta. Ég hef lagt á það áherslu í félmn., að þar sem nú stendur yfir hönnunarvinna á Greiningarstöðinni samkv. ákvæðum laga um aðstoð við þroskahefta væri nauðsynlegt, ef fyrirsjáanlegt væri að þetta frv. næði ekki fram að ganga, að gera breytingu á lögum um aðstoð við þroskahefta, sem tækju mið af þessu frv. að því er Greiningarstöðina varðar, til að ekki þurfi að tefja hönnunarvinnu.

Ég skal ekki tefja tíma deildarinnar öllu frekar nú við 2. umr. þessa máls, en hef aðeins leyft mér að minnast á þá þætti sem sérstaklega snerta fyrirvara minn í nái. frá félmn. um frv. Fleira hefði þó mátt nefna við þessa umr., svo sem brtt. nefndarinnar við 38. gr., er snertir framkvæmdaáætlanir framkvæmdasjóðsins, og 27. gr., er snertir heimild til að veita fé úr framkvæmdasjóði til félagasamtaka vegna stofnkostnaðar í framkvæmdum, stækkunar verndaðra vinnustaða og til að breyta almennum vinnustöðum og bæta tækjabúnað vegna fatlaðra. Samkv. 34. gr. má veita í þessu skyni lán og styrki, en framkvæmd þess, hvort um lán eða styrki er að ræða og eftir hvaða reglum, er sett á vald framkvæmdavaldsins. Ég óttast að ýmis félög, t. d. innan Landssamtakanna þroskahjálpar, sem oft hafa haft frumkvæði að því að koma upp þjónustuaðstöðu fyrir fatlaða, hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir miklum lánum í því skyni, en það er sett samkv. ákvæðum 27. og 34. gr. í hendur framkvæmdavaldsins hvernig skiptingin verður milli láns og styrkja í hverju tilfelli.

Ég skal ekki, eins og ég sagði, við þessa umr. fara frekar í einstaka þætti þessa frv. eða brtt. nefndarinnar og skal verða við ósk forseta um að lengja ekki umr. nú. Í félmn. varð samkomulag um að nm. flyttu ekki brtt. við 2. umr. um málið, og við það samkomulag mun ég að sjálfsögðu standa. Þær brtt., sem ég mun flytja, munu því bíða 3. umr., ef deildin afgreiðir málið þangað. Eins og ljóst má vera af máli mínu snerta þær fyrst og fremst fjármögnunarþátt frv., en ég tel breytingu félmn. um að hækka framlag í framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra úr 27 millj. í 33 millj. alls ófullnægjandi. Ég vek athygli á að á síðustu fjárlögum voru í þessum sjóði rúmar 28 millj., en í frv. er'nú talað um 27, en með samþykkt þessa frv. er verið að stórauka verkefni og skuldbindingar á þennan sjóð og þó að tekjur erfðafjársjóðs komi til viðbótar er um ný og aukin verkefni að ræða umfram þau sem báðir þessir sjóðir sinna í dag. Ég tel að ef alþm. eru almennt þeirrar skoðunar að veita skuli fötluðum aukinn rétt og meiri þjónustu, sem vissulega felst í þessu frv., og ef þm. standa að samþykkt þessa frv., þá hljóti að fylgja þeirri samþykkt fjárhagsleg skuldbinding eða raunhæf fjármögnun, sem gefur tilefni til að ætla að hér sé á ferðinni raunhæf löggjöf, en við séum ekki með ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður, að vekja vonir hjá fötluðum sem ekki er hægt að uppfylla vegna þess að undirstöðuna vantar sem gerir framkvæmdina mögulega. Á þessu atriði sérstaklega er fyrirvari minn í nál. byggður sem ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri við 2. umr. þessa máls.